Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 112, 119. löggjafarþing 29. mál: Þróunarsjóður sjávarútvegsins (gjaldskylda krókabáta o.fl.).
Lög nr. 89 21. júní 1995.

Lög um breytingu á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.


1. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur niður.

2. gr.

     Á eftir 2. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
     Bátar er veiðar stunda með línu og handfærum með dagatakmörkunum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða skulu greiða gjald er miðast við landaðan afla viðkomandi báts á tímabilinu 1. ágúst til 31. júlí fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs miðað við skráningu aflans í aflaupplýsingakerfi Fiskistofu. Um gjald þetta gilda að öðru leyti ákvæði 6. gr. eftir því sem við á.

3. gr.

     Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Komi í ljós að fjárhagur sjóðsins leyfi ekki greiðslu úreldingarstyrkja skv. 1. mgr. þessarar greinar er ráðherra heimilt að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins að lækka þegar ákveðið styrkhlutfall ársins. Jafnframt er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða frestun á greiðslu styrkja ef hún telur að um tímabundinn skort á ráðstöfunarfé sé að ræða.

4. gr.

     Í stað 8. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
     Skilyrði fyrir veitingu loforðs um styrk vegna úreldingar fiskiskips er að eigandi þess lýsi því yfir að skipið verði tekið af skipaskrá, að réttur til endurnýjunar verði ekki nýttur og enn fremur að allar veiðiheimildir skipsins verði sameinaðar aflaheimildum annarra skipa. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. er heimilt að veita loforð um styrk til úreldingar ef því verður lýst yfir að skipinu verði ekki haldið til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða það gert út sem fiskiskip frá Íslandi.
     Óheimilt er að greiða úreldingarstyrk fyrr en fyrir liggur vottorð Siglingamálastofnunar ríkisins um afskráningu skipsins af skipaskrá eða að þinglýst hefur verið kvöð á skipið þess efnis að það hafi verið tekið varanlega úr fiskiskipastól Íslendinga og að því verði ekki haldið til veiða frá Íslandi. Þá skal liggja fyrir yfirlýsing Fiskistofu um að allar aflaheimildir skipsins hafi varanlega verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa og fallið hafi verið frá rétti til endurnýjunar skipsins. Þá er óheimilt að veita skipi leyfi til veiða í atvinnuskyni ef Þróunarsjóður hefur greitt styrk vegna úreldingar þess. Enn fremur er óheimilt að nýta fiskiskip er hlotið hefur úreldingarstyrk til fiskveiða í efnahagslögsögu Íslands eða gera það út sem fiskiskip frá Íslandi.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 4. gr. skulu þó eingöngu taka til styrkloforða sem gefin verða út eftir gildistöku laganna.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Til viðbótar ákvæði til bráðabirgða I bætist nýtt ákvæði er orðast svo:
     Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árinu 1995 að taka að láni og endurlána Þróunarsjóði sjávarútvegsins allt að 500 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands á staðfestingardegi laganna.

II.
     Í stað ákvæðis til bráðabirgða II kemur nýtt ákvæði er orðast svo:
     Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. um þriggja ára greiðsluskyldu á hvorki við um þau skip er fá úthlutað tiltekinni hlutdeild af heildarafla og voru skráð á skipaskrá fyrir 1. janúar 1994 né um báta 6 brl. og minni er veiðar stunda með línu og handfærum með dagatakmörkunum sem skráðir voru á skipaskrá fyrir 1. maí 1995.

III.
     Sjávarútvegsráðherra er, þrátt fyrir ákvæði 7. gr., heimilt að ákveða að til ársloka 1995 skuli styrkur vegna úreldingar krókabáta vera hærra hlutfall af húftryggingarmati en gildir um önnur skip.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 1995.