Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 111, 119. löggjafarþing 28. mál: stjórn fiskveiða (veiðar krókabáta o.fl.).
Lög nr. 83 20. júní 1995.

Lög um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 87/1994, orðast svo:
     Falli veiðileyfi skips skv. 1. mgr. þessarar greinar niður má veita nýju eða nýkeyptu sambærilegu skipi veiðileyfi í þess stað enda hafi rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Sé um að ræða endurnýjun báts, sem veiðar stundar með línu og handfærum með dagatakmörkunum skv. 1.–10. mgr. 6. gr., skal afkastageta hins nýja eða nýkeypta báts þó vera a.m.k. 50% minni en þess báts er veiðileyfi lætur. Ávallt skal nýr eða nýkeyptur bátur vera minni en 6 brúttótonn. Heimilt er að flytja veiðileyfi fleiri en eins skips til skips er veiðileyfi hlýtur. Þá er heimilt að veita fleiri en einu skipi veiðileyfi í stað skips er veiðileyfi lætur. Óheimilt er að gera breytingar á skipum sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni þannig að afkastageta þeirra aukist nema annað skip eða önnur skip láti veiðileyfi á móti. Þetta á þó ekki við um breytingar á skipum sem veiðar stunda með aflamarki og leyfi fengu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. janúar 1986, en ekki skulu slíkar breytingar lagðar til grundvallar við mat á afkastagetu við endurnýjun skipsins síðar. Ráðherra skal með reglugerð setja nánari reglur um endurnýjun fiskiskipa.

2. gr.

     6. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 87/1994, orðast svo:
     Bátar minni en 6 brl., sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum, krókabátar, skulu frá og með fiskveiðiárinu er hefst 1. september 1995 stunda veiðar með þeim takmörkunum er kveðið er á um í 2.–10. mgr. þessarar greinar. Þessum bátum er einungis heimilt að stunda veiðar með handfærum og línu. Þó er sjávarútvegsráðherra heimilt að veita þeim leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum og til hrognkelsaveiða í net.
     Veiðar skulu bannaðar í desember og janúar sem og í sjö daga um páska og verslunarmannahelgi samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Veiðar skulu enn fremur bannaðar aðra og fjórðu helgi hvers mánaðar auk föstudaga á undan hvorri helgi. Falli banndagar þessir saman við banndaga um páska eða verslunarmannahelgi flytjast þeir fram sem því nemur. Á banndögum eru allar veiðar óheimilar. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu varðandi veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr.
     Krókabátum gefst frá og með fiskveiðiári því er hefst 1. september 1995 kostur á að velja milli þess að stunda veiðar með þorskaflahámarki skv. 4. mgr. og þess að stunda veiðar með viðbótarbanndögum eins og nánar er lýst í 5.–9. mgr.
     Þorskaflahámark þeirra báta er þann kost velja skal samtals nema sama hlutfalli af 21.000 lestum, miðað við óslægðan fisk, og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í heildarþorskafla krókabáta á almanaksárinu 1994. Skal því skipt milli einstakra báta á grundvelli veiðireynslu viðkomandi báts almanaksárin 1992, 1993 og 1994. Skal við þá skiptingu fyrst taka tvö bestu árin varðandi þorskafla hvers báts og reikna meðalþorskafla bátsins á þeim árum. Sá hluti þannig reiknaðs meðalafla fyrir hvern bát, sem umfram er 50 lestir, skal síðan margfaldaður með stuðlinum 0,7. Þannig umreiknaður meðalafli tveggja bestu áranna skal lagður til grundvallar hlutfallslegri skiptingu sameiginlegs þorskaflahámarks milli einstakra báta. Við ákvörðun þorskaflahámarks skal ekki tekið tillit til frátafa frá veiðum á viðmiðunartímabilinu.
     Fyrir þá báta sem velja viðbótarbanndaga skal fiskveiðiárinu skipt upp í fjögur veiðitímabil og hámarksafli þeirra ákveðinn á hverju tímabili. Veiðitímabil eru sem hér segir:
1. tímabil 1. september til 30. nóvember.
2. tímabil 1. febrúar til 30. apríl.
3. tímabil 1. maí til 30. júní.
4. tímabil 1. júlí til 31. ágúst.
     Sameiginlegur hámarksafli þeirra báta er þennan kost velja telst sama hlutfall af 21.000 lestum af þorski, miðað við óslægðan fisk, og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í heildarþorskafla krókabáta á almanaksárinu 1994 og skal honum skipt þannig milli veiðitímabila að á fyrsta tímabil falla 24%, á annað tímabil 11%, á þriðja tímabil 32% og á fjórða tímabil 33%. Útgerðum báta er velja að stunda veiðar með þorskaflahámarki skv. 3. mgr. gefst kostur á að endurskoða val sitt í lok fiskveiðiársins 1995/1996 og velja í stað þess sóknardaga fyrir síðari fiskveiðiár enda tilkynni útgerð þá ákvörðun fyrir 1. ágúst 1996. Hækkar þá sameiginlegur hámarksafli samkvæmt þessari málsgrein sem nemur hlutdeild þeirra báta sem endurvalið tekur til í heildarþorskafla krókabáta á almanaksárinu 1994 og skal þorskafli þessara báta á einstökum tímabilum fiskveiðiársins 1995/1996 talinn með við ákvörðun sóknardaga á einstökum tímabilum fiskveiðiársins 1996/1997.
     Fari þorskafli þeirra báta er þennan kost velja á einhverju veiðitímabili fram úr fyrrgreindu hámarki skal banndögum á sama tímabili á næsta fiskveiðiári fjölgað, í fyrsta sinn á fiskveiðiári því sem hefst 1. september 1995. Í því sambandi skal reikna meðalafla á dag á umræddu veiðitímabili liðins fiskveiðiárs og finna viðbótarbanndaga með því að deila þeirri tölu í viðkomandi umframafla. Skal banndögum fjölgað um heila daga og broti sleppt. Hámarksafli skv. 6. mgr. á viðkomandi tímabili næsta fiskveiðiárs skal lækka sem umframaflanum nemur.
     Viðbótarbanndagar skulu falla á þær helgar sem veiðar eru ekki bannaðar á skv. 2. mgr. á viðkomandi tímabili og síðan bætast framan við fasta banndaga á viðkomandi tímabili. Þeim skal skipt eins jafnt niður og unnt er. Þó skulu fyrstu sjö viðbótarbanndagarnir á fyrsta tímabili vera í lok tímabilsins, fyrstu sjö viðbótarbanndagarnir á öðru tímabili vera í upphafi þess og fyrstu sjö viðbótarbanndagarnir á þriðja tímabili vera dagarnir fyrir sjómannadag. Á viðbótarbanndögum eru allar veiðar óheimilar. Ráðherra getur þó veitt undanþágu frá þessu varðandi veiðar í sérhæfð veiðarfæri samkvæmt lokamálslið 1. mgr. Frá og með því veiðitímabili er hefst 1. febrúar 1996 skal útgerð heimill að eigin vali tiltekinn fjöldi sóknardaga innan hvers veiðitímabils í stað viðbótarbanndaga samkvæmt þessari málsgrein. Skal fjöldi sóknardaga vera ákveðinn þannig að sókn sé heimil á 34% færri dögum á hverju tímabili en verið hefði með fastákveðnum viðbótarbanndögum. Heimilt er að flytja sóknardaga frá fyrsta og öðru veiðitímabili yfir á þriðja og fjórða veiðitímabil sama fiskveiðiárs, enda verði bátum ekki haldið til veiða á því veiðitímabili sem sóknardagar eru fluttir frá. Sóknardagar, sem fluttir eru á þennan hátt, skulu margfaldaðir með stuðlinum 0,5 og broti sleppt. Þannig umreiknuðum sóknardögum skal skipt jafnt milli þriðja og fjórða veiðitímabils. Útgerðir skulu tilkynna Fiskistofu um flutning á sóknardögum fyrir upphaf þess veiðitímabils sem sóknardagar eru fluttir frá. Annað veiðitímabil fiskveiðiársins 1996/1997 er fyrsta veiðitímabil sem heimilt er að flytja sóknardaga frá. Við útreikning á sóknardögum á hverju tímabili á næsta fiskveiðiári skal hlutfall afla, sem er jafnt hlutfall fluttra sóknardaga af heildarfjölda sóknardaga á tímabilinu, reiknast til afla þess tímabils sem sóknardagar voru fluttir frá. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga, eftirlit með þeim og hvernig tilkynnt skuli um flutning á sóknardögum. Ráðherra getur á sama hátt með reglugerð leyft flutning milli annarra tímabila.
     Sé einn maður í áhöfn krókabáts er óheimilt að róa með og eiga í sjó fleiri en 12 bala af línu en 20 bala séu tveir eða fleiri í áhöfn. Miðað er við að 500 krókar séu á línu í hverjum bala.
     Fiskistofa skal fyrir 1. júlí 1995 senda útgerðum tilkynningu um reiknað þorskaflahámark hvers báts og forsendur þess og hafa útgerðir mánaðarfrest til að tilkynna um val milli þorskaflahámarks og viðbótarbanndaga og sama frest til að koma að athugasemdum. Velji útgerð ekki fyrir tilskilinn tíma skulu bátnum ákvarðaðir viðbótarbanndagar. Skal Fiskistofa úrskurða um framkomnar athugasemdir eins fljótt og við verður komið. Sætti útgerðarmaður sig ekki við úrskurð Fiskistofu getur hann skotið málinu til sérstakrar kærunefndar er ráðherra skipar. Skal hún skipuð þremur mönnum og skal formaður hennar fullnægja skilyrðum til að vera skipaður héraðsdómari. Úrskurðir kærunefndar eru fullnaðarúrskurðir innan stjórnkerfisins.
     Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein, er óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.

3. gr.

     4. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Þá er heimilt að veiða allt að 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar og úthafsrækju og 3% umfram aflamark innfjarðarrækju, enda dregst sá umframafli frá við úthlutun aflamarks næsta fiskveiðiárs á eftir.

4. gr.

     4. mgr. 12. gr. laganna, sbr. 7. gr. laga nr. 87/1994, fellur niður.

5. gr.

     Við 17. gr. laganna, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1992, bætist ný málsgrein er verður 4. mgr. og orðast svo:
     Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að settur skuli, á kostnað útgerða, sjálfvirkur eftirlitsbúnaður til fjareftirlits um borð í fiskiskip.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við upphaf þess fiskveiðiárs er hefst 1. september 1995. Ákvæði 1. gr. koma þó þegar til framkvæmda. Hafi bindandi samningur verið gerður fyrir gildistöku laga þessara um kaup eða smíði á nýjum báti í stað krókabáts eða um breytingar á slíkum báti skulu eldri reglur um endurnýjun þó gilda um þann bát enda hafi hann fengið útgefið haffærisskírteini fyrir 31. ágúst 1995.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Á fiskveiðiárunum 1995/1996 til og með 1998/1999 skal árlega ráðstafa 5.000 lestum af þorski til jöfnunar samkvæmt þessu ákvæði. Aflaheimildir þessar miðast við óslægðan fisk og skulu þær dregnar frá leyfðum heildarafla þorsks áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar, sbr. 3. mgr. 7. gr.
     Aflaheimildum skv. 1. mgr. skal árlega úthlutað til þeirra skipa sem orðið hafa fyrir mestri skerðingu við úthlutun aflamarks frá fiskveiðiárinu 1991/1992 til þess fiskveiðiárs er úthlutunin varðar. Skal úthlutunin framkvæmd eftir að ákvörðun hefur verið tekin um ráðstöfun aflaheimilda skv. 9. gr. og miðast við að skerðing umfram tiltekin mörk skuli að fullu bætt, þó þannig að ekkert skip fái meira en 10 lestir af þorski, miðað við slægðan fisk, í sinn hlut árlega. Skip, sem leyfi hafa til fullvinnslu botnfiskafla um borð, sbr. lög nr. 54/1992, skulu ekki njóta bóta samkvæmt þessu ákvæði.
     Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um úthlutun samkvæmt þessari grein. Skal hann m.a. kveða á um við hvaða tíma skuli miða aflahlutdeild. Þá er ráðherra heimilt að ákveða að litið skuli í heild á veiðiheimildir skipa í eigu sömu útgerðar varðandi bótaútreikning ef ástæða er til að ætla að reynt verði að hafa áhrif á bótaútreikning með millifærslu aflahlutdeildar milli skipa.
     Á fiskveiðiárinu 1994/1995 skal úthluta sérstaklega til jöfnunar þeim hluta aflahámarks vegna línutvöföldunar skv. 6. mgr. 10. gr. sem ekki nýttist við línuveiðar í nóvember til febrúar. Skal þessum aflaheimildum úthlutað í samræmi við reglur 2. og 3. mgr. þessa ákvæðis eftir því sem við á og skal í þeim efnum miða við aflahlutdeild einstakra skipa 1. maí 1995.
     Við ráðstöfun aflaheimilda skv. 9. gr. á því tímabili sem um getur í 1. mgr. þessa ákvæðis er heimilt að taka mið af breytingum í aflamarki sem orðið hafa á lengra tímabili en milli fiskveiðiára.

II.
     Á fiskveiðiárunum 1995/1996 til og með 1998/1999 skal Byggðastofnun árlega hafa til ráðstöfunar þorskaflahámark er nemur 500 lestum miðað við óslægðan fisk. Skal Byggðastofnun árlega ráðstafa þessum aflaheimildum til krókabáta sem gerðir eru út frá byggðarlögum sem algjörlega eru háð veiðum slíkra báta og standa höllum fæti. Frá og með fiskveiðiárinu 1999/2000 skal sjávarútvegsráðherra með reglugerð ráðstafa þessum aflaheimildum til krókabáta.

III.
     Sjávarútvegsráðherra skal tafarlaust láta fara fram könnun á þeim kostum sem fyrir hendi eru til fjareftirlits með sjálfvirkum búnaði með fiskiskipum. Skal að því stefnt að kerfi er hafi virkt eftirlit með nýtingu sóknardaga báta sem krókaveiðar stunda verði komið á fyrir 1. febrúar 1996. Takist það ekki skal ráðherra með reglugerð kveða á um tilkynningarskyldu og eftirlit með þessum veiðum með öðrum hætti sem hann telur fullnægjandi.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 1995.