Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 978, 120. löggjafarþing 254. mál: fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla).
Lög nr. 46 22. maí 1996.

Lög um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991, með síðari breytingum.


1. gr.

     4. gr. laganna orðast svo:
     Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi er háð eftirfarandi takmörkunum:
  1. Eftirtaldir aðilar mega einir stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands samkvæmt lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands eða eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi:
    1. Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar.
    2. Íslenskir lögaðilar sem að öllu leyti eru í eigu íslenskra aðila eða íslenskra lögaðila sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
      1. Eru undir yfirráðum íslenskra aðila.
      2. Eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Fari eignarhlutur íslensks lögaðila í lögaðila, sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi, ekki yfir 5% má eignarhlutur erlendra aðila þó vera allt að 33%.
      3. Eru að öðru leyti í eigu íslenskra ríkisborgara eða íslenskra lögaðila sem eru undir yfirráðum íslenskra aðila.

  2.      Með vinnslu sjávarafurða í 1. mgr. þessa töluliðar er átt við frystingu, söltun, herslu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
  3. Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru EES-ríki. Heimilt skal að kveða svo á í fjárfestingarsamningum milli Íslands og ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að einstaklingar sem þar eru búsettir eða lögaðilar sem þar eru heimilisfastir hafi einnig sama rétt, enda verði slíkir samningar lagðir fyrir Alþingi til staðfestingar með þingsályktun.
  4.      Erlendum aðila, sem öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, er heimilt að nýta jarðhita til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni innan þeirra takmarkana sem fram koma í orkulögum.
  5. Samanlagður eignarhluti erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%. Einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og lögaðilar sem þar eru heimilisfastir eru þó undanþegnir ákvæðum þessa töluliðar.
  6. Fjárfesting erlends ríkis, sveitarfélags eða annars erlends stjórnvalds í atvinnurekstri hér á landi er óheimil nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
  7. Erlendum aðila er heimilt að öðlast eignarrétt og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni samkvæmt ákvæðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

     Með íslenskum aðila er í þessari grein átt við ríkissjóð og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóði hér á landi í fullri eigu þeirra, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu opinberra aðila hér á landi, íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi eða annarra lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Með íslenskum lögaðila er í þessari grein átt við lögaðila með heimili hér á landi án tillits til þess hvernig rekstrarformi eða eignarhaldi er háttað. Lögaðili telst eiga heimili hér á landi ef hann er skráður hér á landi, ef hann telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi. Með íslenskum lögaðila undir yfirráðum íslenskra aðila er í þessari grein átt við íslenskan lögaðila þar sem íslenskir aðilar eiga meiri hluta hans, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, og hafa meiri hluta atkvæðisréttar og hafa raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi lögaðila.

2. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna koma tvær nýjar greinar og breytist greinatala samkvæmt því. Hinar nýju greinar orðast svo:
     a. (5. gr.)
     Telji stjórnendur fyrirtækis sem starfar hér á landi og rétt hefur til að stunda fiskveiðar í efnahagslögsögu Íslands, stjórnendur fiskvinnslufyrirtækis eða stjórnendur íslensks lögaðila sem á með beinum eða óbeinum hætti hlut í slíku fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki að farið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. um hámark erlendrar fjárfestingar og innlend yfirráð í íslenskum lögaðila sem með beinum eða óbeinum hætti á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki skal viðkomandi þá þegar senda viðskiptaráðuneytinu tilkynningu þar að lútandi. Ráðuneytið skal þá afla upplýsinga frá hlutaðeigandi lögaðila um það hverjir eigendur hans eru, atkvæðamagn hvers þeirra, stjórnarmenn og önnur atriði sem máli þykja skipta varðandi raunveruleg yfirráð hans. Ráðherra getur að eigin frumkvæði óskað eftir slíkum upplýsingum ef grunsemdir eru um brot gegn ákvæði þessu. Ráðuneytinu skal senda þær upplýsingar sem það óskar eftir innan fjögurra vikna frá því að beiðni þess berst. Að þeim tíma liðnum skal ráðuneytið senda þau gögn, sem það hefur um hlutaðeigandi lögaðila, nefnd um erlenda fjárfestingu, sbr. 12. gr., sem metur hvort gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin getur að eigin frumkvæði aflað frekari gagna til skýringar máli. Álit nefndarinnar skal sent viðskiptaráðherra innan fjögurra vikna frá því að málefni barst nefndinni.
     Telji nefnd um erlenda fjárfestingu að fjárfesting eða yfirráð séu með þeim hætti að gengið sé gegn ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. skal viðskiptaráðherra með úrskurði skylda hlutaðeigandi lögaðila til að selja þann eignarhlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki eða, ef um það er að ræða, þá hlutdeild í lögaðila sem á hlut í fiskveiðifyrirtæki eða fiskvinnslufyrirtæki sem ekki er samræmanlegur ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Söluskylda samkvæmt þessari málsgrein takmarkast við þann eignarhlut eða hluta eignarhlutar sem varð til þess að erlend fjárfesting fór fram úr þeim mörkum sem greinir í 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. Við úrlausn þess skal miðað við það hvenær tilkynning um eigendaskipti barst viðkomandi lögaðila. Ef ekki er orðið við slíkri skyldu innan fjögurra vikna skal með eignarhlutinn fara skv. 4. og 5. mgr.
     Ef erlendur aðili eignast hlut í fiskveiðifyrirtæki, fiskvinnslufyrirtæki eða fiskiskipi með samningum til lúkningar veðskuldar sem veðhafi við útgáfu uppboðsafsals, með erfðum eða á annan hátt skal hann selja hlutinn svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að hluturinn komst í eigu hans. Ef ekki hefur orðið af slíkri sölu innan tólf mánaða skal fara með eignarhlutinn skv. 4. og 5. mgr.
     Eigi sala á eignarhlut, sem skylt er að selja skv. 2. mgr., sér ekki stað innan fjögurra vikna eða skv. 3. mgr. innan tólf mánaða skal afhenda viðskiptaráðherra hlutabréfin eða skilríki fyrir eignarhlutnum ásamt undirrituðu söluumboði. Hann skal þá fela óháðu, íslensku verðbréfafyrirtæki, sem heimilt væri skv. b-lið 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. að eiga slíkan hlut, að selja þann eignarhlut sem um ræðir til aðila sem uppfyllir skilyrði laganna. Skal verðbréfafyrirtækið eftir það annast söluna og fara með eignarhlutinn þar til sala hefur tekist. Skal verðbréfafyrirtækið gæta fjárhagslegra hagsmuna eiganda við þá sölumeðferð, þar með talið við ákvörðun um tímasetningu á sölu. Nú selur verðbréfafyrirtækið eignarhlutinn og er eigandi hans þá bundinn við söluna. Þóknun fyrir umsýslu og sölu eignarhlutarins skal greiða af söluandvirði eða arði samkvæmt almennum venjum á verðbréfamarkaði.
     Skili eigandi eða umráðaaðili eignarhlutar ekki hlutabréfum eða skilríki fyrir eignarhlut, sbr. 4. mgr., falla öll réttindi samkvæmt eignarhlutnum niður, þar með talin atkvæðisréttur, áskriftarréttur að nýjum hlutum og réttur til greiðslu arðs, þar til skil hafa verið gerð.
     Hafi sala skv. 3. mgr. eigi tekist innan sex mánaða frá því að verðbréfafyrirtækið tók eignarhlutinn til umsýslu og sölumeðferðar er ráðherra heimilt að fenginni ósk verðbréfafyrirtækisins eða eiganda hans að veita viðbótarfrest í sex mánuði ef líkur eru taldar á frjálsri sölu innan þess frests. Að öðrum kosti er ráðherra rétt að krefjast nauðungarsölu á eignarhlutnum án undangengins dóms, sáttar eða aðfarar.
     Ákvæði 1.–6. mgr. eiga með samsvarandi hætti við þegar gengið er gegn ákvæðum 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr.
     b. (6. gr.)
     Nú vill erlendur aðili reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni og skal þá svo með fara:
  1. Sé um að ræða einstakling sem búsettur er erlendis skal honum óheimilt að vinna sjálfstætt eða starfrækja eigið atvinnufyrirtæki eða taka þátt í fyrirtæki með ótakmarkaðri ábyrgð hér á landi nema með leyfi viðskiptaráðherra, enda sé lögheimili hér á landi ekki óundanþægt skilyrði samkvæmt lögum um viðkomandi atvinnugrein eða veiting undanþágu frá lögheimilisskilyrði falin öðrum. Ríkisborgarar aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir ákvæðum þessa liðar.
  2. Um rétt hlutafélags eða einkahlutafélags, sem á heimili erlendis, til að starfa hér á landi fer samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og laga um einkahlutafélög.
  3. Viðskiptaráðherra getur veitt öðrum lögaðilum, sem heimili eiga erlendis, leyfi til að starfa hér á landi, enda sé þá að því er varðar slíka lögaðila og starfsemi þeirra hér á landi fullnægt sömu skilyrðum og fylgt sömu meginreglum og að því er varðar erlend hlutafélög, sbr. 2. tölul. þessarar greinar. Útibú slíks lögaðila skal skráð í firmaskrá á heimilisvarnarþingi útibúsins. Lögaðilar með heimili í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins þurfa ekki leyfi viðskiptaráðherra til starfsemi hér á landi.


3. gr.

     5. gr. laganna, er verður 7. gr., orðast svo:
     Tilkynna ber viðskiptaráðherra alla erlenda fjárfestingu jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og nauðsynleg teljast að mati ráðherra. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki, en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.
     Viðskiptaráðherra hefur rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila. Heimilt er viðskiptaráðherra að fela ríkisstofnun að annast slíka upplýsingaöflun og athuganir.

4. gr.

     1. málsl. 6. gr. laganna, er verður 8. gr., orðast svo: Erlendum aðila, sem fjárfestir í atvinnurekstri hér á landi, skal frjálst að flytja í því skyni til landsins erlendan gjaldmiðil, enda sé slíkur fjármagnsflutningur tilkynntur samkvæmt lögum og reglum um gjaldeyrisviðskipti.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna er verður 10. gr.:
  1. 2. málsl. orðast svo: Búsetuskilyrði gildir þó ekki um ríkisborgara þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki.
  2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Nú geyma sérlög um tiltekna fjárfestingu hér á landi, sem í gildi eru við gildistöku laga þessara, skilyrði um íslenskt ríkisfang stjórnarmanna eða búsetu þeirra hér á landi, og skulu þá ríkisborgarar þeirra ríkja sem aðild eiga að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og búsettir eru í EES-ríki teljast uppfylla ríkisfangs- og búsetuskilyrði slíkra sérlaga.

6. gr.

     10. gr. laganna, er verður 12. gr., orðast svo:
     Sérstök fimm manna nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, skal fylgjast með að ákvæðum 4. gr. um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri sé framfylgt, sbr. ákvæði 5. gr. Jafnframt skal hún vera ráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar skv. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. Nefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum hlutfallskosningu á Alþingi að afstöðnum almennum þingkosningum. Kosnir skulu jafnmargir varamenn. Viðskiptaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi nefndarmanna. Formaður nefndarinnar boðar hana til funda. Viðskiptaráðherra ákveður þóknun nefndarinnar.
     Nú telur viðskiptaráðherra að tiltekin erlend fjárfesting ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu, enda kunngjöri hann ákvörðun sína innan átta vikna frá því að honum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu, sbr. 7. gr. Áður en slík ákvörðun er tekin skal ráðherra leita álits nefndar um erlenda fjárfestingu. Þegar um er að ræða fjárfestingu aðila frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal gætt ákvæða 112. og 113. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.
     Viðskiptaráðherra skal á fyrri hluta hvers árs flytja Alþingi skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis næsta ár á undan. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda til að auka fjárfestingu erlendra aðila hér á landi, um fjárfestingu erlendra aðila og heildarfjárfestingu eftir atvinnugreinum og um beitingu öryggisákvæðis skv. 2. mgr. og úrræða stjórnvalda skv. 5. gr.

7. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Hafi íslenskur lögaðili, sem á eignarhlut í lögaðila sem stundar veiðar í efnahagslögsögu Íslands eða vinnslu sjávarafurða hér á landi, verið að hluta í eigu erlends aðila 31. desember 1995 skulu takmarkanir skv. b-lið 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga þessara ekki koma til framkvæmda að því er varðar þann lögaðila fyrr en 1. janúar 1998, enda hafi erlend eignaraðild í lögaðilanum ekki verið meiri en 49%, eignarhlutur lögaðilans í einstökum sjávarútvegs- eða fiskvinnslufyrirtækjum ekki farið yfir 10% og fjárfestingin verið tilkynnt Seðlabanka Íslands samkvæmt ákvæðum laganna fyrir 31. desember 1995.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 15. maí 1996.