Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1100, 117. löggjafarþing 389. mál: sala notaðra ökutækja.
Lög nr. 69 11. maí 1994.

Lög um sölu notaðra ökutækja.


I. KAFLI
Heimild til að hafa með höndum sölu á notuðum ökutækjum.

1. gr.

     Lög þessi gilda um sölu notaðra skráningarskyldra ökutækja sem fram fer í atvinnuskyni. Þau gilda ekki um nauðungarsölu notaðra ökutækja.

2. gr.

     Hver sá sem vill reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki skal hafa til þess sérstakt leyfi sýslumanns í viðkomandi umdæmi.

3. gr.

     Leyfi skv. 2. gr. skal veitt til fimm ára í senn og verður einungis veitt einstaklingum eða lögaðilum sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
  1. Eru búsettir á Íslandi.
  2. Hafa náð tuttugu ára aldri.
  3. Eru fjárráða og hafa forræði á búi sínu.
  4. Hafa lagt fram skilríki því til sönnunar að þeir hafi gilda tryggingu sem bætir viðskiptavinum tjón er þeir kunna að verða fyrir vegna ásetnings eða gáleysis bifreiðasala. Trygging þessi getur verið fólgin í ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, bankatryggingu eða annars konar tryggingum sem sýslumaður metur gildar. Tryggingarfjárhæð, innan hvers tryggingartímabils, skal nema að hámarki 20 millj. kr. Að gengnum fullnaðardómi eða að gerðri réttarsátt um vanefnd og þegar ljóst er að seljandi getur ekki efnt skyldu sína samkvæmt dóminum eða sáttinni skal kaupanda greitt af tryggingarfénu. Nánari ákvæði um tryggingarskylduna, lágmarksfjárhæð, lágmarksskilmála og gildissvið tryggingarinnar og hverjir geti veitt tryggingu skulu sett í reglugerð. Í henni má einnig kveða á um hækkun tryggingarfjárhæðarinnar til samræmis við almenna verðlagsþróun í landinu.
  5. Hafa sótt námskeið og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð sem ráðherra ákveður. Kostnað vegna námskeiða og prófa skal greiða með kennslu- og prófgjöldum er viðskiptaráðuneytið ákveður. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði mæli sérstakar ástæður með því.
     Meiri hluti stjórnarmanna lögaðila skulu fullnægja skilyrðum 1.–3. tölul. 1. mgr. Þó eru stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, undanþegnir búsetuskilyrðum 1. tölul. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins eða yfirmaður viðkomandi starfsemi innan þess skal fullnægja skilyrðum 1.–3. og 5. tölul. 1. mgr.

4. gr.

     Bifreiðasali skal afla upplýsinga, sem staðfestar skulu skriflega af seljanda, um akstur og ástand skráningarskylds ökutækis, svo og annarra þeirra upplýsinga sem kaupanda eru nauðsynlegar vegna kaupanna. Gögn þessi skal bifreiðasali varðveita í eitt ár frá söludegi viðkomandi ökutækis.
     Þá skal fylgja vottorð úr ökutækjaskrá sem sýnir ótvírætt að seljandi sé eigandi þess ökutækis sem selt er eða hafi umboð til sölunnar. Bifreiðasali skal staðfesta að fullnægjandi ástandslýsing, sbr. 1. mgr., fylgi ökutæki og einnig skal hann staðreyna upplýsingar um eiganda ökutækis og hvort veðbönd hvíli á ökutækinu.
     Ráðherra er heimilt með reglugerð að mæla fyrir um þær lágmarksupplýsingar sem lagðar skulu fram við sölu notaðra ökutækja og fram eiga að koma í kaupsamningi og afsali vegna sölu notaðra ökutækja.

II. KAFLI
Réttindi og skyldur bifreiðasala.

5. gr.

     Bifreiðasali skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hann skal gæta þess að viðskiptamenn hans njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að aðila séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Bifreiðasali ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við sölu ökutækja sem hefði hann sjálfur framkvæmt þau. Bifreiðasali skal, áður en gengið er frá afsali notaðs ökutækis, greina kaupanda með sannanlegum hætti frá þeim rétti hans að láta óháðan aðila meta ástand ökutækis, svo sem faggilta skoðunarstofu eða faggilt skoðunarverkstæði. Slíkt mat skal gert á kostnað kaupanda nema um annað verði samið.
     Hafi bifreiðasali ástæðu til að ætla að ástandi ökutækis sé ábótavant ber honum að vekja athygli kaupanda á þeim annmarka.

6. gr.

     Bifreiðasali skal annast um að endanlega sé gengið frá kaupsamningi, afsali og öðrum skjölum vegna viðskipta á hans vegum og skal geta þess í skjölunum, þar á meðal í kauptilboðum, kaupsamningum, afsölum og skuldabréfum, hver samið hafi og greina nafn hans svo að eigi verði um villst.
     Bifreiðasali skal ábyrgjast að tilkynning um eigendaskipti sé send ökutækjaskrá án tafar.

7. gr.

     Hyggist bifreiðasali, fyrirtæki er hann starfar við eða aðrir starfsmenn við sölu notaðs ökutækis selja eigið ökutæki eða kaupa ökutæki sem þessum aðila hefur verið falið að annast sölu á og skal þá viðskiptamanni kynnt það sérstaklega og þess jafnframt getið í kaupsamningi. Sama gildir um maka og náin skyldmenni bifreiðasala eða starfsmanna við söluna.

8. gr.

     Þeim einum er rétt að nefna sig bifreiðasala sem fengið hefur leyfi til sölu notaðra ökutækja samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Niðurfelling leyfis.

9. gr.

     Leyfi samkvæmt lögum þessum fellur úr gildi ef skilyrðum laganna er ekki lengur fullnægt. Ber þá að skila leyfisbréfi til sýslumanns.
     Eftirlit með starfsemi bifreiðasala er í höndum sýslumanna.

IV. KAFLI
Viðurlög og gildistaka.

10. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varðar sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þeir sem við gildistöku laga þessara stunda sölu notaðra ökutækja, sem lögin taka til, skulu sækja um leyfi til sýslumanns innan sex mánaða frá gildistöku laganna. Að níu mánuðum liðnum frá gildistöku laganna er með öllu óheimilt að stunda sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni án leyfis þar að lútandi.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1994.