Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1291, 116. löggjafarþing 212. mál: hönnunarvernd.
Lög nr. 48 21. maí 1993.

Lög um hönnunarvernd.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Hönnun samkvæmt lögum þessum merkir útlit og gerð vöru eða skreytingu hennar í tví- eða þrívídd. Lögin taka ekki til hönnunar þegar aðeins er af tæknilegum ástæðum völ á einum möguleika varðandi útlit eða gerð vöru.
     Hönnuður eða sá sem sækir rétt sinn til hans getur samkvæmt lögunum öðlast einkarétt til hönnunar sem hagnýtt verður í atvinnulífi.

2. gr.

     Einungis sérstæð hönnun nýtur verndar samkvæmt lögum þessum.
     Sérstæð telst sú hönnun sem ekki hefur fyrir upphafsdag, sbr. 6. gr., verið gerð aðgengileg kunnáttumönnum á viðkomandi sviði og frá sjónarhóli notenda er, að heildarútliti, verulega frábrugðin hönnun sem þeir þekkja.

3. gr.

     Hönnun nýtur ekki verndar:
  1. ef hún eða notkun hennar brýtur gegn siðgæði eða allsherjarreglu,
  2. ef hún:
    1. felur heimildarlaust í sér einkenni eða merki sem um getur í 117. gr. almennra hegningarlaga eða einkenni sem eru svo lík öðrum merkjum eða einkennum sem aðrir eiga löglegt tilkall til að villast má á þeim og hönnuninni.
    2. felur heimildarlaust í sér ríkistákn, opinber alþjóðamerki, merki íslenskra bæjar- og sveitarfélaga eða opinber skoðunar- og gæðamerki.4. gr.

     Hönnunarvernd verður til með tvennum hætti:
  1. með skráningu á grundvelli umsóknar, sbr. 14. gr.,
  2. með því að gera vöru, sem hönnunin einkennir, aðgengilega almenningi.


5. gr.

     Í skráðri hönnunarvernd felst að aðrir en rétthafi mega ekki heimildarlaust framleiða, nota í atvinnuskyni, markaðssetja, bjóða til sölu eða leigu, stunda útflutning á, flytja inn eða safna birgðum af vöru sem frá sjónarhóli notenda er, að heildarútliti, eins eða mjög lík hinni skráðu hönnun.
     Í óskráðri hönnunarvernd felst að beina eftirlíkingu af hönnun má ekki framleiða, nota í atvinnuskyni, markaðssetja, bjóða til sölu eða leigu, stunda útflutning á, safna birgðum af né flytja inn án heimildar rétthafa.

6. gr.

     Upphafsdagur skráðrar hönnunarverndar er umsóknardagur hér á landi, sbr. þó 4. mgr. 19. gr.
     Upphafsdagur óskráðrar hönnunarverndar er sá dagur þegar hönnun verður fyrst aðgengileg almenningi.

7. gr.

     Hafi sá er sækir um hönnunarvernd hér á landi á síðustu sex mánuðum fyrir umsóknardag sótt um vernd á sömu hönnun á grundvelli hönnunarlaga (mynsturlaga) eða laga um smáeinkaleyfi í öðru landi sem er aðili að Parísarsamþykktinni um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar skal litið svo á að umsóknin hafi verið lögð inn samtímis hinni fyrri, enda leggi umsækjandi fram kröfu þar að lútandi. Sama rétt eiga þeir sem sótt hafa um vernd á hönnun í ríki sem ekki er aðili að Parísarsamþykktinni ef það ríki viðurkennir samsvarandi forgangsrétt íslenskra umsókna og lög þess um hönnunarvernd eða vernd smáeinkaleyfa eru í aðalatriðum í samræmi við samþykktina.

8. gr.

     Hönnun getur talist sérstæð, sbr. 2. gr., þótt hún hafi birst almenningi allt að 12 mánuðum fyrir umsóknardag (griðtími), enda sé hún birt fyrir atbeina:
  1. hönnuðar eða þess sem öðlast hefur rétt hans,
  2. aðila sem byggir á upplýsingum frá hönnuði eða upplýsingum sem raktar verða til gjörða hans.


9. gr.

     Réttur til hönnunarverndar (hönnunarréttur) tilheyrir hönnuði eða þeim sem öðlast hefur rétt hans.
     Hafi tveir eða fleiri aðilar unnið sameiginlega að hönnun tilheyrir hönnunarverndin þeim sameiginlega.
     Hafi tveir eða fleiri sjálfstæðir aðilar án þess að vita hver af öðrum unnið að sams konar eða mjög svipaðri hönnun sem hver í sínu lagi uppfyllir skilyrði 2. gr. skal:
  1. hver hönnun njóta óskráðrar verndar, en
  2. réttur til skráðrar verndar tilheyra þeim er fyrstur leggur inn umsókn um skráningu.

     Sé krafist forgangsréttar skv. 7. gr. skal taka mið af forgangsréttardegi varðandi mat á rétti til skráðrar verndar, sbr. b-lið 3. mgr.

10. gr.

     Nú hefur aðili notað í atvinnuskyni hér á landi sömu eða mjög svipaða hönnun er annar hefur fengið verndaða með skráningu. Er honum þá heimilt að halda sömu hagnýtingu áfram að því tilskildu að hann hafi verið í góðri trú og að hagnýting hafi hafist áður en umsókn um vernd á hinni skráðu hönnun var lögð inn. Sama á við um þann sem undir sömu kringumstæðum hafði gert verulegar ráðstafanir til að hagnýta hönnunina í atvinnuskyni hér á landi.
     Réttur skv. 1. mgr. telst hluti af viðkomandi atvinnustarfsemi og verður ekki framseldur einn sér.

11. gr.

     Sá sem telur sig eiga tilkall til hönnunarverndar, sbr. 9. gr., er sótt hefur verið um skráningu á eða skráð hefur verið á nafn annars aðila getur krafist þess fyrir dómi að skráningin verði færð á hans nafn. Sá sem á rétt á að vera skráður sem meðeigandi hönnunarverndar getur krafist þess að vera skráður sem slíkur.
     Mál skv. 1. mgr. skal höfða innan tveggja ára frá því skráning er birt í riti skráningaryfirvalda, sbr. 5. mgr. 13. gr. Frestur þessi á ekki við ef eiganda skráðrar hönnunar var kunnugt um að hann ætti ekki löglegt tilkall til hönnunarverndarinnar er hún var skráð eða framseld honum.
     Í hönnunarskrá, sbr. 3. mgr. 13. gr., skal getið um málshöfðun skv. 2. mgr. og niðurstöðu máls.
     Verði eigendaskipti á skráðri hönnunarvernd á grundvelli dóms, sbr. 1. mgr., falla nytjaleyfi og önnur réttindi niður við skráningu hins nýja rétthafa. Eigendaskipta skal getið í hönnunarskrá.
     Hafi skráður rétthafi hönnunarverndar eða nytjaleyfishafi notað hönnunina eða gert ráðstafanir þar að lútandi áður en mál skv. 1. mgr. er höfðað er viðkomandi heimilt að halda áfram notkun að því tilskildu að hann innan tveggja mánaða óski eftir almennu nytjaleyfi hjá hinum nýja, skráða rétthafa. Nytjaleyfið skal veita í sanngjarnan tíma með sanngjörnum skilmálum.
     Nú hefur skráður rétthafi eða nytjaleyfishafi hafið notkun eða undirbúning notkunar gegn betri vitund um rétt annars aðila til hönnunarverndar og á ákvæði 5. mgr. þá ekki við.

12. gr.

     Hafi rétthafi hönnunarverndar eða einhver með samþykki hans markaðssett vöru er nýtur hönnunarverndar eða heimilað slíkt getur hann ekki hindrað notkun, sölu, leigu, innflutning, útflutning eða annars konar dreifingu á vörunni.

II. KAFLI
Skráningaryfirvöld o.fl.

13. gr.

     Málefni samkvæmt lögum þessum falla undir iðnaðarráðherra.
     Einkaleyfastofan fer með framkvæmd laganna. Með skráningaryfirvöldum er átt við þá stofnun nema annað sé tekið fram.
     Einkaleyfastofan heldur hönnunarskrá og tekur hún til skráðrar hönnunarverndar fyrir landið allt. Skráin skal vera aðgengileg almenningi.
     Iðnaðarráðherra skipar áfrýjunarnefnd í málum er varða hönnunarvernd. Nefndin úrskurðar í málum er til hennar verður skotið og varða ákvarðanir skráningaryfirvalda. Í reglugerð verður nánar kveðið á um nefndina.
     Í riti, sem Einkaleyfastofan gefur út, skal birta skráningar og tilkynningar samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Umsókn, skráning o.fl.

14. gr.

     Umsókn um hönnunarvernd skal skila skriflega til Einkaleyfastofunnar. Umsókn skulu fylgja myndir (teikningar eða ljósmyndir) er greinilega sýni hönnun þá er óskast vernduð.
     Nafn hönnuðar skal tilgreint í umsókn. Sé umsækjandi annar en hönnuður skal umsækjandi sanna rétt sinn til hönnunar.
     Umsækjandi skal greiða tilskilin gjöld vegna umsóknar.
     Umsókn má hafa að geyma stutta lýsingu á hönnuninni. Einnig geta skráningaryfirvöld óskað eftir því að slík lýsing sé lögð fram. Lýsingin hefur ekki áhrif á umfang hönnunarverndar.
     Heimilt er að leggja fram líkan af hönnun. Hafi líkan verið lagt fram telst það ákvarðandi varðandi útlit eða gerð hönnunar.
     Nánar skal kveðið á um innihald og frágang umsóknar í reglugerð.

15. gr.

     Rétthafi hönnunarverndar, sem ekki hefur lögheimili hér á landi, skal hafa umboðsmann búsettan hérlendis sem getur komið fram fyrir hans hönd í öllu því sem viðkemur umsókn og skráningu.
     Nafn og heimilisfang umboðsmanns skal skrá í hönnunarskrá.

16. gr.

     Skráningaryfirvöld skulu flokka hönnun samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi í viðauka Locarno-sáttmálans sem upphaflega var gerður 8. október 1968. Slík flokkun hefur ekki áhrif á umfang verndar.

17. gr.

     Í einni og sömu umsókn er heimilt að sækja um vernd á fleiri en einni hönnun er mynda samstæðu. Hver hluti hönnunarsamstæðu verður að tilheyra sama undirflokki samkvæmt Locarno-sáttmálanum, sbr. 16. gr. Nánari reglur um slíka samskráningu skal setja í reglugerð.

18. gr.

     Krefjast má rannsóknar á því hvort tiltekin hönnun sé eins eða svipuð hönnun sem skráð er hér á landi eða sótt hefur verið um skráningu á og orðin er almenningi aðgengileg.
     Ef krafa um rannsókn skv. 1. mgr. kemur fram við innlagningu umsóknar skulu skráningaryfirvöld framkvæma rannsókn svo fljótt sem verða má og láta umsækjanda í té niðurstöður hennar. Nú eru þau tilvik, sem nefnd eru í 1. mgr., fyrir hendi og skal þá hafna umsókninni. Umsókn verður þó ekki afskrifuð fyrr en umsækjanda hefur, innan tilskilins frests, gefist kostur á að tjá sig um synjunina.
     Fyrir rannsókn samkvæmt þessari grein skal greiða tilskilið gjald.

19. gr.

     Skráningaryfirvöld skulu rannsaka:
  1. hvort umsókn uppfyllir skilyrði 1. og 3. gr.,
  2. hvort umsókn uppfyllir skilyrði 14., 15. og 17. gr.

     Telji skráningaryfirvöld að umsókn uppfylli ekki skilyrði skv. a-lið 1. mgr. skal henni hafnað. Hönnun verður þó ekki afmáð úr hönnunarskrá fyrr en umsækjanda hefur innan tilskilins frests gefist kostur á að tjá sig um ákvörðun skráningaryfirvalda.
     Teljist umsókn ekki uppfylla skilyrði skv. b-lið 1. mgr. skal umsækjanda gert viðvart og honum gefinn kostur á að tjá sig eða lagfæra umsóknina innan tilskilins frests. Ef umsækjandi tjáir sig ekki eða gerir nauðsynlegar ráðstafanir til að lagfæra umsóknina áður en fresturinn rennur út skal hún afskrifuð.
     Ef umsækjandi í framhaldi af ábendingu skv. 3. mgr. gerir þær lagfæringar á umsókn sinni sem skráningaryfirvöld telja að breyti umsókn efnislega skal upphafsdagur hennar teljast sá dagur er breytingarnar bárust yfirvöldum.

20. gr.

     Þegar umsókn er í samræmi við settar reglur skal hönnun sú, sem umsóknin tekur til, skráð og umsækjanda látin í té staðfesting um að svo hafi verið gert.
     Skráning hönnunarverndar skal birt í sérstöku riti er skráningaryfirvöld gefa út.

21. gr.

     Umsókn um hönnunarvernd skal ávallt vera aðgengileg almenningi þegar sex mánuðir eru liðnir frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist.
     Frá skráningu hönnunarverndar er umsókn aðgengileg almenningi.
     Samkvæmt beiðni umsækjanda má fresta skráningu í allt að sex mánuði frá umsóknardegi eða forgangsréttardegi ef forgangsréttar er krafist.

IV. KAFLI
Gildistími og endurnýjun.

22. gr.

     Hönnun, sem uppfyllir skilyrði 2. gr., nýtur verndar án skráningar í tvö ár frá upphafsdegi skv. 2. mgr. 6. gr. hafi hún komið fyrir almenningssjónir fyrir tilstilli hönnuðar eða þess sem öðlast hefur rétt hans. Sama á við ef þriðji aðili birtir hönnun á grundvelli upplýsinga frá hönnuði eða upplýsinga sem raktar verða til gjörða hans.
     Um leið og hönnunarvernd er skráð fellur úr gildi vernd á sams konar eða líkri hönnun sem sami aðili er eigandi að.
     Ef skráð hönnunarvernd fellur síðar úr gildi eða sætir ógildingu öðlast óskráð vernd ekki gildi á ný.

23. gr.

     Skráð hönnunarvernd gildir í fimm ár frá því umsókn var lögð inn, sbr. þó 4. mgr. 19. gr. Skráningu má endurnýja til fimm ára í senn þar til 25 ára verndartíma er náð.

24. gr.

     Umsókn um endurnýjun ásamt tilskildu endurnýjunargjaldi skal lögð inn hjá skráningaryfirvöldum í fyrsta lagi þremur mánuðum áður en skráningartímabili lýkur og í síðasta lagi sex mánuðum eftir lok þess.
     Berist skráningaryfirvöldum ekki umsókn um endunýjun á því tímabili sem um getur í 1. mgr. skal skráningin afmáð úr hönnunarskrá.
     Í riti skráningaryfirvalda skal birta tilkynningu um að skráning hafi verið afmáð.

V. KAFLI
Ógilding skráningar og réttur til áfrýjunar.

25. gr.

     Ógilda má hönnunarvernd með dómi:
  1. ef hún uppfyllir ekki skilyrði 1. eða 2. gr.,
  2. ef ákvæði 3. gr. eiga við,
  3. ef hönnun brýtur í bága við eldri hugverkaréttindi.


26. gr.

     Skráningaryfirvöld geta lýst skráða hönnunarvernd ógilda samkvæmt kröfu sem grundvallast á ákvæðum 1.–3. tölul. 25. gr. og berst skráningaryfirvöldum innan tveggja ára frá skráningardegi.
     Krafa skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og rökstudd. Greiða skal tilskilið gjald vegna slíkrar kröfu.
     Komi fram krafa um ógildingu skal rétthafa hinnar skráðu hönnunarverndar tilkynnt um það og honum gefið tækifæri til að tjá sig um kröfuna.

27. gr.

     Hverjum þeim, sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta, er heimilt að höfða mál skv. 25. gr. eða gera kröfu um ógildingu skv. 26. gr.

28. gr.

     Ef höfðað hefur verið mál þar sem gerð er krafa um að skráning hönnunarverndar verði færð á nafn annars aðila, sbr. 1. mgr. 11. gr., eða um ógildingu skráðrar hönnunar, sbr. 25. gr., verður skráning ekki afmáð fyrr en meðferð málsins fyrir dómstólum er lokið og afrit dóms hefur borist Einkaleyfastofunni.
     Komist skráningaryfirvöld að þeirri niðurstöðu að skráning skuli ógilt skal hún afmáð. Tilkynna skal málsaðilum um ógildingu hönnunarverndar þegar í stað.
     Tilkynni rétthafi skráðrar hönnunarverndar bréflega að hann afsali sér hönnunarvernd ber að afmá skráninguna.

29. gr.

     Hönnunarvernd, sem er ógilt með dómi eða af skráningaryfirvöldum, telst ógild frá upphafi.

30. gr.

     Aðilar máls geta skotið endanlegri ákvörðun skráningaryfirvalda til áfrýjunarnefndar, sbr. 4. mgr. 13. gr. Tilkynning um áfrýjun skal berast áfrýjunarnefnd innan tveggja mánaða frá því að skráningaryfirvöld tilkynntu viðkomandi um ákvörðunina. Innan sama frests skal greiða tilskilið áfrýjunargjald. Sé gjaldið ekki greitt skal vísa áfrýjun frá.

VI. KAFLI
Framsal, nytjaleyfi o.fl.

31. gr.

     Rétt til hönnunarverndar má framselja ásamt atvinnurekstri þeim sem hönnunin er notuð í eða einan sér.
     Nú framselur einhver atvinnurekstur sinn og eignast framsalshafi þá rétt til hönnunarverndar sem rekstrinum tilheyrir nema um annað hafi verið samið.

32. gr.

     Hafi rétthafi hönnunarverndar veitt öðrum leyfi til að nota hönnun sína í atvinnuskyni má nytjaleyfishafi ekki framselja rétt sinn nema sérstaklega hafi verið um það samið.
     Sé nytjaleyfi veitt fyrirtæki má framselja leyfið ásamt fyrirtækinu nema um annað sé samið.

33. gr.

     Nytjaleyfishafa er, að fengnu samþykki rétthafa verndarinnar, heimilt að höfða mál vegna brota á hönnunarvernd.
     Nytjaleyfishafa er heimilt að gerast aðili að réttaraðgerðum sem rétthafi hönnunarverndar á frumkvæði að, enda eigi nytjaleyfishafi rétt á bótum vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir eða gæti orðið fyrir vegna brots.

34. gr.

     Hvers kyns aðilaskipti að skráðri hönnunarvernd skal færa í hönnunarskrá samkvæmt tilkynningu aðila og gegn tilskildu gjaldi.
     Framsal á skráðu nytjaleyfi skal því aðeins fært í hönnunarskrá að nytaleyfishafi sanni að hann hafi samþykki eiganda hönnunarverndarinnar fyrir framsalinu.
     Ef færðar eru sönnur á að skráð nytjaleyfi sé fallið úr gildi skal það afmáð úr hönnunarskrá.
     Sé um samskráningu að ræða verða aðilaskipti ekki færð í hönnunarskrá nema þau nái til hönnunarsamstæðu í heild sinni.
     Mál varðandi hönnunarvernd má jafnan höfða gegn þeim sem er skráður rétthafi í hönnunarskrá og tilkynningar skráningaryfirvalda skal senda honum og málsaðilum.
     Breytingar í hönnunarskrá varðandi rétthafa eða nytjaleyfishafa skal birta í riti skráningaryfirvalda.

VII. KAFLI
Refsing, viðurlög o.fl.

35. gr.

     Unnt er að krefjast lögbanns við athöfn sem þegar hefur hafist eða er sannanlega yfirvofandi og brýtur eða mun brjóta gegn hönnunarrétti.

36. gr.

     Sá sem af ásetningi brýtur gegn einkarétti þeim, er hönnunarvernd veitir, skal sæta sektum. Eftir aðstæðum getur refsing verið varðhald eða fangelsi í allt að þrjá mánuði.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hjá lögaðilanum.
     Dæma má upptöku eigna samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
     Mál samkvæmt þessari grein skulu rekin í samræmi við reglur um meðferð opinberra mála.

37. gr.

     Sá sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn hönnunarrétti skal greiða hæfilegt endurgjald fyrir hagnýtingu hönnunar og skaðabætur fyrir annað tjón sem brot hans hefur haft í för með sér.
     Sá sem hagnast hefur af broti gegn hönnunarrétti án þess þó að um ásetning eða gáleysi sé að ræða skal greiða hæfilegt endurgjald. Bætur þessar skulu þó ekki vera hærri en ætla má að nemi hagnaði hins bótaskylda af brotinu.

38. gr.

     Hafi hönnunarréttur verið skertur getur dómstóll mælt fyrir um ráðstafanir til að koma í veg fyrir frekari misnotkun hönnunarverndar. Unnt er að ákveða að vöru, sem hönnun einkennir, verði breytt á tiltekinn hátt, hún ónýtt eða afhent rétthafa hönnunarverndar. Þetta á þó ekki við gagnvart þeim sem í góðri trú hefur eignast viðkomandi vöru eða öðlast umráðarétt yfir henni og ekki hefur sjálfur framið brot gegn hönnunarrétti.

39. gr.

     Rétt til að höfða mál samkvæmt ákvæðum þessa kafla hefur sá sem telur hagsmuni sína skerta.
     Mál skv. 37. og 38. gr. skulu rekin sem almenn einkamál en kröfur skv. 37. gr. er einnig heimilt að setja fram í opinberu máli.

VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

40. gr.

     Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara og gjöld samkvæmt þeim. Gjöldin skulu taka mið af kostnaði við þá þjónustu sem veitt er.

41. gr.

     Lög þessi öðlast gildi þegar eitt ár er liðið frá staðfestingu þeirra.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 1993.