Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1212, 120. löggjafarþing 436. mál: Þróunarsjóður sjávarútvegsins (úreldingarstyrkur til krókabáta).
Lög nr. 109 19. júní 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 92 24. maí 1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað „1. maí 1995“ í lok ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: 1. september 1995.

2. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:
     Sjávarútvegsráðherra er, þrátt fyrir ákvæði 7. gr., heimilt að ákveða að til ársloka 1996 skuli styrkur vegna úreldingar krókabáta vera hærra hlutfall af húftryggingarmati en gildir um önnur skip og getur styrkurinn ákveðist hærri vegna krókabáta á sóknardögum en vegna krókabáta á þorskaflahámarki. Jafnframt er heimilt að ákveða að til 1. október 1996 geti úreldingarstyrkur vegna krókabáta á sóknardögum numið að hámarki 80% af húftryggingarverðmæti en að hámarki 60% af húftryggingarverðmæti vegna krókabáta á þorskaflahámarki. Á sama tímabili er Þróunarsjóði heimilt að kaupa krókabáta sem hafa verið úreltir. Getur sjóðurinn m.a. notað þá til þróunarverkefna erlendis.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1996.