Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 875, 118. löggjafarþing 403. mál: lyfjalög (refsiákvæði o.fl.).
Lög nr. 55 8. mars 1995.

Lög um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994.


1. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er þó að auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi.

2. gr.

     43. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Um mál sem rísa kunna út af brotum á lögum þessum fer að hætti opinberra mála nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum.
     Fyrir brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skal refsa með sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur refsing þá orðið varðhald eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Tilraun eða hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
     Lyf og lyfjaefni, sem eru framleidd, flutt inn eða seld ólöglega hér á landi skulu gerð upptæk með dómi og enn fremur ágóði af ólöglegri lyfjasölu. Andvirði hins upptæka rennur í ríkissjóð.

3. gr.

     Við 44. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um takmörkun og eftirlit með framleiðslu og markaðssetningu tiltekinna efna sem nota má við ólöglega framleiðslu á ávana- og fíkniefnum.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.