Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 503, 121. löggjafarþing 228. mál: málefni fatlaðra (yfirtaka sveitarfélaga o.fl.).
Lög nr. 161 31. desember 1996.

Lög um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.


1. gr.

     3. mgr. 6. gr. laganna hljóðar svo:
     Í svæðisráði sitja sjö fulltrúar og skulu þeir skipaðir af ráðherra til 1. janúar 1999. Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið skulu tilnefna sinn fulltrúann hvor og svæðisbundin samtök sveitarfélaga þrjá og skal einn þeirra vera félagsmálastjóri á svæðinu. Jafnframt skal héraðslæknir eiga sæti í svæðisráði. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar. Svæðisráð skal kveðja á sinn fund fólk með sérþekkingu á skólamálum þegar ástæða er til.

2. gr.

     1. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna hljóðar svo: Ráðherra skipar framkvæmdastjóra svæðisskrifstofa til 1. janúar 1999 að fenginni umsögn svæðisráða.

3. gr.

     Í stað 3. málsl. 3. mgr. 16. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er hljóða svo: Félagsmálaráðherra skipar forstöðumann til fimm ára að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Forstöðumaður ræður aðra starfsmenn.

4. gr.

     2. málsl. 4. tölul. 40. gr. laganna hljóðar svo: Styrkur þessi má ná til alls framlags framkvæmdaraðila.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. 2. og 3. gr. öðlast þó ekki gildi fyrr en 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Félagsmálaráðherra skal eftir gildistöku þessara laga gera ráðstafanir til að undirbúa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og skipa verkefnisstjórn/stjórnir í því skyni. Við undirbúninginn skal huga að réttindagæslu fatlaðra.
     Yfirfærsla málaflokksins komi til framkvæmda 1. janúar 1999, enda hafi Alþingi þá m.a. samþykkt:
  1. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga sem taka til þeirrar þjónustu sem veitt er samkvæmt gildandi lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, þó ekki starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins,
  2. breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga,
  3. sérstök lög um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.


Samþykkt á Alþingi 20. desember 1996.