Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1098, 117. löggjafarþing 579. mál: framleiðsla og sala á búvörum (greiðslumark sauðfjárafurða).
Lög nr. 85 11. maí 1994.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til, þar með talinn útflutning landbúnaðarvara.

2. gr.

     Á eftir 3. mgr. 40. gr. laga nr. 99/1993 kemur ný málsgrein er verður 4. mgr., svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra er heimilt að semja við Stéttarsamband bænda um önnur fráviksmörk greiðslumarks en um getur í 3. mgr. fyrir landsvæði eða einstök lögbýli þar sem sérstök ástæða þykir til gróðurverndar eða uppgræðsluaðgerða að höfðu samráði við umhverfisráðherra. Enn fremur vegna framleiðenda sem náð hafa 67 ára aldri eða hafa skerta starfsgetu vegna örorku. Þá er í slíkum samningi heimilt að ákveða að efri mörk greiðslumarks séu mishá eftir landsvæðum. Jafnframt er í samningnum heimilt að ákveða að framleiðendur, sem hætta sauðfjárframleiðslu, geti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum haldið beinum greiðslum samkvæmt greiðslumarki lögbýlisins til verðlagsársins 1997–98.

3. gr.

     G-liður ákvæða til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Fram til 31. ágúst 1995 getur landbúnaðarráðherra heimilað innheimtu sérstaks verðskerðingargjalds af sláturafurðum sauðfjár og nautgripa til viðbótar gjaldi skv. 20. gr. laga þessara. Gjald þetta dregst af verði til framleiðenda. Það má að hámarki nema 5% af afurðaverði til framleiðenda og skal eingöngu varið til markaðsaðgerða utan lands. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um innheimtu og ráðstöfun gjalds þessa.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1994.