Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 907, 120. löggjafarþing 232. mál: viðskiptabankar og sparisjóðir (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.).
Lög nr. 39 10. maí 1996.

Lög um breytingu á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skal fylgja lýsing á starfseminni þar sem fram kemur, meðal annars, hvaða starfsemi ætlunin er að stunda og lýsing á innra skipulagi viðskiptabankans eða sparisjóðsins. Jafnframt skulu fylgja upplýsingar um stofnendur, hlutafé eða stofnfé, hluthafa eða stofnfjáreigendur og hlut hvers um sig, auk annarra upplýsinga og gagna sem viðskiptaráðherra ákveður. Samþykktir skulu fylgja umsókn um starfsleyfi hlutafélagsbanka eða sparisjóðs.
  4. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  5.      Með umsókn skulu, auk upplýsinga skv. 2. mgr., fylgja gögn um náin tengsl stofnunar við einstaklinga eða lögaðila. Með nánum tengslum er átt við innbyrðis tengsl tveggja eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem fela í sér beina eða óbeina hlutdeild þessara aðila sem nemur a.m.k. 20% af eigin fé eða atkvæðisrétti fyrirtækis. Einnig er um náin tengsl að ræða ef fyrrgreindir aðilar, eða dótturfélög þeirra, hafa vegna samninga yfirráð í fyrirtæki (viðskiptabanka eða sparisjóði) eða sambærileg innbyrðis tengsl eins eða fleiri lögaðila eða einstaklinga við fyrirtæki.
  6. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  7.      Ákvörðun um umsókn um starfsleyfi skal ávallt liggja fyrir innan þriggja mánaða frá því að fullbúin umsókn barst ráðherra, sbr. ákvæði III. kafla.

2. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Viðskiptabanki eða sparisjóður sem sækir um starfsleyfi skv. 4. gr. skal hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi.

3. gr.

     2. og 3. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna falla brott.

4. gr.

     Orðin „um Lánastofnun sparisjóðanna hf.“ í 1. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

5. gr.

     Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., sem orðast svo:
     Ráðherra er og heimilt að synja umsókn um starfsleyfi ef náin tengsl viðskiptabanka eða sparisjóðs við einstaklinga eða lögaðila geta að mati bankaeftirlits hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum. Sama á við ef lög eða reglur, sem um slíka einstaklinga eða lögaðila gilda, hindra eðlilegt eftirlit.

6. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Synjun ráðherra á starfsleyfi skal rökstudd og send umsækjanda skriflega.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 46. gr. laganna:
  1. Í stað orðsins „og“ kemur: eða.
  2. Nýr málsliður bætist við, svohljóðandi: Fari eignarhlutir samtímis fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. skal hærri fjárhæðin af þeim sem umfram eru dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi stofnunar.

8. gr.

     Í stað orðanna „Lánastofnun sparisjóðanna eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 99. gr.“ í 52. gr. laganna kemur: Sparisjóðabanka Íslands hf.

9. gr.

     Orðin „eða Lánastofnun sparisjóðanna“ í 53. gr. laganna falla brott.

10. gr.

     54. gr. laganna orðast svo:
     Eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða, eins og það er skilgreint skv. 2. mgr., skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni. Áhættugrunnur stofnunar skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli viðskiptabanka og sparisjóða sem Seðlabankinn setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal einnig gilda um samstæðureikning, sbr. 66. gr.
     Við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 1. mgr. skal eigið fé samsett af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C, og frádráttarliðum skv. 55. gr. Eftirfarandi takmarkanir gilda um einstaka eiginfjárþætti:
  1. Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eigin fjár fyrir frádrátt skv. 55. gr.
  2. Eiginfjárþáttur B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.
  3. Eiginfjárþáttur C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má eiginfjárþáttur C hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni viðskiptabanka eða sparisjóðs vegna markaðsáhættu liða í veltubók og gengisáhættu.

     Eiginfjárþáttur A telst vera:
  1. Innborgað hlutafé.
  2. Varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár og óráðstafað eigið fé að frádregnu tapi ársins.
  3. Endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum.
  4. Frá eiginfjárþætti A skal draga eigin hlutabréf, viðskiptavild og aðrar óáþreifanlegar eignir, svo og áfallnar ófærðar skattskuldbindingar sem rýra möguleika viðskiptabankans eða sparisjóðsins til að mæta tapi.

     Eiginfjárþáttur B telst vera:
  1. Víkjandi lán sem viðskiptabankar eða sparisjóðir taka gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðseða slit hans fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur viðskiptabankanum eða sparisjóðnum en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár eða sambærilegs eigin fjár ríkisviðskiptabanka. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár sem líður af þessum fimm árum. Sé um að ræða lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skal reikna eftirstöðvar hvers árs niður á sambærilegan hátt.
  2. Endurmatsreikningur annar en gert er ráð fyrir í eiginfjárþætti A.

     Eiginfjárþáttur C telst vera víkjandi lán til skamms tíma sem viðskiptabanki eða sparisjóður tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en tvö ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs eða slit hans fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur viðskiptabankanum eða sparisjóðnum en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár eða sambærilegs eigin fjár ríkisviðskiptabanka. Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárhlutfall hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs er lægra en 8% eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 8%. Tilkynna skal bankaeftirlitinu ef slík greiðsla veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 10%. Við mat á eiginfjárþætti C getur bankaeftirlitið heimilað einstökum viðskiptabönkum eða sparisjóðum að tekið sé tillit til hagnaðar af veltubókarviðskiptum að frádreginni fyrirsjáanlegri gjaldfærslu eða arði og að frádregnu nettótapi af annarri starfsemi, enda sé engin þessara fjárhæða meðtalin í eiginfjárþætti A.
     Bankaeftirlitið getur veitt heimild til að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lánveitandi þess, enda hafi slíkt ekki áhrif á viðunandi eiginfjárstöðu hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs.
     Ráðherra er heimilt að fengnum tillögum bankaeftirlitsins að ákveða í reglugerð að aðrir liðir en greindir eru í 3.–4. mgr. teljist með eigin fé viðskiptabanka eða sparisjóðs.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „Lánastofnun sparisjóðanna hf., eða félagi sem leysir hana af hólmi, sbr. 99. gr.“ í 1. og 3. tölul. 1. mgr. kemur: Sparisjóðabanka Íslands hf.
  2. 5. og 6. mgr. falla brott.


12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
  1. Á eftir orðinu „efnahagsreikning“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: fjárstreymisyfirlit.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Ársreikningur skal undirritaður af bankaráði eða sparisjóðsstjórn og bankastjórum og sparisjóðsstjórum. Ársreikningur ríkisviðskiptabanka skal auk þess staðfestur af ráðherra. Hafi bankaráðsmaður eða stjórnarmaður sparisjóðs, bankastjóri eða sparisjóðsstjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.


13. gr.

     3. mgr. 57. gr. laganna orðast svo:
     Bankaeftirlitið setur reglur að höfðu samráði við reikningsskilaráð um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum.

14. gr.

     Í stað orðanna „annars staðar í ársreikningum“ í 1. mgr. 58. gr. laganna kemur: í ársreikningnum.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
  1. 5. mgr. orðast svo:
  2.      Verði endurskoðendur varir við verulega ágalla í rekstri viðskiptabanka eða sparisjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu hlutaðeigandi stofnunar, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um stofnunina hafi verið brotnar, skal endurskoðandi gera stjórn hennar og bankaeftirliti viðvart. Þetta á einnig við um sambærileg atriði sem endurskoðandi viðskiptabanka eða sparisjóðs fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við hlutaðeigandi stofnun, sbr. 3. mgr. 4. gr. Ákvæði þessarar málsgreinar brjóta ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðenda skv. 43. gr. laga þessara eða ákvæði annarra laga.
  3. Í stað 7. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
  4.      Við viðskiptabanka og sparisjóði skal starfa endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun undir stjórn forstöðumanns, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 39. gr. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi viðskiptabanka og sparisjóða og er þáttur í eftirlitskerfi þeirra. Bankaeftirlitið getur veitt undanþágu frá starfrækslu slíkrar endurskoðunardeildar og sett þeim stofnunum skilyrði sem slíka undanþágu fá.
         Viðskiptabanki eða sparisjóður skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu, þar með talið vaxtaáhættu, í tengslum við öll viðskipti sín. Bankaeftirlitið getur sett leiðbeinandi reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi viðskiptabanka eða sparisjóðs.
  5. Við 8. mgr., sem verður 9. mgr., bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bankaeftirlitið setur reglur um endurskoðun viðskiptabanka og sparisjóða.
  6. 9. mgr. fellur brott.


16. gr.

     Orðin „lánveitingar, ábyrgðir og“ í 1. málsl. 7. mgr. 66. gr. laganna falla brott.

17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 67. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „reikningsuppgjör endurskoðanda“ í 2. málsl. 3. mgr. kemur: endurskoðað reikningsuppgjör.
  2. Lokamálsliður 4. mgr. fellur brott.


18. gr.

     X. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Tryggingarsjóðir innlánsstofnana, orðast svo:
     
     a. (75. gr.)
Tryggingarsjóður viðskiptabanka.
     Viðskiptabankar með staðfestu hér á landi skulu eiga aðild að Tryggingarsjóði viðskiptabanka. Tryggingarsjóður viðskiptabanka er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Aðilar að sjóðnum bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.
     Hlutverk Tryggingarsjóðs viðskiptabanka er að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hefur krafist endurgreiðslu á og viðskiptabanki eða útibú eru ekki fær um að inna af hendi.
     Ráðherra skipar sjóðnum stjórn til þriggja ára í senn. Stjórnin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Samband íslenskra viðskiptabanka tilnefnir einn mann í stjórn.
     Stjórn Tryggingarsjóðs viðskiptabanka er heimilt að stofna sérstaka lánadeild með aðskildum fjárhag og reikningshaldi. Stofnfé getur að hámarki numið því eigin fé sjóðsins sem er umfram kröfur um lögbundið lágmark í innstæðutryggingadeild skv. 79. gr. Eignir annarrar deildarinnar verða ekki notaðar til að standa skil á skuldbindingum hinnar. Hlutverk lánadeildar er að tryggja fjárhagslegt öryggi viðskiptabanka, svo sem með lánveitingum, yfirtöku eigna, ábyrgðum og öðrum þeim aðgerðum sem samræmast tilgangi deildarinnar.
     
     b. (76. gr.)
Tryggingarsjóður sparisjóða.
     Tryggingarsjóður sparisjóða er sjálfseignarstofnun sem allir sparisjóðir skulu vera aðilar að. Meginhlutverk Tryggingarsjóðs sparisjóða er að tryggja fjárhagslegt öryggi sparisjóða og full skil á innlánsfé við endurskipulagningu eða slit sparisjóðsins, sbr. nánari ákvæði þessara laga.
     Tryggingarsjóður sparisjóða skal starfa í tveimur sjálfstæðum deildum, innstæðudeild og lánadeild, með aðskilinn fjárhag og reikningshald. Eignir annarrar deildarinnar verða ekki notaðar til að standa skil á skuldbindingum hinnar. Hlutverk lánadeildar er að tryggja fjárhagslegt öryggi sparisjóða. Í því skyni er stjórn sjóðsins heimilt að veita sparisjóði lán eða yfirtaka vissar eignir sparisjóðs, ganga í ábyrgðir fyrir sparisjóð, bæta sérstakt tap og kostnað sem sparisjóður verður fyrir og veita sparisjóðum stuðning að öðru leyti á hvern þann hátt sem stjórn sjóðsins ákveður í samræmi við ákvæði laga þessara og samþykkta sjóðsins. Tryggingarsjóði sparisjóða er enn fremur heimilt að veita sparisjóði víkjandi lán í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans. Stjórn sjóðsins getur sett skilyrði fyrir veitingu víkjandi láns. Í samþykktum sjóðsins skal setja nánari reglur um starfsemi lánadeildar, svo og reglur um tekjur hennar og lánveitingar. Stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag sparisjóðs sem veitt er víkjandi lán. Getur stjórnin í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi sparisjóði.
     Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Tryggingarsjóðs sparisjóða. Sérhver aðili að sjóðnum fer á aðalfundi með atkvæðisrétt í samræmi við hlut hans í samanlögðum tryggðum innstæðum næstliðið ár fyrir aðalfund. Um aðal- og aukafundi sjóðsins gilda að öðru leyti ákvæði 32.–34. gr. eftir því sem við getur átt.
     Stjórn Tryggingarsjóðs sparisjóða fer með málefni hans milli aðal- og aukafunda. Hún skal skipuð fimm mönnum og skulu fjórir stjórnarmenn ásamt jafnmörgum varamönnum kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, hlutbundinni kosningu ef óskað er. Ráðherra tilnefnir einn mann og skal hann tilnefndur til þriggja ára í senn. Stjórn Tryggingarsjóðsins kýs sér formann og skiptir með sér verkum. Nánar skal kveðið á um skipan og verkefni stjórnar og starfsemi sjóðsins að öðru leyti í samþykktum hans.
     Stjórnarmenn og starfsmenn Tryggingarsjóðs sparisjóða eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði 43. gr.
     Aðalfundur setur Tryggingarsjóði sparisjóða samþykktir sem háðar skulu staðfestingu ráðherra að fenginni umsögn bankaeftirlitsins.
     
     c. (76. gr. A.)
Erlend útibú innlánsstofnana.
     Útibúum erlendra viðskiptabanka og sparisjóða með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sem starfa hér á landi, er heimil aðild að tryggingarsjóðum innlánsstofnana er starfa í samræmi við ákvæði þessara laga vegna innstæðna sem ekki eru tryggðar með öðrum hætti innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Útibú erlendra viðskiptabanka og sparisjóða, sem hafa staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins og starfa hér á landi, skulu vera aðilar að Tryggingarsjóði viðskiptabanka eða Tryggingarsjóði sparisjóða, eftir því sem við getur átt, enda sé útibúið ekki aðili að sambærilegu innlánatryggingakerfi í heimaríki sínu.
     Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um aðild útibúa erlendra viðskiptabanka og sparisjóða að tryggingarsjóðum innlánsstofnana, svo og um þær viðbótartryggingar sem útibú þurfa til þess að geta starfað hér á landi. Um iðgjöld og greiðslur vegna trygginga samkvæmt þessari grein skal nánar kveðið á í reglugerð.
     
     d. (77. gr.)
Almenn ákvæði um starfsemi tryggingarsjóða.
     Heimilt er innstæðueiganda að krefja tryggingarsjóð um greiðslu innstæðu sem hann hefur krafið viðskiptabanka eða sparisjóð um endurgreiðslu á í samræmi við þá skilmála er um hana gilda og viðskiptabanki eða sparisjóður er að áliti bankaeftirlitsins ekki fær um að inna tafarlaust af hendi eða í nánustu framtíð vegna greiðsluerfiðleika. Álit bankaeftirlitsins skal liggja fyrir eigi síðar en þremur vikum eftir að bankaeftirlitið fær fyrst staðfestingu á því að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður hafi ekki greitt innstæðu eins og honum bar að gera. Greiðsluskylda tryggingarsjóðsins vaknar einnig ef ákveðið er að slíta viðskiptabanka eða sparisjóði, sbr. ákvæði VIII. kafla.
     Með innstæðu í 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla og annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
     Undanskildar tryggingu skv. 1. mgr. eru innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning og innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti, svo og innstæður dóttur- eða móðurfélags þessara stofnana.
     Innstæðudeildir tryggingarsjóða innlánsstofnana verða ekki teknar til gjaldþrotaskipta, né verður heimilt að gera aðför í þeim.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um eftirfarandi atriði að höfðu samráði við stjórnir tryggingarsjóða innlánsstofnana:
  1. Tilhögun á greiðslum úr tryggingarsjóðum er lög þessi taka til.
  2. Skyldu viðskiptabanka og sparisjóða til að upplýsa viðskiptavini um aðild sína að tryggingarsjóðum fyrir innlánsstofnanir og um helstu atriði innstæðutryggingarinnar og jafnframt takmörkun á notkun þessara upplýsinga í samkeppnisskyni.
  3. Tryggingu á innstæðu þegar um sameiginlegan innlánsreikning er að ræða eða þegar innstæðueigandi á ekki ótvíræðan rétt til innstæðu.
  4. Verksvið stjórnar og ávöxtun á eignum sjóðsins.

     Um ársreikning og endurskoðun tryggingarsjóða innlánsstofnana og um eftirlit með starfsemi þeirra fer samkvæmt ákvæðum VII. og XIV. kafla.
     Tryggingarsjóðir innlánsstofnana eru undanþegnir tekjuskatti og eignarskatti.
     
     e. (78. gr.)
     Auk innstæðutrygginga er tryggingarsjóðum innlánsstofnana heimilt að veita viðskiptabanka eða sparisjóði víkjandi lán úr lánadeild í því skyni að efla eiginfjárstöðu hans, enda verði fjár til þess aflað sérstaklega með lántöku. Stjórn sjóðs getur sett skilyrði fyrir lánveitingu.
     Stjórnum tryggingarsjóða innlánsstofnana er heimilt að láta rannsaka rekstur og efnahag viðskiptabanka eða sparisjóðs sem veitt er víkjandi lán. Stjórn sjóðs getur í þessu sambandi krafist nauðsynlegra upplýsinga frá hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði.
     
     f. (79. gr.)
     Stefnt skal að því að heildareign innstæðudeildar tryggingarsjóða innlánsstofnana nemi a.m.k. 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Hafi heildareign ekki náð lágmarki skv. 1. málsl. skulu allir viðskiptabankar og sparisjóðir greiða eigi síðar en 1. mars ár hvert gjald til sjóðsins er nemur 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári, sbr. þó viðmiðunarmörk skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar. Þar til heildareign deildarinnar hefur náð tilskildu lágmarki skal hver viðskiptabanki og sparisjóður leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu fyrir jafnháum hlut af þeirri fjárhæð er á vantar til að lágmarkinu hafi verið náð og nemur hlut tryggðra innstæðna hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs af samanlögðum tryggðum innstæðum. Greiðslur til sjóðsins eru óendurkræfar.
     Nýr viðskiptabanki eða sparisjóður skal greiða sérstaklega til sjóðsins 1. mars ár hvert í sjö ár frá því að hann hefur starfsemi hér á landi 0,15% af meðaltali tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði á næstliðnu ári, í fyrsta sinn fullu ári eftir upphaf starfseminnar. Auk þess leggur hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður fram ábyrgðaryfirlýsingu er stjórn sjóðsins metur gilda fyrir mismun á greiðslu til sjóðsins og lágmarki skv. 1. málsl. þessarar greinar samkvæmt nánari ákvæðum er ráðherra setur í reglugerð.
     Nú hrökkva eignir tryggingarsjóða innlánsstofnana ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna í hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði og skal þá greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli innstæðueigenda að heildarinnstæða hvers innstæðueiganda allt að 1,7 milljónum króna er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Fjárhæð þessi skal bundin við gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við kaupgengi hennar 3. janúar 1995. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt innstæða hafi ekki verið bætt að fullu. Kröfur um innborgun í sjóðinn á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga geta á hverju ári ekki verið hærri en sem nemur einum tíunda hluta af lágmarksstærð sjóðsins skv. 1. mgr. þessarar greinar. Telji stjórn sjóðsins brýna ástæðu til er henni heimilt að taka lán til að greiða innstæðueigendum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til.
     Komi til greiðslu úr tryggingarsjóðum innlánsstofnana yfirtekur hann kröfu innstæðueiganda á hendur hlutaðeigandi viðskiptabanka, sparisjóði eða þrotabúi.
     
     g. (80. gr.)
     Nú uppfyllir viðskiptabanki eða sparisjóður ekki skyldur sínar gagnvart tryggingarsjóði innlánsstofnunar samkvæmt lögum þessum og skal þá stjórn hans tilkynna það ráðherra án tafar. Hann skal veita hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóði allt að sex mánaða frest til úrbóta. Séu ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja frestinn um allt að sex mánuði til viðbótar.
     Nú rennur frestur skv. 1. mgr. út án þess að hlutaðeigandi viðskiptabanki eða sparisjóður hafi uppfyllt skyldur sínar gagnvart sjóðnum og getur ráðherra þá afturkallað starfsleyfi hans að fengnu áliti bankaeftirlitsins, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 89. gr. Ákvæði 2. mgr. 89. gr. á ekki við í slíkum tilfellum. Innstæður, sem stofnað er til áður en frestur skv. 1. mgr. rennur út, skulu njóta tryggingarverndar í samræmi við ákvæði 77. gr.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um útibú erlendra viðskiptabanka og sparisjóða hér á landi sem aðild eiga að tryggingarsjóði innlánsstofnunar. Nú rennur frestur skv. 1. mgr. út þegar um er að ræða útibú viðskiptabanka eða sparisjóðs með staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og skal þá bankaeftirlitið banna starfsemi þess hér á landi, sbr. 94. gr. Þegar um er að ræða útibú viðskiptabanka eða sparisjóðs með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal ráðherra afturkalla starfsleyfi þess að fengnu áliti bankaeftirlitsins.

19. gr.

     Á eftir 84. gr. laganna bætist við ný grein, 84. gr. A, svohljóðandi:
     Fyrirtæki frá öðru ríki innan hins Evrópska efnahagssvæðis, sem heimilt er samkvæmt samþykktum sínum að stunda þá starfsemi sem tilgreind er í 1. mgr. 44. gr. laga þessara, er heimilt að stofna útibú eða veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús séu eftirtalin skilyrði uppfyllt:
  1. Fyrirtækið skal vera dótturfyrirtæki viðskiptabanka eða sparisjóðs eða sameiginlegt dótturfyrirtæki tveggja eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða skv. 3. mgr. 66. gr.
  2. Dótturfyrirtækið skal lúta löggjöf í því ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem veitt hefur móðurfyrirtæki eða móðurfyrirtækjum skv. 1. tölul. starfsleyfi og skal dótturfyrirtækið jafnframt stunda umrædda starfsemi í því ríki.
  3. Móðurfyrirtækið eða móðurfyrirtækin skulu fara með a.m.k. 90% af atkvæðamagni því sem fylgir hlutum í fyrirtækinu.
  4. Móðurfyrirtækið eða móðurfyrirtækin skulu uppfylla skilyrði bankaeftirlits um heilbrigða og trausta stjórnun dótturfyrirtækisins og skulu jafnframt lýsa því yfir með samþykki lögbærra yfirvalda í heimaríki þeirra að þau beri óskipta ábyrgð á skuldbindingum þeim sem dótturfyrirtækið tekur á sig.
  5. Dótturfyrirtækið skal heyra undir eftirlit á samstæðugrundvelli sem móðurfyrirtækið eða sérhvert móðurfyrirtækjanna lýtur. Þetta á sérstaklega við um eftirlit með útreikningi á eiginfjárhlutfalli, eftirlit með útreikningi á lánum og ábyrgðum til einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila og eftirlit með takmörkunum á eignarhlutdeild í öðrum fyrirtækjum, sbr. 46. gr.

     Með tilkynningu um starfsemi hér á landi skv. 1. mgr. skal fylgja staðfesting lögbærs yfirvalds í heimaríki móðurfyrirtækis eða móðurfyrirtækja á því að framangreind skilyrði séu uppfyllt. Jafnframt skulu lögbær yfirvöld í heimaríki móðurfyrirtækis eða móðurfyrirtækja lýsa því yfir að þau muni hafa fullnægjandi eftirlit með starfsemi fyrirtækisins. Að öðru leyti skal beita ákvæðum 83., 84. og 85. gr. eftir því sem við á.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. taka einnig til fyrirtækis sem er í eigu eða undir áhrifum eins eða fleiri dótturfyrirtækja, sbr. ákvæði 66. gr. laga þessara, eftir því sem við getur átt.

20. gr.

     Við 1. mgr. 85. gr. laganna bætist: og 84. gr., svo og starfsemi fyrirtækja skv. 84. gr. A.

21. gr.

     Á eftir 87. gr. laganna bætist við ný grein, 87. gr. A, svohljóðandi:
     Ákvæði 86. og 87. gr. taka einnig til innlends dótturfyrirtækis viðskiptabanka eða sparisjóðs eða sameiginlegs dótturfyrirtækis tveggja eða fleiri viðskiptabanka eða sparisjóða sem heimilt er samkvæmt samþykktum sínum að stunda þá starfsemi sem tilgreind er í 1. mgr. 44. gr. og uppfylla skilyrði þau sem fram koma í 1.–5. tölul. 1. mgr. 84. gr. A., eftir því sem við getur átt. Tilkynningu bankaeftirlits til lögbærra eftirlitsaðila skv. 2. mgr. 86. gr. eða 2. mgr. 87. gr. skal fylgja staðfesting bankaeftirlits á því að fyrirtækið uppfylli framangreind skilyrði.
     Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til fyrirtækis sem er í eigu eða undir áhrifum eins eða fleiri dótturfyrirtækja, sbr. ákvæði 66. gr. laga þessara, eftir því sem við getur átt.
     Fyrirtæki samkvæmt þessari grein skal lúta eftirliti bankaeftirlitsins. Uppfylli fyrirtæki, sem hafið hefur starfsemi skv. 1. mgr., ekki lengur skilyrði þau sem fram koma í 1.–5. tölul. 1. mgr. 84. gr. A skal bankaeftirlitið skýra viðkomandi lögbæru yfirvaldi frá því.

22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 89. gr. laganna:
  1. Nýr töluliður, 1. tölul., bætist við, svohljóðandi: hafi hlutaðeigandi stofnun fengið starfsleyfið á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt.
  2. 2. tölul., sem verður 3. tölul., orðast svo: nýti hlutaðeigandi stofnun ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt.
  3. Nýr töluliður, 6. tölul., bætist við, svohljóðandi: sé það mat bankaeftirlits að náin tengsl viðskiptabanka eða sparisjóðs við einstaklinga eða lögaðila geti hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum. Sama á við ef lög eða reglur, sem um þá aðila gilda, hindra eðlilegt eftirlit. Starfsleyfi verður þó aðeins afturkallað að bankaeftirlitið hafi gert athugasemdir við hlutaðeigandi banka eða sparisjóð áður og gefið fyrirtækinu kost á að leysa úr málinu.


23. gr.

     Ný málsgrein, 3. mgr., bætist við 94. gr. laganna, svohljóðandi:
     Nú gerist viðskiptabanki eða sparisjóður, sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi og stundar starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, brotlegur við lög þess ríkis,og lögbær yfirvöld þess ríkis grípa til ráðstafana sambærilegra þeim sem greinir í 1. mgr., og skal þá bankaeftirlitið aðstoða þarlend lögbær yfirvöld við samskipti þeirra við stjórnendur hlutaðeigandi viðskiptabanka eða sparisjóðs.

24. gr.

     99. gr. laganna orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 10. gr. er heimilt að leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf í Sparisjóðabanka Íslands hf. sem stofnaður er af sparisjóðunum.

25. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.

26. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 8. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1996. Jafnframt falla brott 5.– 7. gr. laga nr. 16/1993, um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana.
     Þegar lögin hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Víkjandi lán, sem viðskiptabanki eða sparisjóður hefur tekið fyrir gildistöku laga þessara og greiðast skulu niður með afborgunum, eru undanþegin ákvæði 3. málsl. 1. tölul. 4. mgr. 54. gr. laganna um endurgreiðslu víkjandi lána sem teljast til eiginfjárþáttar B.

II.
     Ríkissjóður yfirtekur frá og með gildistöku laga þessara allar eignir og skuldir lánadeildar Tryggingarsjóðs viðskiptabanka.

III.
     Tryggingarsjóður sparisjóða skal aðlaga samþykktir sínar ákvæðum laganna á fyrsta aðalfundi eftir gildistöku þeirra.

IV.
     Ríkisviðskiptabanka er fram til 31. desember 1997 heimilt að taka víkjandi lán til endurfjármögnunar víkjandi lánum er bankinn hefur tekið. Hámarksheimild samkvæmt þessu ákvæði miðast við þá fjárhæð sem slík lán námu 1. janúar 1994.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 1996.