Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 837, 118. löggjafarþing 315. mál: atvinnuréttindi vélfræðinga (STCW-reglur o.fl.).
Lög nr. 60 8. mars 1995.

Lög um breytingu á lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætast við tveir nýir stafliðir svohljóðandi:
  1. Mánuður telst 30 dagar.
  2. STCW er alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Lágmarksfjöldi vélavarða og vélstjóra á fiskiskipum og varðskipum skal vera sem hér segir:
  1. Á skipi með 75–220 kw. vél (u.þ.b. 101–300 hö.) einn vélgæslumaður sem má vera hinn sami og skipstjóri á skipum að 20 rúmlestum, enda eini réttindamaðurinn í áhöfn og útivera skemmri en 24 klst., nema á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september þegar útivera má vera allt að 36 klst.
  2. Á skipi með 221–375 kw. vél (u.þ.b. 301–510 hö.) yfirvélstjóri sé útivera 30 klst. og skemmri.
  3. Á skipi með 221–750 kw. vél (u.þ.b. 301–1020 hö.) yfirvélstjóri og einn vélavörður.
  4. Á skipi með 751–1500 kw. vél (u.þ.b. 1021–2040 hö.) tveir vélstjórar; yfirvélstjóri og 1. vélstjóri.
  5. Á skipi með 1501–1800 kw. vél (u.þ.b. 2041–2446 hö.) þrír í vél; tveir vélstjórar, yfirvélstjóri og 1. vélstjóri ásamt vélaverði eða aðstoðarmanni í vél.
  6. Á skipi með 1801 kw. vél (u.þ.b. 2447 hö.) og stærri þrír vélstjórar; yfirvélstjóri, 1. vélstjóri og annar vélstjóri.
     Um fjölda vélavarða og vélstjóra á íslenskum kaupskipum fer eftir því sem fyrir er mælt í lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
  1. Sá sem lokið hefur námskeiði í vélgæslu sem haldið er á vegum vélskóla samkvæmt reglugerð, er menntamálaráðherra setur, hefur rétt til að vera vélgæslumaður á skipi að 20 rúmlestum með aðalvél minni en 221 kw.
    Atvinnuskírteini: Vélgæslumaður (VM).
  2. Sá sem lokið hefur vélstjóranámi 1. stigs hefur öðlast rétt til að vera vélavörður á skipi með aðalvél minni en 221 kw.
    Atvinnuskírteini: Vélavörður (VV).
    Að loknum 6 mánaða siglingatíma sem vélavörður á skipi hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með aðalvél 375 kw. og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélavörður (VVy).
  3. Sá sem lokið hefur vélstjóranámi 2. stigs hefur öðlast rétt til að vera vélavörður á skipi með aðalvél minni en 221 kw.
    Atvinnuskírteini: Vélavörður (VV).
    Að loknum 5 mánaða siglingatíma sem vélavörður á skipi hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með aðalvél minni en 376 kw.
    Atvinnuskírteini: Yfirvélstjóri (VVy).
    Að loknum 9 mánaða siglingatíma sem vélavörður á skipi, þar af a.m.k. 5 mánuði á skipi með 401–750 kw. vél, hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með 750 kw. vél og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélstjóri III (VS III).
  4. Sá sem hefur lokið vélstjóranámi 3. stigs hefur öðlast rétt til að vera vélavörður á skipi með aðalvél minni en 221 kw.
    Atvinnuskírteini: Vélavörður (VV).
    Að loknum 4 mánaða starfstíma sem vélavörður á skipi hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með 375 kw. vél og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélavörður (VVy).
    Að loknum 6 mánaða starfstíma sem vélavörður á skipi með 401–750 kw. vél hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með 750 kw. vél og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélstjóri III (VS III).
    Að loknum 12 mánaða starfstíma sem vélavörður eða vélstjóri á skipi með 401 kw. vél og stærri hefur hann öðlast rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með 1500 kw. vél og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélstjóri II (VS II).
    Að loknum 18 mánaða starfstíma sem vélstjóri eða vélavörður á skipi, þar af a.m.k. 6 mánuði sem vélavörður, en 12 mánuði sem vélstjóri. Af vélstjóratímanum, vélstjóri a.m.k. 3 mánuði við 751 kw. vél og stærri. Að loknum þessum starfstíma hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með 1500 kw. vél og minni og 2. vélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.
    Atvinnuskírteini: Vélstjóri I (VS I).
  5. Sá sem lokið hefur vélstjóranámi 4. stigs ásamt sveinsprófi í viðurkenndri málmiðnaðargrein (þ.e. vélfræðingur) hefur öðlast rétt til að vera 1. vélstjóri á skipi með 1500 kw. vél og minni og 2. vélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.
    Atvinnuskírteini: Vélfræðingur IV (VF IV).
    Að loknum 6 mánaða starfstíma sem vélstjóri á skipi með 751 kw. vél og stærri hefur hann öðlast réttindi til að vera yfirvélstjóri á skipi með 1500 kw. vél og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélstjóri I (VS I).
    Að loknum 12 mánaða starfstíma sem vélstjóri á skipi með 751 kw. vél og stærri hefur hann öðlast réttindi til að vera 1. vélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.
    Atvinnuskírteini: Vélfræðingur III (VF III).
    Að loknum 24 mánaða starfstíma sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k. 12 mánuði sem 1. vélstjóri á skipi með 1501 kw. vél og stærri að fengnum rétti til að öðlast atvinnuskírteini VF III, hefur hann öðlast réttindi til að vera yfirvélstjóri á skipi með 3000 kw. vél og minni.
    Atvinnuskírteini: Vélfræðingur II (VF II).
    Að loknum 36 mánaða starfstíma sem vélavörður eða vélstjóri á skipi, þar af a.m.k. 12 mánuði sem 1. vélstjóri á skipi með 1501 kw. vél og stærri, hefur hann öðlast rétt til að vera yfirvélstjóri á skipi með ótakmarkaða vélarstærð.
    Atvinnuskírteini: Vélfræðingur I (VF I).
  6. Við mat á starfstíma til atvinnuréttinda er heimilt að taka tillit til starfsreynslu við vélstjórn við aðrar stærðir véla en að framan greinir.

4. gr.

     Við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist: „enda fullnægi þeir kröfum um viðhald réttinda, sbr. 9. gr.“.

5. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Í nefndinni eiga sæti tveir fulltrúar tilnefndir af fulltrúum útgerðaraðila, einn fulltrúi tilnefndur af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af Vélstjórafélagi Íslands, en formann nefndarinnar skipar ráðherra án tilnefningar.

6. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Hver íslenskur ríkisborgari, 18 ára og eldri, sem fullnægir skilyrðum laga þessara um menntun, siglingatíma, aldur og heilsufar, á rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini og stunda samkvæmt því atvinnu sem vélstjórnarmaður á íslenskum skipum.
     Þennan rétt hafa einnig ríkisborgarar annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur með reglugerð, þar á meðal skilyrði um nauðsynlega kunnáttu á íslensku tal- og ritmáli.
     
Réttindi: Atvinnuskírteini:
Vélgæslumaður (VM) Vélgæslumaður
Vélavörður (VV) Vélavörður og VM STCW III/6
Vélavörður (VVy) Yfirvélstjóri; aðalvél <375 kw. og VV STCW III/6
Vélstjóri III (VS III) Yfirvélstjóri; aðalvél <750 kw. vél og VVy STCW III/6
Vélstjóri II (VS II) 1. vélstjóri; aðalvél <1500 kw. vél og VS III STCW III/6
Vélstjóri I (VS I) Yfirvélstjóri; aðalvél <1500 kw. vél og VF IV STCW III/4
Vélfræðingur IV (VF IV) 2. vélstjóri; aðalvél ótakmörkuð og VS II STCW III/4
Vélfræðingur III (VF III) 1. vélstjóri; aðalvél ótakmörkuð og VS I STCW III/2
Vélfræðingur II (VF II) Yfirvélstjóri; <3000 kw. vél og VF III STCW III/3
Vélfræðingur I (VF I) Yfirvélstjóri; aðalvél ótakmörkuð STCW III/2

     
     Atvinnuskírteini skulu gefin út af tollstjóranum í Reykjavík eða sýslumönnum úti á landi og skulu þau rituð á þar til gerð eyðublöð eftir fyrirmynd sem samgönguráðuneytið semur. Skírteinin skulu gefin út á íslensku og ensku og gilda í 5 ár í senn. Samgönguráðherra setur reglur um skilyrði til endurnýjunar atvinnuskírteina, svo sem um viðhald réttinda og heilsufar, þar sem taka skal mið af alþjóðasamþykkt um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna frá 1978, eftir því sem við á.
     Skírteinishafi skal hafa skírteinið meðferðis við vélstjórn og sýna það þegar löggæslumaður krefst þess.
     Atvinnuskírteini samkvæmt STCW-alþjóðasamþykktinni skulu þó gefin út af Siglingamálastofnun ríkisins.

7. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Samgönguráðuneytið getur, að fenginni umsögn Vélstjórafélags Íslands og Vélskóla Íslands, heimilað þegnum erlendra ríkja utan hins Evrópska efnahagssvæðis sem lokið hafa vélstjórnarnámi við íslenskan skóla eða sambærilegan erlendan skóla að fá útgefið viðeigandi atvinnuskírteini að fullnægðum öðrum skilyrðum.
     Á sama hátt getur samgönguráðuneytið, að fenginni umsögn Vélskóla Íslands og Vélstjórafélags Íslands, heimilað þeim íslensku ríkisborgurum sem lokið hafa vélstjórnarnámi við erlenda skóla að fá útgefið viðeigandi atvinnuskírteini, að fullnægðum öðrum skilyrðum.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Í stað A-liðar í ákvæði til bráðabirgða kemur nýr A-liður, svohljóðandi:
  1. Eftir gildistöku laga þessara verður á vegum menntamálaráðuneytis en í samráði við Vélskóla Íslands efnt til námskeiða í vélgæslufræðum. Um framkvæmd námskeiða þessara, námsefni og kennsluaðstöðu skal haft samráð við hagsmunaaðila. Um námsefni, námstilhögun, próf og aldurskilyrði skal nánar kveðið á í reglugerð sem ráðherra setur. Þátttakendur á námskeiðunum skulu ganga undir próf er veiti þeim rétt til atvinnuskírteinis vélgæslumanna (VM).
  2.      Frá gildistöku laga þessara og fram til 1. september 1996 getur sá sem fæddur er árið 1945 og fyrr og annast hefur vélgæslu á bátum í 5 ár fengið réttindi sem vélgæslumaður á skipi að 20 rúmlestum, þrátt fyrir ákvæði a-liðar 2. gr., þegar hann hefur setið námskeið í vélgæslufræðum. Í stað þess að ganga undir próf getur viðkomandi fengið vottorð um að hann hafi setið námskeiðið og sé hæfur til vélgæslustarfa að mati námskeiðshaldara.
         Þeir sem fæddir eru árið 1934 eða fyrr og stundað hafa vélstjórn á báti 11 rúmlestir og minni um 10 ára skeið eiga rétt á að fá útgefið atvinnuskírteini sem bundið er viðkomandi skipi eða öðru skipi, þó eigi yfir 11 rúmlestum. Siglingatíma má sanna með vottorðum tveggja valinkunnra manna.


Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.