Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 965, 117. löggjafarþing 354. mál: samfélagsþjónusta.
Lög nr. 55 29. apríl 1994.

Lög um samfélagsþjónustu.


1. gr.

     Hafi maður verið dæmdur í allt að þriggja mánaða óskilorðsbundna refsivist er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta dóminn þannig að í stað refsivistar komi ólaunuð samfélagsþjónusta, minnst 40 klukkustundir og mest 120 klukkustundir.
     Þegar um refsivist er að ræða samkvæmt fleiri en einum dómi má samanlögð refsing eigi vera lengri en þrír mánuðir.

2. gr.

     Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:
  1. Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun ríkisins eigi síðar en hálfum mánuði áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun refsivistar.
  2. Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum, þar sem hann er kærður fyrir refsiverðan verknað.
  3. Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu.
     Áður en ákvörðun um samfélagsþjónustu er tekin skal fara fram athugun á persónulegum högum dómþola og skal rökstuddu áliti á því hvort dómþoli sé líklegur til að geta innt samfélagsþjónustu af hendi og hvaða samfélagsþjónusta komi til greina skilað til samfélagsþjónustunefndar.

3. gr.

     Þegar samfélagsþjónusta er ákveðin skal tiltaka hversu margar klukkustundir dómþoli skuli vinna við samfélagsþjónustu í stað refsivistar. Hafi gæsluvarðhald komið til frádráttar refsivist skal taka tillit til þess við ákvörðun um fjölda klukkustunda. 40 klukkustunda samfélagsþjónusta jafngildir eins mánaðar refsivist.
     Jafnframt skal ákveða á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skuli innt af hendi, en sá tími skal þó aldrei vera skemmri en tveir mánuðir.
     Þegar refsivist er breytt í samfélagsþjónustu skal yfirlýsing dómþola fengin um það að hann vilji hlíta skilyrðum þeim sem sett eru fyrir samfélagsþjónustu. Jafnframt skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir samfélagsþjónustu og hverju það varði ef skilyrðin eru rofin.

4. gr.

     Samfélagsþjónusta skal bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að dómþoli gerist ekki sekur um refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi.
  2. Að dómþoli sæti á þeim tíma, sem samfélagsþjónusta er innt af hendi, umsjón og eftirliti einstakra manna, félags eða stofnunar.
     Enn fremur má binda samfélagsþjónustu þeim skilyrðum, nokkrum eða öllum, sem greinir í 2.–6. tölul. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga.

5. gr.

     Dómsmálaráðherra skipar þriggja manna nefnd, samfélagsþjónustunefnd, svo og jafnmarga varamenn þeirra, til að taka ákvörðun um hvort orðið verði við umsókn um samfélagsþjónustu. Formaður nefndarinnar skal uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara.
     Þegar samfélagsþjónusta er ákveðin skal nefndin einnig tiltaka:
  1. Klukkustundafjölda samfélagsþjónustu.
  2. Hvar, hvernig og á hve löngum tíma samfélagsþjónusta verði innt af hendi.
     Ákvarðanir samfélagsþjónustunefndar samkvæmt grein þessari eru endanlegar.

6. gr.

     Fangelsismálastofnun ríkisins tekur á móti umsóknum um samfélagsþjónustu. Í samráði við formann samfélagsþjónustunefndar sér stofnunin einnig um:
  1. Að afla upplýsinga um persónulega hagi dómþola, sbr. 2. mgr. 2. gr., sé umsókn ekki þegar hafnað.
  2. Að undirbúa mál til meðferðar hjá nefndinni.
  3. Að annast ritun fundargerða og sjá um annað skrifstofuhald fyrir nefndina.
     Fangelsismálastofnun ríkisins sér um framkvæmd samfélagsþjónustu þegar hún er ákveðin.

7. gr.

     Samfélagsþjónustunefnd skal þegar hafna umsókn um samfélagsþjónustu ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði skv. 1.–2. tölul. 1. mgr. 2. gr. Ef sérstakar ástæður mæla með er þó heimilt að víkja frá tímafresti í 1. tölul. 2. gr.
     Þegar umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar skal fresta fullnustu refsivistar þar til ákvörðun um afgreiðslu hennar liggur fyrir, enda fremji dómþoli ekki refsiverðan verknað á þeim tíma.

8. gr.

     Fremji dómþoli nýtt brot eftir að samfélagsþjónusta er ákveðin og rannsókn út af því hefst fyrir lok þess tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi ákveður dómstóll, sem fjallar um málið, refsingu í einu lagi fyrir það brot sem nú er dæmt um samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga með hliðsjón af þeim tímafjölda samfélagsþjónustu sem eigi hefur verið innt af hendi þannig að eftirstöðvar samfélagsþjónustu verði virtar með sama hætti og skilorðsdómur.
     Ef dómþoli með alvarlegum hætti eða ítrekað rýfur önnur skilyrði samfélagsþjónustu, svo og ef hann fremur ótvírætt brot á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni, getur Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið hvort skilyrðum skuli breytt, tími sem samfélagsþjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort dómur um refsivist komi til afplánunar. Skal þá meta tímalengd refsivistar með hliðsjón af þeirri samfélagsþjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi.
     Ákvörðun um viðbrögð við broti á skilyrðum fyrir samfélagsþjónustu skal vera skrifleg og rökstudd og hún skal birt dómþola með sannanlegum hætti.
     Ákvörðunum Fangelsismálastofnunar ríkisins samkvæmt þessari grein verður skotið til samfélagsþjónustunefndar og er ákvörðun nefndarinnar endanleg.

9. gr.

     Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um samfélagsþjónustu, framkvæmd hennar og starfshætti nefndar skv. 5. gr.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1995 og gilda til 31. desember 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir að lögin taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 1995 skal dómsmálaráðherra þegar skipa samfélagsþjónustunefnd skv. 5. gr. sem starfar fram til 1. júlí 1995 að undirbúningi að gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 18. apríl 1994.