Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1115, 116. löggjafarþing 117. mál: réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum (EES-reglur).
1993  nr. 77  18 maí

Lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.


1. gr.

     Lög þessi gilda um aðilaskipti eða samruna fyrirtækja, atvinnurekstrar eða hluta atvinnurekstrar á hinu Evrópska efnahagssvæði að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heyrir undir íslenska lögsögu.
     Lög þessi gilda þó ekki þegar bú fyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta.
     Lög þessi gilda ekki um haffær skip.

2. gr.

     Frá og með þeim degi, sem aðilaskipti verða í skilningi 1. mgr. 1. gr., skal nýr eigandi takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eigenda samkvæmt ráðningarsamningi og virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningi með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda.
     Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um rétt launþega til elli- og örorkulífeyris eða eftirlifendabóta þegar um er að ræða lífeyrissjóði fyrir eina eða fleiri starfsstéttir sem starfa samkvæmt sérstökum lögum eða reglugerð sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu.
     Ákvæði 2. mgr. getur þó aldrei leitt til skerðingar á áunnum réttindum úr þeim sjóðum sem þar um ræðir. Skiptir þá engu máli hvort starfsmaður starfar áfram við reksturinn eftir aðilaskipti eða ekki.

3. gr.

     Aðilaskipti, sbr. 1. gr., geta ein sér ekki verið ástæða fyrir uppsögn starfsmanna af hálfu atvinnurekanda, hvorki fyrir né eftir aðilaskipti. Ákvæði þetta kemur þó ekki í veg fyrir uppsagnir starfsmanna af efnahagslegum, tæknilegum eða skipulagslegum ástæðum sem hafa í för með sér breytingar á starfsmannahaldi.
     Sé ráðningarsamningi rift vegna þess að aðilaskipti hafa í för með sér verulegar breytingar á starfsskilyrðum starfsmanni í óhag skal litið svo á að atvinnurekandi beri ábyrgð á riftun samningsins.

4. gr.

     Þegar aðilaskipti verða skal trúnaðarmaður halda réttarstöðu sinni og starfi samkvæmt lögum og samningum að svo miklu leyti sem atvinnureksturinn heldur sjálfstæði sínu.
     Ef trúnaðarmaður missir umboð sitt vegna aðilaskiptanna skal hann eftir sem áður njóta þeirrar verndar sem lög eða samningar kveða á um.

5. gr.

     Aðilaskipti, sbr. 1. gr., skulu þeir sem hlut eiga að máli tilkynna trúnaðarmanni starfsmanna eða starfsmönnum sjálfum sé trúnaðarmaður ekki fyrir hendi með góðum fyrirvara og áður en aðilaskipti koma til framkvæmda. Jafnframt skal upplýsa hlutaðeigandi um ástæður aðilaskipta, um lagalegar, efnahagslegar og félagslegar afleiðingar þeirra fyrir starfsmenn og um fyrirhugaðar ráðstafanir vegna starfsmanna.

6. gr.

     Hafi atvinnurekandi í huga að gera ráðstafanir vegna starfsmanna vegna aðilaskipta, sbr. 1. gr., skal hann hafa samráð við trúnaðarmann starfsmanna í því skyni að ná samkomulagi um þær. Samráð skal hafa með góðum fyrirvara og áður en fyrirhugaðar ráðstafanir koma til framkvæmda.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1993.