Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 941, 118. löggjafarþing 411. mál: greiðsla á bótum til þolenda afbrota.
Lög nr. 69 10. mars 1995.

Lög um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Ríkissjóður greiðir bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laga þessara, enda hafi brotið verið framið innan íslenska ríkisins. Í sérstökum tilvikum er heimilt að greiða bætur fyrir tjón sem leiðir af broti sem framið var utan íslenska ríkisins, enda sé tjónþoli búsettur á Íslandi eða íslenskur ríkisborgari.
     Lög þessi gilda einnig um líkamstjón sem leiðir af aðstoð við lögreglu við handtöku, borgaralega handtöku eða að afstýra refsiverðri háttsemi.

II. KAFLI
Bótaskyld tjón.

2. gr.

     Ríkissjóður greiðir bætur vegna líkamstjóns. Sama gildir um tjón á fatnaði og öðrum persónulegum munum, þar á meðal lágum fjárhæðum í reiðufé, sem tjónþoli bar á sér þegar líkamstjóninu var valdið.
     Andist tjónþoli vegna afleiðinga brots skulu greiddar bætur vegna hæfilegs útfararkostnaðar og bætur vegna missis framfæranda.

3. gr.

     Ríkissjóður greiðir bætur vegna miska. Þó á tjónþoli ekki rétt á miskabótum varði brot einungis við ákvæði í XXV. kafla almennra hegningarlaga.

4. gr.

     Ríkissjóður greiðir bætur vegna tjóns á munum er einstaklingur veldur með athöfnum sínum ef hann:
  1. er að afplána refsivist í fangelsi,
  2. er handtekinn í þeim tilgangi að hann sæti gæsluvarðhaldsvist eða er í gæsluvarðhaldi,
  3. er vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum skv. 13. gr. lögræðislaga eða
  4. er vistaður á ríkisstofnun gegn vilja sínum skv. 22. gr. laga um vernd barna og ungmenna.

     Bætur skulu greiddar fyrir tjón sem valdið er á umráðasvæði stofnunar eða meðan á dvöl utan hennar stendur að fengnu leyfi eða í tengslum við strok.
     Í sérstökum tilvikum er heimilt að greiða bætur fyrir tjón á munum sem maður veldur hafi hann strokið frá sambærilegri stofnun og greinir í 1. mgr. í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

5. gr.

     Bætur samkvæmt lögum þessum skulu ekki greiddar:
  1. til stjórnvalda eða opinberra stofnana,
  2. þegar bæði tjónvaldur og tjónþoli voru, þegar brot var framið, um stundarsakir eða í stuttan tíma staddir hér á landi.

III. KAFLI
Skilyrði bótagreiðslu og fjárhæð bóta.

6. gr.

     Það er skilyrði greiðslu bóta að brot, sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns.
     Umsókn um bætur skal hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið.

7. gr.

     Bætur vegna einstaks verknaðar skulu ekki greiddar nemi þær lægri fjárhæð en 10.000 kr.
     Fyrir tjón á munum skulu ekki greiddar hærri bætur en 500.000 kr.
     Fyrir líkamstjón skulu ekki greiddar hærri bætur en 5.000.000 kr.
     Fyrir miska skulu ekki greiddar hærri bætur en 1.000.000 kr.
     Fyrir missi framfæranda skulu ekki greiddar hærri bætur en 3.000.000 kr.
     Fjárhæðir samkvæmt þessari grein taka verðlagsbreytingum skv. 15. gr. skaðabótalaga.

8. gr.

     Að öðru leyti en greinir í lögum þessum gilda við ákvörðun bóta almennar reglur um skaðabótaábyrgð tjónvalds, þar á meðal um lækkun eða niðurfellingu bóta vegna eigin sakar tjónþola eða hins látna á tjóninu eða eigin áhættu. Við mat á því hvort lækka beri eða fella niður bætur samkvæmt þessu er heimilt að líta til háttsemi tjónþola eða umsækjanda fyrir brotið, við brotið eða eftir það.
     Bætur fyrir muni skv. 4. gr. má lækka eða fella niður hafi tjónþoli, af ásetningi eða gáleysi, aukið hættu á tjóni með því að láta hjá líða að gera venjulegar varúðarráðstafanir. Sama gildir hafi munir ekki verið vátryggðir, enda hafi almennt mátt ætlast til þess af tjónþola.

9. gr.

     Greiða skal tjónþola bætur samkvæmt lögum þessum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé ósakhæfur eða finnist ekki.

10. gr.

     Frá ákvarðaðri fjárhæð bóta skal draga greiðslur sem tjónþoli hefur fengið eða samið um að fá greiddar frá tjónvaldi, greiðslur sem falla undir almannatryggingar, laun í veikindum, lífeyrisgreiðslur eða vátryggingabætur. Sama gildir um aðra fjárhagsaðstoð sem tjónþoli hefur fengið eða á rétt á vegna tjónsins.
     Endurkröfur á hendur tjónþola skulu ekki greiddar.

11. gr.

     Þegar bótakröfu hefur verið ráðið til lykta með dómi skal greiða bætur með þeirri fjárhæð sem ákveðin var í dóminum, sbr. þó ákvæði 7. gr., 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr.
     Í sérstökum tilvikum er bótanefnd heimilt að víkja frá ákvæðum 1. mgr., t.d. ef telja má með réttu að tjón tjónþola hafi ekki að fullu verið ljóst við meðferð málsins fyrir dómi.
     Ákvæði 1. mgr. gildir ekki að því leyti sem tjónvaldur er talinn hafa viðurkennt kröfuna eða fjárhæð hennar undir rekstri máls.

12. gr.

     Þegar tjónþoli hefur lagt fram beiðni um greiðslu bóta til bótanefndar og krafan er til meðferðar í dómsmáli á hendur tjónvaldi eða dæmd í héraði er bótanefnd heimilt að fresta ákvörðun um greiðslu bóta þar til endanlegur dómur liggur fyrir.

IV. KAFLI
Bótanefnd.

13. gr.

     Bótanefnd tekur ákvörðun um greiðslu bóta.
     Í bótanefnd eiga sæti þrír menn sem dómsmálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar einn þeirra formann nefndarinnar og þrjá menn til vara.
     Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Um hæfi nefndarmanna til að fara með mál skal fara eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara.
     Dómsmálaráðherra setur reglugerð um starfsháttu nefndarinnar.

14. gr.

     Bótanefnd er heimilt að krefja tjónþola um hvers konar upplýsingar sem hún telur þörf á við meðferð umsóknar hans, þar á meðal er henni heimilt að kveðja tjónþola á fund nefndarinnar. Jafnframt er nefndinni heimilt að krefjast upplýsinga frá öðrum þeim er þekkja kunna til málavaxta.
     Þegar um líkamstjón er að ræða getur nefndin óskað eftir því að tjónþoli láti lækni rannsaka sig. Nefndinni er heimilt að fá afrit úr sjúkraskrá tjónþola enda liggi fyrir samþykki hans.
     Nefndinni er heimilt að krefjast yfirheyrslna fyrir dómi.
     Verði tjónþoli ekki innan tilskilins frests við óskum nefndarinnar um framlagningu tiltekinna upplýsinga eða gagna er nefndinni heimilt að ljúka meðferð máls á grundvelli þeirra gagna er fyrir liggja.

15. gr.

     Kostnaður vegna meðferðar máls hjá bótanefnd, þar á meðal vegna rannsóknar sem um getur í 2. mgr. 14. gr., greiðist úr ríkissjóði.
     Í sérstökum tilvikum, svo sem vegna efnahags umsækjanda, er nefndinni heimilt að ákveða að umsækjandi skuli að hluta til eða að öllu leyti fá greiddan kostnað sem hann hefur þurft að bera í tilefni málsins.

16. gr.

     Ákvörðun bótanefndar er endanleg niðurstaða máls á stjórnsýslustigi.

17. gr.

     Þegar umsækjandi hefur gefið rangar upplýsingar eða leynt atriðum sem þýðingu hafa við ákvörðun um greiðslu bóta er heimilt að endurkrefja tjónþola um þá fjárhæð sem hann hefur ranglega fengið með þeim hætti.
     Enn fremur er heimilt að krefja tjónþola um endurgreiðslu bóta ef hann hefur síðar fengið tjón sitt bætt með öðrum hætti.

V. KAFLI
Gildistaka o.fl.

18. gr.

     Lögreglu er skylt að leiðbeina tjónþola um rétt sinn til greiðslu bóta samkvæmt lögum þessum.

19. gr.

     Greiði ríkissjóður bætur samkvæmt lögum þessum eignast hann rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemur fjárhæð bótanna.

20. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 og gilda um tjón sem leiðir af brotum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Umsókn um bætur vegna tjóns sem leiðir af broti sem framið er fyrir 1. janúar 1996 skal hafa borist bótanefnd innan árs frá gildistöku laganna.
     Dómsmálaráðherra skal á ári hverju til ársloka 2000 gera Alþingi grein fyrir þeim útgjöldum sem lög þessi hafa í för með sér.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.