Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1223, 116. löggjafarþing 450. mál: alþjóðleg samvinna um fullnustu refsidóma.
Lög nr. 56 19. maí 1993.

Lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma.


1. HLUTI.
GILDISSVIÐ LAGANNA

1. gr.

     Samkvæmt tvíhliða eða marghliða samningum, sem Ísland hefur gert við önnur ríki og með heimild í lögum þessum, má fullnægja hér á landi eftirtöldum viðurlagaákvörðunum:
  1. Ákvörðunum dómstóla um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna sem teknar eru í öðru ríki með dómi eða annarri úrlausn að lokinni málsmeðferð samkvæmt lögum um réttarfar í sakamálum.
  2. Ákvörðunum stjórnvalda um fésektir, réttindasviptingar eða upptöku eigna sem teknar eru í öðru ríki.

     Í samræmi við samninga skv. 1. mgr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvort fullnusta á ákvörðunum íslenskra dómstóla um fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna verði falin stjórnvöldum í öðrum ríkjum. Sama gildir um innheimtu sektar, framkvæmd réttindasviptingar eða upptöku eignar samkvæmt lögreglustjórasátt sem sakborningur hefur samþykkt.

2. gr.

     Þegar fullnusta fer fram samkvæmt samningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970 gilda ákvæði 5.–21., 28.–37. og 40.–42. gr. laga þessara.
     Þegar fullnusta fer fram samkvæmt samningi um flutning dæmdra manna, frá 21. mars 1983, gilda ákvæði 22.–25., 28.–34., 38. og 40.–42. gr. laga þessara.
     Heimilt er að gera tvíhliða eða marghliða samninga við ríki, sem fullgilt hafa samninga skv. 1. eða 2. mgr., um viðbætur við þá til þess að auðvelda framkvæmd meginreglna þeirra.
     Þegar fullnusta fer fram samkvæmt öðrum samningum en tilgreindir eru í 1. og 2. mgr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvernig fari um könnun þess hvort fullnægja megi erlendum viðurlagaákvörðunum hér á landi eða íslenskum viðurlagaákvörðunum erlendis. Ákvæði 26.–34. og 39.–42. gr. gilda eftir því sem við getur átt.

3. gr.

     Þegar sérstakar ástæður mæla með því getur dómsmálaráðuneytið ákveðið, þótt ekki sé í gildi samningur skv. 1. gr., að fullnægja megi hér á landi samkvæmt lögum þessum viðurlagaákvörðun um sektir, frjálsræðissviptingu, réttindasviptingu eða upptöku eigna sem íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi hefur hlotið samkvæmt dómi eða annarri ákvörðun dómstóls í öðru ríki. Með sama hætti er heimilt, þegar sérstakar ástæður mæla með því, að ákveða að fullnusta á viðurlagaákvörðun íslensks dómstóls um sektir, frjálsræðissviptingu, réttindasviptingu eða upptöku eigna, sem maður með ríkisborgararétt eða fasta búsetu í öðru ríki hefur hlotið hér á landi, verði falin stjórnvöldum í því ríki.
     Þegar ákveðið er að flytja fullnustu samkvæmt þessari grein gilda ákvæði 4. mgr. 2. gr. eftir því sem við getur átt.

4. gr.

     Ákvæði laga þessara gilda ekki um fullnustu viðurlaga eða aðrar aðgerðir sem falla undir ákvæði laga um fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð o.fl.

5. gr.

     Með evrópskum refsidómi er í lögum þessum átt við dóm eða aðra ákvörðun sem fullnægja má samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.
     Með útivistardómi er í lögum þessum átt við dóm eða aðra ákvörðun skv. 1. mgr. sem tekin er án þess að dómþoli eða sá sem sætir viðurlögum samkvæmt ákvörðuninni hafi komið sjálfur fyrir dóm við meðferð málsins.
     Þegar í lögum þessum er fjallað um viðurlög er, nema annað sé tekið fram, átt við fésektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar og upptöku eigna.

2. HLUTI
FULLNUSTA ERLENDRA VIÐURLAGAÁKVARÐANA HÉR Á LANDI
I. KAFLI
Fullnusta evrópskra refsidóma hér á landi.
A. Skilyrði fyrir fullnustu.

6. gr.

     Ekki er heimilt að fullnægja hér á landi evrópskum refsidómi, nema samkvæmt beiðni stjórnvalda í öðru ríki.
     Ekki er heimilt að fullnægja hér á landi evrópskum refsidómi ef:
  1. dómurinn er ekki endanlegur eða ef ekki er unnt að fullnægja honum að lögum þess ríkis sem biður um fullnustu,
  2. verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, er ekki refsiverður að íslenskum lögum eða dómþoli hefði ekki, af öðrum ástæðum en greinir í g-lið 1. mgr. 7. gr., bakað sér refsiábyrgð hér á landi ef verknaðurinn hefði verið framinn hér,
  3. dómþoli er ekki búsettur hér á landi nema fullnusta hér auki líkur á félagslegri endurhæfingu hans eða um frjálsræðissviptingarviðurlög sé að ræða sem unnt er að fullnægja í framhaldi af fullnustu annarra slíkra viðurlaga hér á landi eða dómþolinn sé frá Íslandi,
  4. fullnusta hér á landi væri andstæð grundvallarreglum íslenskra laga,
  5. fullnusta hér á landi væri andstæð þjóðréttarskuldbindingum íslenska ríkisins,
  6. dómur fyrir sama afbrot hefur þegar gengið hér á landi eða sakborningur þegar gengist undir lögreglustjórasátt fyrir það,
  7. dómþoli hefur með endanlegum dómi, sem kveðinn hefur verið upp í öðru ríki en því sem biður um fullnustu, verið sýknaður eða dæmdur til viðurlaga fyrir sama verknað sem þegar hefur verið fullnægt eða verið er að fullnægja eða viðurlög hafa fallið niður vegna fyrningar, náðunar eða sakaruppgjafar í því ríki; sama gildir ef dómþoli hefur í slíkum dómi verið sakfelldur en honum ekki gerð sérstök refsing,
  8. fullnusta hér á landi væri að öðru leyti andstæð samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.


7. gr.

     Heimilt er að hafna beiðni um fullnustu á evrópskum refsidómi ef:
  1. verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, telst stjórnmálaafbrot eða varðar við herlög,
  2. gild ástæða er til að ætla að dómur hafi gengið eða viðurlög orðið þyngri en ella vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar eða stjórnmálaskoðana dómþola,
  3. rannsókn stendur yfir hér á landi vegna verknaðar sem leiddi til viðurlaganna, ákæra hefur verið gefin út, ákveðið hefur verið að bjóða sakborningi að ljúka máli með lögreglustjórasátt eða tekin hefur verið ákvörðun um að höfða ekki mál vegna verknaðarins,
  4. verknaðurinn, sem leiddi til viðurlaganna, var ekki framinn í því ríki sem biður um fullnustu,
  5. ekki er talið unnt að fullnægja viðurlögunum hér á landi,
  6. telja má að ríki, sem biður um fullnustu, geti fullnægt viðurlögunum,
  7. dómþoli var ekki orðinn 15 ára gamall þegar afbrotið var framið,
  8. viðurlög teldust fyrnd ef beitt væri ákvæðum 83. og 83. gr. a almennra hegningarlaga.

     Hafi í því ríki, sem biður um fullnustu, verið framkvæmd aðgerð sem rýfur fyrningu samkvæmt lögum þess ríkis skal sú aðgerð hafa sömu áhrif hér á landi þegar metið er hvort h-liður 1. mgr. eigi við.

8. gr.

     Ef viðurlög í erlendum dómi eru ákvörðuð fyrir tvö eða fleiri afbrot og eigi er heimilt að fullnægja þeim vegna þeirra allra skal fallist á beiðni varðandi þau afbrot sem heimilt er að fullnægja, enda sé í dómnum eða í beiðni um fullnustu tilgreint hvaða hluti viðurlaganna eigi við um það eða þau afbrot sem fullnægja skilyrðum um fullnustu viðurlaga hér á landi.

B. Könnun á beiðni um fullnustu.

9. gr.

     Beiðni um fullnustu erlendrar viðurlagaákvörðunar skal send dómsmálaráðuneytinu.
     Telji ráðuneytið augljóst að beiðnin varði ekki evrópskan refsidóm eða að ekki sé heimilt að fullnægja dómnum hér á landi vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. skal þegar hafna beiðninni. Ef um útivistardóm er að ræða skal þó ekki hafna beiðni af þeirri ástæðu einni að hann sé ekki endanlegur.
     Dómsmálaráðuneytið kannar hvort hafna beri beiðni vegna ástæðna er greinir í einstökum liðum 1. mgr. 7. gr.
     Sé beiðni ekki þegar hafnað skal hún send ríkissaksóknara til frekari meðferðar.

10. gr.

     Ríkissaksóknari leggur málið fyrir héraðsdóm nema annað leiði af 16. eða 19.–21. gr. Ef beiðnin lýtur að upptöku á eignum annars manns en dómþola skal höfðað sérstakt mál gegn þeim manni nema hann hafi komið fyrir dóm við meðferð málsins í erlenda ríkinu.
     Dómþola skal gefinn kostur á að tjá sig um fullnustubeiðni og skal hann yfirheyrður fyrir dómi ef hann óskar þess. Ef dómþoli er sviptur frelsi í því landi sem biður um fullnustu skal dómurinn þó, að honum fjarstöddum, meta hvort hafna beri beiðni, sbr. 1. mgr. 11. gr., þótt hann hafi óskað eftir því að koma fyrir dóm.

11. gr.

     Í málum, sem lögð eru fyrir héraðsdóm skv. 10. gr., ákveður hann hvort hafna beri beiðni vegna ákvæða 2. mgr. 6. gr. eða b- eða h-liða 1. mgr. 7. gr.
     Dómstóllinn metur ekki að nýju hvort dómþoli uppfylli skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðarins.

12. gr.

     Telji dómurinn að heimilt sé að fullnægja viðurlögunum hér á landi ákveður hann, í samræmi við ákvæði 13.–15. gr. laga þessara, ný viðurlög fyrir verknaðinn sem samkvæmt íslenskum lögum yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot.
     Hafi dómurinn metið hvort skilyrði séu til þess að fallast á beiðni að dómþola fjarstöddum, vegna þess að hann var sviptur frelsi í því landi sem biður um fullnustu, skal þó ekki ákvarða ný viðurlög fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að koma fyrir dóm.

13. gr.

     Hafi frjálsræðissvipting verið dæmd í erlenda dómnum má ekki ákvarða þyngri viðurlög hér á landi en í þeim dómi. Þetta á við þótt frjálsræðissviptingin sé styttri en stysta frjálsræðissvipting sem heimilt er að dæma fyrir sambærilegt afbrot samkvæmt íslenskum lögum.
     Séu viðurlögin sektir ákveður dómstóllinn, með hliðsjón af því kaupgengi er gildir þegar ákvörðun er tekin, sektarfjárhæð sem í íslenskum krónum samsvarar þeirri sekt sem dæmd var. Fjárhæðin skal þó ekki fara fram úr þeirri hámarkssektarfjárhæð sem liggur við sambærilegu afbroti samkvæmt íslenskum lögum.
     Í stað fésekta samkvæmt erlendri viðurlagaákvörðun má ekki ákvarða þyngri viðurlög hér á landi en fésektir.

14. gr.

     Þegar viðurlög eru ákvörðuð skv. 13. gr. skal, að því leyti sem unnt er, taka tillit til þess hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt, þar með talið þess tíma sem dómþoli hefur verið í haldi eða gæsluvarðhaldi vegna afbrotsins í erlenda ríkinu eða hér á landi. Að teknu tilliti til þessa tíma er heimilt að ákveða vægari viðurlög en ella yrðu ákveðin fyrir afbrotið eða að viðurlög verði að öllu leyti felld niður.

15. gr.

     Hafi tiltekin fjárhæð eða verðmæti verið gerð upptæk í erlenda dómnum ákveður dómurinn, með hliðsjón af því kaupgengi er gildir þegar ákvörðun er tekin, samsvarandi fjárhæð í íslenskum krónum. Ef upptæka fjárhæðin er hærri en sú fjárhæð sem gerð yrði upptæk samkvæmt íslenskum lögum ef málið væri rekið hér á landi skal dómurinn lækka fjárhæðina til samræmis við réttarframkvæmd hér á landi.
     Hafi munur verið gerður upptækur í erlenda dómnum skal hann því aðeins gerður upptækur hér að íslensk lög heimili slíka eignaupptöku vegna sambærilegs afbrots.
     Ef upptaka bitnar á öðrum manni en dómþola skal dómurinn því aðeins taka ákvörðun um upptöku að hún væri heimil samkvæmt íslenskum lögum ef málið hefði verið rekið fyrir dómstólum hér á landi.

16. gr.

     Varði beiðni eingöngu innheimtu sekta eða upptöku eigna er ríkissaksóknara heimilt, í stað þess að leggja málið fyrir dóm skv. 10. gr., að kanna sjálfur skilyrði þess að fullnægja megi ákvörðun hér á landi og gefa dómþola kost á að ljúka málinu að hætti 2. mgr. 115. gr. laga um meðferð opinberra mála.
     Fallist dómþoli ekki á þessa málsmeðferð leggur ríkissaksóknari málið fyrir dóm skv. 1. mgr. 10. gr.

C. Þvingunaraðgerðir.

17. gr.

     Hafi ríki, sem fullgilt hefur samninginn um alþjóðlegt gildi refsidóma, beðið um fullnustu viðurlaga getur ríkissaksóknari ákveðið að dómþoli skuli handtekinn og lagt fyrir dóm beiðni um að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sama gildir ef ríki hefur tilkynnt dómsmálaráðuneytinu að það ætli að biðja um fullnustu viðurlaga og óskað eftir að dómþoli verði handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
     Skilyrði þess að heimilt sé að handtaka dómþola og úrskurða hann í gæsluvarðhald eru:
  1. að verknaðurinn sem hann er dæmdur fyrir geti að íslenskum lögum varðað þyngri refsingu en 1 árs fangelsi og
  2. að ástæða sé til að ætla að hann hyggist koma sér undan fullnustu viðurlaganna eða, ef um útivistardóm er að ræða, að óttast megi að hann spilli sakargögnum.

     Í stað gæsluvarðhalds getur ríkissaksóknari lagt fyrir dóm beiðni um að úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála verði beitt. Heimilt er að beita þeim úrræðum þótt viðurlög við broti að íslenskum lögum séu vægari en um getur í a-lið 2. mgr.
     Heimilt er óháð eðli brots og viðurlögum að handtaka og úrskurða dómþola í gæsluvarðhald eða beita hann úrræðum skv. 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef hann hefur ekki fasta búsetu hér á landi og ástæða er til að ætla að hann muni yfirgefa landið til að komast undan fullnustu viðurlaganna.
     Gæsluvarðhaldi skal ljúka í síðasta lagi þegar samanlagður gæsluvarðhaldstími hér á landi og sá tími, sem dómþoli hefur verið í haldi erlendis, er orðinn jafnlangur og sá tími sem hann var dæmdur til frjálsræðissviptingar samkvæmt erlenda dómnum. Þegar dómþoli er úrskurðaður í gæsluvarðhald áður en beiðni um fullnustu berst skal hann látinn laus þegar hann hefur verið í haldi í 18 daga og beiðni um fullnustu hefur ekki borist innan þess tíma.

18. gr.

     Hafi verið beðið um fullnustu á evrópskum refsidómi er heimilt að leggja hald á eign sem gerð er upptæk samkvæmt honum ef heimilt væri að leggja hald á eignina samkvæmt íslenskum lögum væri málið rekið hér á landi. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um haldlagningu. Ákvæði X. kafla laga um meðferð opinberra mála um tryggingarráðstafanir eiga við um fullnustu evrópskra refsidóma.

D. Sérákvæði um útivistardóma.

19. gr.

     Þegar ríkissaksóknara er send til meðferðar beiðni um fullnustu á útivistardómi skal hann annast um að dómþola verði tilkynnt um dóminn og fullnustubeiðni og að honum verði bent á að hann geti innan 30 daga frá móttöku tilkynningarinnar gert kröfu til ríkissaksóknara um endurupptöku málsins. Setji dómþoli ekki fram slíka kröfu skal með málið farið samkvæmt ákvæðum 10.–16. gr.
     Krefjist dómþoli innan tilskilins frests að málið verði endurupptekið af viðkomandi dómstóli í erlenda ríkinu endursendir ríkissaksóknari dómsmálaráðuneytinu gögn málsins sem endursendir gögnin til stjórnvalda í erlenda ríkinu og tilkynnir þeim um kröfuna.
     Krefjist dómþoli þess að með málið verði farið fyrir íslenskum dómstóli eða krefjist hann endurupptöku máls án þess að tilgreina hvar hann óski að með málið verði farið leggur ríkissaksóknari málið fyrir héraðsdóm sem metur hvort taka eigi málið upp að nýju.

20. gr.

     Þegar krafa skv. 3. mgr. 19. gr. berst héraðsdómi gefur dómurinn út fyrirkall til dómþola um að mæta við þinghald í málinu. Án samþykkis dómþola má þinghald ekki fara fram fyrr en liðnir eru 21 dagur frá því að honum var birt fyrirkallið.
     Mæti dómþoli ekki enda þótt honum hafi verið birt fyrirkall eða telji dómurinn af öðrum ástæðum ekki rök til endurupptöku málsins skal kröfu dómþola hafnað. Þegar slík ákvörðun er orðin endanleg skal farið með málið í samræmi við 10.–16. gr.
     Ef dómurinn verður við kröfu um endurupptöku er honum heimilt að meta skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðar, svo og beiðni um fullnustu útivistardóms, þótt ekki væri unnt að höfða mál vegna hans hér á landi vegna ákvæða almennra hegningarlaga um refsilögsögu eða aðeins mætti höfða það samkvæmt sérstökum fyrirmælum dómsmálaráðherra eða annarra aðila og án þess að tekið sé tillit til ákvæða almennra hegningarlaga um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga. Skilyrði refsiábyrgðar skulu metin samkvæmt íslenskum lögum með sama hætti og ef sambærilegt afbrot væri framið hér á landi. Rannsókn og aðrar aðgerðir, vegna málsmeðferðar erlendis samkvæmt lögum þess ríkis, skulu viðurkenndar þannig að þær hafi sama gildi og þær hefðu farið fram hér á landi. Slíkum aðgerðum skal þó ekki veitt víðtækara gildi en þær höfðu samkvæmt lögum í erlenda ríkinu.

21. gr.

     Endurupptaki dómstóll í erlenda ríkinu mál skv. 19. gr., að kröfu dómþola, fellur beiðni um fullnustu viðurlaganna niður. Hafni erlendi dómstóllinn því að taka málið til efnislegrar meðferðar á ný og sé slík ákvörðun endanleg skal með málið farið skv. 10.–16. gr.

II. KAFLI
Fullnusta samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.

22. gr.

     Heimilt er að fullnægja hér á landi viðurlögum sem fela í sér frjálsræðissviptingu og hafa verið dæmd eða ákvörðuð á annan hátt af dómstóli vegna refsiverðs verknaðar í ríki sem fullgilt hefur samninginn um flutning dæmdra manna, að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:
  1. að dómþoli sé íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi,
  2. að dómþoli hafi samþykkt að viðurlögum verði fullnægt hér á landi,
  3. að verknaðurinn, sem viðurlögin voru dæmd fyrir, sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum,
  4. að eftir sé að fullnægja a.m.k. 6 mánuðum af viðurlagatíma þegar beðið er um fullnustu hér á landi eða sérstakar ástæður mæli með að fullnusta verði flutt hingað til lands,
  5. að dómurinn sé endanlegur.

     Að uppfylltum öðrum skilyrðum en d-liðar 1. mgr. er heimilt að fullnægja hér á landi ótímabundnum viðurlögum.
     Beiðni erlendra stjórnvalda um fullnustu hér á landi skal send dómsmálaráðuneytinu sem kannar hvort skilyrði séu til þess að verða við henni.
     Dómsmálaráðuneytið getur einnig óskað eftir því við erlent ríki að fullnusta fari fram hér á landi.

23. gr.

     Þegar fullnægja á hér á landi viðurlögum skv. 1. mgr. 22. gr. skal annaðhvort:
  1. halda áfram að fullnægja erlendu viðurlögunum eða
  2. breyta viðurlögunum þannig að í stað viðurlagaákvörðunar erlenda dómsins verði ákvörðuð ný viðurlög fyrir verknaðinn sem samkvæmt íslenskum lögum yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot.

     Dómsmálaráðuneytið ákveður í hverju tilviki hvort viðurlögum verði fullnægt hér skv. a- eða b-lið 1. mgr.

24. gr.

     Þegar fullnusta fer fram hér á landi skv. a-lið 1. mgr. 23. gr. skal fullnægja viðurlögunum án tillits til þess hvort þau eru þyngri en þau hefðu orðið samkvæmt íslenskum lögum fyrir sambærilegt afbrot.
     Dómsmálaráðuneytið skal breyta viðurlögunum í sem sambærilegasta viðurlagategund að íslenskum lögum. Ekki skal breyta tímalengd viðurlaganna nema hún fari fram úr því hámarki sem samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ákvarða fyrir sambærilegt afbrot. Þá skal laga tímalengdina að því hámarki.

25. gr.

     Þegar fullnusta fer fram hér á landi skv. b-lið 1. mgr. 23. gr. felur dómsmálaráðuneytið ríkissaksóknara að leggja málið fyrir héraðsdóm til ákvörðunar á nýjum viðurlögum í stað hinna erlendu.
     Þegar ný viðurlög eru ákvörðuð skal:
  1. ekki meta að nýju hvort dómþoli uppfylli skilyrði refsiábyrgðar vegna verknaðarins,
  2. ekki breyta viðurlögum, sem fela í sér frjálsræðissviptingu, í fjárhagsleg viðurlög,
  3. miða við þau viðurlög sem yrðu dæmd fyrir sambærilegt afbrot samkvæmt íslenskum lögum,
  4. ekki ákvarða þyngri viðurlög en í erlendu viðurlagaákvörðuninni þótt þau séu vægari en vægustu viðurlög sem heimilt er að dæma fyrir sambærilegt afbrot að íslenskum lögum,
  5. láta að fullu koma til frádráttar þann hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt.

     Sé dómþoli fluttur hingað til lands áður en viðurlög eru ákvörðuð samkvæmt þessari grein er heimilt og skal að jafnaði úrskurða hann í gæsluvarðhald þar til endanlegur dómur liggur fyrir. Í stað gæsluvarðhalds má beita úrræðum 110. gr. laga um meðferð opinberra mála ef slík úrræði teljast fullnægjandi til að tryggja nærveru hans.

III. KAFLI
Fullnusta annarra erlendra viðurlagaákvarðana hér á landi.

26. gr.

     Þegar fullnægja á hér á landi viðurlagaákvörðunum samkvæmt heimild í 4. mgr. 2. gr. getur dómsmálaráðuneytið, á grundvelli samkomulags við annað ríki, ákveðið hvernig ákvæðum I. og IV. kafla eða II. og IV. kafla 2. hluta laga þessara skuli beitt í samskiptum Íslands og hlutaðeigandi ríkis enda þótt í slíkri ákvörðun felist frávik frá ákvæðum þessara kafla laganna.

27. gr.

     Þegar fullnægja á hér á landi viðurlagaákvörðun skv. 3. gr. ákveður dómsmálaráðuneytið hvort ný viðurlög skuli ákvörðuð hér á landi. Þegar það er gert ákveður ráðuneytið jafnframt hvort mál skuli lagt fyrir dóm skv. I. eða II. kafla 2. hluta laganna. Í slíkum tilvikum gilda almenn ákvæði þessara kafla um það hvernig ákvarða skuli ný viðurlög.
     Þegar ekki eru ákvörðuð ný viðurlög skal dómsmálaráðuneytið breyta viðurlögunum í sem sambærilegasta viðurlagategund að íslenskum lögum. Viðurlögunum skal fullnægt án tillits til þess hvort þau eru þyngri en þau hefðu orðið samkvæmt íslenskum lögum fyrir sambærilegt afbrot. Þegar um frjálsræðissviptingu er að ræða skal ekki breyta tímalengd hennar nema hún fari fram úr því hámarki sem samkvæmt íslenskum lögum er heimilt að ákvarða fyrir sambærilegt afbrot. Þá skal laga tímalengdina að því hámarki.
     Innheimta má sektir þótt sektarfjárhæð sé hærri en hæstu sektir sem dæmdar yrðu hér á landi fyrir sambærilegt afbrot. Það sama gildir um upptöku eigna.
     Ekki er heimilt að fullnægja viðurlögum samkvæmt þessari grein á þann hátt að þau verði talin þyngri en viðurlögin sem voru dæmd eða ákvörðuð í erlenda ríkinu. Við ákvörðun á viðurlögum skal, að því leyti sem unnt er og í samræmi við samkomulag við hlutaðeigandi erlent ríki, taka tillit til þess hluta viðurlaganna sem þegar hefur verið fullnægt í erlenda ríkinu. Þegar um frjálsræðissviptingu er að ræða skal taka tillit til þess hluta hennar sem þegar hefur verið fullnægt og þess tíma sem dómþoli var í haldi eða gæsluvarðhaldi í erlenda ríkinu eða hér á landi vegna afbrotsins.

IV. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.

28. gr.

     Lög um meðferð opinberra mála gilda um varnarþing, meðferð mála, beitingu þvingunarúrræða, kæru og áfrýjun eftir því sem við getur átt, nema annað sé tekið fram í lögum þessum.
     Fullnusta viðurlaga, sem fer fram hér á landi samkvæmt lögum þess, skal framkvæmd í samræmi við almennar reglur íslenskra laga um fullnustu sambærilegra viðurlaga hér á landi nema annað sé ákveðið í lögum þessum eða samningum við erlend ríki.

29. gr.

     Þegar ríkissaksóknari leggur mál fyrir héraðsdóm til þess að meta hvort fullnægja megi erlendri viðurlagaákvörðun hér á landi eða til þess að ákvarða ný viðurlög skal það gert án þess að gefin sé út ákæra í málinu.
     Héraðsdómur tekur ákvörðun í málinu með dómi.

30. gr.

     Nú er dómþoli sviptur frelsi í erlenda ríkinu á þeim tíma er hann er fluttur til Íslands til þess að fullnægja megi viðurlögum sem dæmd eða ákvörðuð hafa verið í erlenda ríkinu og er þá ekki heimilt að ákæra hann eða dæma, handtaka hann eða setja í gæsluvarðhald eða svipta hann frelsi vegna fullnustu viðurlaga né skerða frelsi hans á annan hátt vegna annars afbrots en þess sem beiðnin um fullnustu lýtur að og framið var áður en hann var fluttur hingað til lands nema stjórnvöld í erlenda ríkinu hafi samþykkt það eða dómþoli hafi samfellt í 45 daga átt þess kost að yfirgefa Ísland en ekki gert það eða komið hingað til lands á ný eftir að hafa yfirgefið landið.
     Ákvæði 1. mgr. skulu þó eigi hindra að hann verði sendur úr landi, honum vísað brott eða að gerðar verði ráðstafanir til að rjúfa fyrningu sakar.

31. gr.

     Fullnusta skal stöðvuð ef erlenda ríkið tilkynnir að það hafi fallist á beiðni dómþola um náðun, veitt honum sakaruppgjöf eða endurupptekið erlenda dóminn eða það tilkynnir að í því ríki hafi verið tekin önnur ákvörðun sem samkvæmt lögum þess ríkis leiðir til þess að eigi sé lengur heimilt að fullnægja viðurlögunum.

32. gr.

     Sé um sektarrefsingu að ræða er eigi heimilt að innheimta hér á landi þann hluta sektar sem dómþoli hefur greitt stjórnvöldum í erlenda ríkinu. Ákvarðanir um afborganir eða fresti á greiðslu sektar, sem teknar hafa verið af stjórnvöldum í erlenda ríkinu áður en beðið var um fullnustu hér á landi, halda gildi sínu.
     Heimilt er að ákveða vararefsingu vegna sekta sem fullnægja á hér á landi samkvæmt lögum þessum ef slíkt er heimilt samkvæmt lögum þess ríkis sem bað um fullnustu. Þetta á ekki við ef það ríki hefur tekið fram að eigi skuli ákvarða slíka vararefsingu.
     Sektir, sem innheimtar eru samkvæmt lögum þessum, svo og peningar og munir sem gerðir eru upptækir samkvæmt ákvæðum laganna, eru eign ríkissjóðs. Hafi munur verið gerður upptækur hér á landi getur dómsmálaráðuneytið, samkvæmt beiðni þess ríkis sem bað um fullnustu, samþykkt að hann verði afhentur því ríki.

33. gr.

     Sakarkostnaður, sem fellur til hér á landi vegna málsmeðferðar í framhaldi af beiðni um að fullnægt verði hér á landi erlendum viðurlögum, skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæsluþóknun, saksóknar- og málsvarnarlaun.
     Þegar útivistardómur er endurupptekinn, að kröfu dómþola, er heimilt í samræmi við almennar reglur laga að dæma hann til greiðslu sakarkostnaðar.
     Heimilt er að endurkrefja dómþola um kostnað vegna flutnings hans hingað til lands.

34. gr.

     Dómsmálaráðuneytið getur, samkvæmt beiðni stjórnvalda í erlendu ríki, samþykkt að útlendingur, sem flytja á milli ríkja samkvæmt ákvæðum í samningi skv. 1. gr. vegna fullnustu eða málsmeðferðar, verði fluttur um íslenskt yfirráðasvæði enda sé hann fluttur vegna viðurlagaákvörðunar sem unnt væri að fullnægja samkvæmt íslenskum lögum. Við slíkan gegnumflutning skal frjálsræðissvipting halda sér nema erlenda ríkið biðji um að dómþoli verði látinn laus. Sé hann hafður í haldi skal með hann farið hér á landi svo sem almennt gildir um handtekna menn eða gæsluvarðhaldsfanga.

3. HLUTI
FULLNUSTA ÍSLENSKRA VIÐURLAGAÁKVARÐANA ERLENDIS
I. KAFLI
Fullnusta samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.

35. gr.

     Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi viðurlögum samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma.
     Ekki er heimilt að biðja erlent ríki um að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum ef talið er að þær ástæður séu fyrir hendi sem lýst er í ákvæðum 2. mgr. 6. gr. og ætla má að þær komi í veg fyrir að fallist verði á beiðni um fullnustu í erlenda ríkinu.

36. gr.

     Ef erlent ríki er beðið um að fullnægja viðurlögum samkvæmt útivistardómi og dómþoli setur þar fram kröfu um að íslenskur dómstóll taki málið upp að nýju leggur ríkissaksóknari, eftir að honum hafa borist gögn málsins, það fyrir þann héraðsdóm sem kvað upp útivistardóminn. Í slíkum tilvikum gilda ákvæði 1. mgr. 20. gr.
     Sé kröfu um endurupptöku synjað og sé sú ákvörðun endanleg skal ríkissaksóknari þegar tilkynna það dómsmálaráðuneytinu sem tilkynnir stjórnvöldum í erlenda ríkinu um þá ákvörðun.
     Sé fallist á kröfu um endurupptöku skal beiðni um fullnustu erlendis þegar afturkölluð.

37. gr.

     Þegar dómþoli er kvaddur til að mæta fyrir dóm hér á landi vegna kröfu hans um endurupptöku máls og hann yfirgefur erlenda ríkið af þeirri ástæðu er ekki heimilt að ákæra hann eða dæma, handtaka hann eða setja í gæsluvarðhald eða svipta hann frelsi til að fullnægja viðurlögum eða að öðru leyti skerða frelsi hans vegna annars afbrots sem framið var áður en hann yfirgaf erlenda ríkið nema þess hafi verið getið í fyrirkalli að slíkum aðgerðum kynni að verða beitt, hann hafi samþykkt það skriflega eða honum hafi samfellt í 15 daga, eftir að íslenskur dómstóll tók endanlega ákvörðun vegna kröfu hans um endurupptöku, verið unnt að yfirgefa landið en hann ekki gert það eða komið hingað á ný eftir að hafa yfirgefið landið án þess að hann hafi verið kvaddur fyrir dóm vegna kröfu sinnar um endurupptöku málsins.
     Fallist dómþoli skriflega á þær aðgerðir sem tilgreindar eru í 1. mgr. skulu þau stjórnvöld, sem taka ákvörðun um þær aðgerðir, senda dómsmálaráðuneytinu afrit eða ljósrit af samþykki dómþola og skal ráðuneytið þegar tilkynna stjórnvöldum í erlenda ríkinu um þetta.

II. KAFLI
Fullnusta samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.

38. gr.

     Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi viðurlögum samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna.
     Ekki er heimilt að biðja erlent ríki um að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum ef talið er að þær ástæður séu fyrir hendi sem lýst er í a–e-liðum 1. mgr. 22. gr. og ætla má að þær komi í veg fyrir að fallist verði á beiðni um fullnustu í erlenda ríkinu.
     Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort verða skuli við beiðni erlends stjórnvalds um að íslenskum viðurlögum verði fullnægt í því ríki að uppfylltum skilyrðum skv. 2. mgr.

III. KAFLI
Fullnusta samkvæmt öðrum samningum eða einstökum ákvörðunum.

39. gr.

     Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort fara eigi þess á leit við erlend stjórnvöld að þau fullnægi viðurlögum á grundvelli samninga skv. 4. mgr. 2. gr. eða með heimild í 1. mgr. 3. gr.
     Ekki er heimilt að biðja erlent ríki um að fullnægja íslenskum viðurlagaákvörðunum ef talið er að skilyrði fyrir flutningi í viðkomandi samningi kæmu í veg fyrir að fallist verði á beiðni um fullnustu í erlenda ríkinu.
     Dómsmálaráðuneytið ákveður hvort verða skuli við beiðni erlends stjórnvalds um að íslenskum viðurlagaákvörðunum verði fullnægt í því ríki að uppfylltum skilyrðum skv. 2. mgr.

IV. KAFLI
Sameiginleg ákvæði.

40. gr.

     Þegar þess hefur verið farið á leit við erlent ríki að það fullnægi viðurlögum er ekki heimilt að hefja fullnustu sömu viðurlaga hér á landi nema dómþoli sé hér í gæsluvarðhaldi eða um sé að ræða viðurlög sem fela í sér frjálsræðissviptingu.
     Fullnægja skal þó viðurlögunum hér á landi ef beiðni um fullnustu erlendis er afturkölluð áður en erlenda ríkið tilkynnir að það ætli að taka beiðnina til efnislegrar meðferðar eða þegar erlenda ríkið tilkynnir að það hafni beiðni um fullnustu. Sama gildir ef erlenda ríkið hættir við að fullnægja viðurlögunum eða eigi er unnt að fullnægja þeim þar.

41. gr.

     Þegar beðið er um fullnustu erlendis á íslenskri viðurlagaákvörðun er felur í sér frjálsræðissviptingu og dómþoli er sviptur frelsi hér á landi eða er hér staddur skal flytja hann til erlenda ríkisins eins fljótt og unnt er eftir að það ríki hefur tilkynnt að það fallist á beiðni um fullnustu og hefur heitið að virða meginreglur 30. gr. um þann sem sviptur er frelsi í erlendu ríki og fluttur hingað til lands nema íslensk stjórnvöld hafi veitt samþykki skv. 42. gr.

42. gr.

     Þegar fullnægja á íslenskri viðurlagaákvörðun erlendis, sbr. 41. gr., getur dómsmálaráðuneytið samkvæmt beiðni stjórnvalda í erlenda ríkinu samþykkt, án tillits til takmarkana skv. 30. gr. og án tillits til þess hvort erlenda ríkið hafi gefið slíkt heiti sem um er getið í 41. gr., að dómþoli verði ákærður, dæmdur eða sviptur frelsi í því ríki til þess að fullnægja megi viðurlögum eða beittur þvingunarúrræðum eða frelsi hans takmarkað á annan hátt vegna annars afbrots sem framið var áður en hann var fluttur til erlenda ríkisins og ekki var dæmt í þeim dómi sem beðið var um fullnustu á í erlenda ríkinu. Slíkt samþykki er einungis heimilt að veita ef unnt hefði verið að framselja dómþola til viðkomandi ríkis vegna afbrotsins og gildir það jafnvel þótt framsal kæmi ekki til greina vegna ákvæða um lágmarkstíma dæmdra viðurlaga.
     Sé það augljóst af því sem fram kemur í beiðninni að eigi sé heimilt að veita umbeðið samþykki skal dómsmálaráðuneytið þegar hafna henni. Í öðrum tilvikum skal ríkissaksóknari tilkynna dómþola um beiðnina og samkvæmt beiðni hans leggja málið fyrir héraðsdóm til þess að meta hvort lagaskilyrði séu til staðar svo að verða megi við henni. Telji dómurinn að lagaskilyrði séu ekki fyrir hendi skal beiðninni hafnað.

4. HLUTI
GILDISTAKA O.FL.

43. gr.

     Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

44. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

45. gr.

     Ekki er heimilt að fullnægja hér á landi viðurlagaákvörðun samkvæmt samningnum um alþjóðlegt gildi refsidóma nema hún hafi verið ákvörðuð eftir að samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis. Dómsmálaráðuneytið getur þó ákveðið samkvæmt samkomulagi við viðkomandi ríki að ákvæði samningsins gildi einnig um ákvarðanir sem teknar voru áður en samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis.
     Samkvæmt samningnum um flutning dæmdra manna er heimilt að fullnægja hér á landi viðurlagaákvörðun sem tekin var áður en samningurinn öðlaðist gildi milli Íslands og viðkomandi ríkis.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1993.