Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1099, 117. löggjafarþing 532. mál: merkingar varðandi orkunotkun heimilistækja.
Lög nr. 72 11. maí 1994.

Lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.


1. gr.

     Tilgangur laga þessara er að stuðla að því að orka sé notuð með skynsamlegum og hagkvæmum hætti með því að tryggja að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun og hávaðamengun heimilistækja og annað er varðar rekstur þeirra.

2. gr.

     Lög þessi taka til merkinga og staðlaðra upplýsinga um heimilistæki og tæki eða búnað til hitunar húsnæðis og upphitunar á vatni sem kveðið skal á um í reglugerð.
     Lögin taka ekki til endursölu notaðra tækja og búnaðar.

3. gr.

     Framleiðandi, fulltrúi hans eða sá er markaðssetur vöru, hér eftir nefndur birgðasali, skal láta neytendum í té upplýsingar varðandi orkunotkun og orkunýtni og hávaða tækja og búnaðar sem seld eru, leigð, boðin til sölu eða leigu. Upplýsingar þessar skulu vera á íslensku og þær ber að finna á merkimiðum og á sérstökum upplýsingablöðum. Upplýsingablað skal fylgja öllum kynningarritum fyrir vörurnar.
     Birgðasala og seljanda er skylt að vekja athygli neytenda á fyrrgreindum upplýsingum.

4. gr.

     Birgðasali skal taka saman tæknileg gögn sem leggja má til grundvallar við mat á upplýsingum þeim sem greint er frá á merkingum og upplýsingablaði.
     Slíkar upplýsingar skulu hafa að geyma:
  1. Almenna vörulýsingu.
  2. Niðurstöður útreikninga varðandi hönnun ef við á.
  3. Prófunarskýrslur þegar þær eru til, þar með taldar skýrslur um prófanir sem tilnefndir aðilar hafa framkvæmt í samræmi við aðra löggjöf.
  4. Ofangreindar upplýsingar um svipaðar gerðir tækja ef tölulegar niðurstöður miðast við þær.
  5. Lýsingu á mælingum og könnunum á hávaða.
     Birgðasali skal hafa þessi gögn til reiðu vegna skoðunar í fimm ár frá því tækið var síðast framleitt.

5. gr.

     Birgðasali ber ábyrgð á því að upplýsingar á merkimiðum og upplýsingablöðum, sem hann lætur í té, séu réttar.
     Óheimilar eru merkingar sem samrýmast hvorki ákvæðum þessara laga né reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra.

6. gr.

     Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Ráðherra getur falið öðrum aðilum að annast eftirlit með því að ákvæðum laga þessara og reglugerða sé fylgt. Þeir aðilar eru hér eftir nefndir eftirlitsaðilar.

7. gr.

     Ef ástæða er til að ætla að upplýsingar, sem veittar hafa verið, séu rangar er eftirlitsaðilum, sbr. 6. gr., heimilt að krefja birgðasala eða seljendur um gögn sem nauðsynleg eru við eftirlit. Jafnframt er þeim heimilt að krefjast þess að eintak vöru og umbúða verði lagt fram til skoðunar.

8. gr.

     Iðnaðarráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara. Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að birgðasali skuli bera kostnað af eftirliti og skoðun og setja sérstaka gjaldskrá er það varðar.
     Nánari reglur um kæru ákvarðana eftirlitsaðila er heimilt að kveða á um í reglugerð.

9. gr.

     Brot á lögum þessum og reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim varða sektum sem renna í ríkissjóð. Um meðferð slíkra brota fer að hætti opinberra mála.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1994.