Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 909, 118. löggjafarþing 329. mál: leigubifreiðar (heildarlög).
Lög nr. 61 8. mars 1995.

Lög um leigubifreiðar.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Leiguakstur.
     Lög þessi taka til fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Fólksbifreiðar, sem taka fleiri en átta farþega, falla þó ekki undir lög þessi. Leiguakstur fólksbifreiða telst það þegar fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra.
     Leiguakstur vörubifreiða og sendibifreiða telst það þegar slík bifreið er seld á leigu ásamt ökumanni til flutnings á vörum fyrir tiltekið gjald þar sem ökumaður eða eigandi bifreiðarinnar er hvorki eigandi, seljandi né kaupandi vörunnar sem flutt er.
     Heimilt er með reglugerð að kveða nánar á um mörkin milli atvinnusviðs fólksbifreiða, vörubifreiða og sendibifreiða sem notaðar eru til leiguaksturs. Rísi ágreiningur um þessi mörk sker samgönguráðuneytið úr.
     Leigubifreiðar skulu auðkenndar.

2. gr.

Bifreiðastöðvar.
     Sveitarstjórn er heimilt að ákveða að allar leigubifreiðar í sveitarfélaginu í hverjum flokki fyrir sig, þ.e. fólksbifreiðar, vörubifreiðar og sendibifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem fengið hefur viðurkenningu sveitarstjórnar. Þar sem viðurkenndar bifreiðastöðvar eru starfandi er öllum sem aka utan þessara stöðva bannað að taka að sér eða stunda leiguakstur á viðkomandi sviði.
     Bifreiðastöðvar fyrir leigubifreiðar skulu í samráði við félög leigubifreiðastjóra skipuleggja starfsemi sína með þeim hætti að almenningi verði veitt góð og örugg þjónusta. Hver bifreiðastöð skal fylgjast með því að ökumenn, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir fyrirmælum laga og reglugerða um leigubifreiðar.

3. gr.

Skilyrði til aksturs.
     Þeir einir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum mega aka bifreið í leiguakstri:
  1. hafa fullnægjandi starfshæfni, þar með talin fullnægjandi ökuréttindi,
  2. hafa óflekkað mannorð,
  3. hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu,
  4. hafa fullnægjandi heilbrigðisvottorð,
  5. vera 70 ára eða yngri, sbr. þó 2. málsl. 5. mgr. 7. gr.

4. gr.

Takmörkun á fjölda bifreiða.
     Samgönguráðuneytinu er heimilt með reglugerð að takmarka fjölda bifreiða í leiguakstri enda komi til meðmæli viðkomandi sveitarstjórna og héraðsnefnda. Þar sem sveitarstjórnir og héraðsnefndir eru eigi sammála sker samgönguráðuneytið úr. Bifreiðafjöldi skal ákveðinn í samráði við sveitarstjórnir, héraðsnefndir og félög bifreiðastjóra.
     Þegar heimild til takmörkunar á fjölda leigubifreiða er veitt er óheimilt að skerða atvinnuréttindi þeirra manna sem á lögmætan hátt stunda leigubifreiðaakstur er takmörkun hefst.
     Takmörkun á fjölda bifreiða er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa skv. II. kafla laga þessara.

II. KAFLI
Leiguakstur fólksbifreiða.

5. gr.

Atvinnuleyfi.
     Þeim einum sem hafa atvinnuleyfi er heimilt að taka að sér eða stunda leiguakstur á fólki, sbr. þó 2. mgr. 7. gr. Þar sem kveðið hefur verið á um takmörkun á fjölda fólksbifreiða eru atvinnuleyfi gefin út af umsjónarnefnd fólksbifreiða en utan takmörkunarsvæða fer eftir nánari reglum sem samgönguráðherra setur.
     Atvinnuleyfi er bundið við nafn. Engum má veita meira en eitt atvinnuleyfi. Leyfishafa er óheimilt að selja atvinnuleyfi, leigja það út eða ráðstafa því á annan hátt. Atvinnuleyfishafi er háður ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar svo sem þau eru á hverjum tíma.
     Bifreiðastjórar sem stunda leiguakstur samkvæmt lögum þessum skulu hafa í bifreiðinni skilríki til sönnunar á því að þeir hafi atvinnuleyfi eða stundi leiguakstur í forföllum leyfishafa.

6. gr.

Veiting atvinnuleyfa.
     Þar sem ekki hefur verið kveðið á um takmörkun á fjölda fólksbifreiða í leiguakstri á umsækjandi rétt á að fá útgefið atvinnuleyfi ef hann fullnægir skilyrðum 3. gr.
     Þar sem takmörkun á fjölda fólksbifreiða hefur verið ákveðin skal umsækjandi fullnægja skilyrðum 3. gr. og sitja þeir að öðru jöfnu fyrir við úthlutun leyfa er stundað hafa leiguakstur á fólki í a.m.k. eitt ár. Að jafnaði skal halda námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi og má gera prófárangur að skilyrði fyrir því að leyfi verði veitt. Heimilt er að taka sérstakt tillit til umsókna um atvinnuleyfi frá öryrkjum, enda uppfylli þeir skilyrði þessara laga.

7. gr.

Nýting atvinnuleyfis.
     Sá einn getur fengið atvinnuleyfi sem á fólksbifreið og hefur það að aðalatvinnu að aka henni sjálfur. Frá skilyrðum um aðalatvinnu má víkja á svæðum þar sem íbúar eru færri en 5.000.
     Veita má leyfishafa tímabundnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar vegna:
  1. orlofs, veikinda eða annarra forfalla,
  2. vaktaskipta á álagstímum,
  3. viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.
     Samgönguráðherra setur reglur um undanþágur skv. 2. mgr. að fengnum tillögum umsjónarnefndar og félags eða félaga bifreiðastjóra á hlutaðeigandi svæði. Ráðherra er heimilt að fela félagi bifreiðastjóra, þar sem meiri hluti bifreiðastjóra á svæðinu er félagar, að annast framkvæmd á veitingu undanþága í samráði við umsjónarnefnd. Bifreiðastjóri getur áfrýjað ákvörðunum félagsins til umsjónarnefndar enda skal fyllsta jafnræðis gætt. Ákvarðanir umsjónarnefndar um kæru eru endanlegar innan stjórnsýslunnar. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið gjald fyrir veittar undanþágur.
     Heimilt er að svipta leyfishafa atvinnuleyfi tímabundið ef hann brýtur gegn ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar, en fyrir fullt og allt ef um alvarleg eða ítrekuð brot er að ræða.
     Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn allt til 75 ára aldurs leyfishafa ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð. Heimilt er að leyfa eftirlifandi maka eða dánarbúi leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa.

8. gr.

Umsjónarnefnd fólksbifreiða.
     Þar sem kveðið hefur verið á um takmörkun á fjölda fólksbifreiða í leiguakstri skipar samgönguráðherra þriggja manna umsjónarnefnd fólksbifreiða. Sveitarfélag eða sveitarfélög sameiginlega tilnefna einn mann, félag eða félög leigubifreiðastjóra sameiginlega einn mann og hinn þriðja skipar ráðherra án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar. Ráðherra getur ákveðið að fjölga í nefndinni á ákveðnum svæðum ef ástæða þykir til.
     Umsjónarnefnd fólksbifreiða hefur með höndum umsjón og eftirlit með framkvæmd laga og reglugerða um leigubifreiðar á svæðinu, úthlutun atvinnuleyfa og afturköllun þeirra, svo og eftirlit með þjónustu fólksbifreiðastöðva.
     Samgönguráðherra ákveður laun nefndarmanna. Laun þeirra og annan kostnað af störfum umsjónarnefnda greiðir ríkissjóður.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.

9. gr.

     Gjaldmælar skulu vera í öllum fólksbifreiðum og sendibifreiðum sem notaðar eru til leiguaksturs. Löggildingarstofan hefur eftirlit með notkun og meðferð gjaldmæla.

10. gr.

     Samgönguráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.
     Þrátt fyrir ákvæði II. kafla laganna er samgönguráðherra heimilt að veita tímabundið og skilyrt atvinnuleyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu og til bifreiðastjóra sem jafnframt er fullgildur leiðsögumaður.

11. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum, nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum, og skal farið með mál út af brotum á lögum þessum að hætti opinberra mála.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um leigubifreiðar, nr. 77/1989, með síðari breytingum.
     Við gildistöku laga þessara haldast viðurkenningar á bifreiðastöðvum samkvæmt eldri lögum og þær takmarkanir á fjölda leigubifreiða sem nú eru í gildi þar til öðruvísi er ákveðið af réttum aðilum.
     Þeir sem hafa atvinnuleyfi eða stunda akstur leigubifreiða utan takmörkunarsvæða við gildistöku laga þessara eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 3. gr. skulu þeir sem stunda akstur leigubifreiða við gildistöku laga þessara og hafa verið undanþegnir reglum um hámarksaldur halda atvinnuréttindum sínum óskertum til 1. janúar 1996. Eftir þann tíma rennur heimild allra bifreiðastjóra sem stunda leiguakstur samkvæmt lögum þessum út við lok 70 ára aldurs þeirra nema þeir fái undanþágu á grundvelli 2. málsl. 5. mgr. 7. gr.
     Þeir sem stunda leiguakstur á fólksbifreið utan takmörkunarsvæða við gildistöku laga þessara skulu uppfylla skilyrði laganna og afla sér atvinnuleyfis á árinu 1995.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.