Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 828, 121. löggjafarþing 152. mál: Flugskóli Íslands hf..
Lög nr. 17 9. apríl 1997.

Lög um Flugskóla Íslands hf.


1. gr.

     Samgönguráðherra skal heimilt að beita sér fyrir stofnun hlutafélags um rekstur flugskóla sem nefnast skal Flugskóli Íslands hf.
     Í þessu skyni er ráðherra heimilt að leggja fram í reiðufé allt að 4 millj. kr. sem hlutafé í hinu nýja félagi og kveðja aðra aðila til samstarfs um stofnun þess. Auk þess skal ráðherra heimilt að leggja félaginu til þann búnað sem Flugmálastjórn hefur nýtt til flugkennslu og verði hann metinn til hlutafjár.

2. gr.

     Markmið skólastarfsins skal vera að veita menntun sem gerir nemendur hæfa til að taka að sér störf í þágu atvinnuflugs í samræmi við ákvæði laga og reglugerða um skírteini atvinnuflugmanna og áritanir á þau. Samkvæmt því skal skólinn veita kennslu til undirbúnings prófa í atvinnuflugi.
     Kennsla sú sem skólinn veitir skal miðast við öll stig atvinnuflugnáms og miða að því að búa nemendur undir próf loftferðaeftirlits Flugmálastjórnar til öflunar atvinnuflugréttinda í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.
     Flugskóli Íslands hf. skal leita samvinnu og samstarfs við aðra flugskóla um ákveðna kennsluþætti, einkum þá verklegu. Skulu nemendur eiga þess kost að semja sjálfir við aðra flugskóla um afnot flugvéla, eða leggja til eigin vélar, enda verði skilyrðum skólans að öllu leyti fullnægt.
     Skólinn skal sinna endurmenntun atvinnuflugmanna eftir því sem þörf krefur.

3. gr.

     Þeir einir geta hafið nám í Flugskóla Íslands hf. sem:
  1. uppfylla lágmarkskröfur um aldur og menntun, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð,
  2. fullnægja skilyrðum um andlegt og líkamlegt heilbrigði til að fá útgefið skírteini eða áritun atvinnuflugmanns.

     Heimilt er að halda inntökupróf í Flugskóla Íslands hf. og gera tiltekinn prófárangur að skilyrði fyrir að geta hafið nám.

4. gr.

     Þriggja manna stjórn, sem kosin skal á aðalfundi ár hvert, fer með yfirstjórn skólans.
     Samgönguráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu.
     Stjórn skólans skipuleggur skólastarfið, ákvarðar tilhögun kennslu, undirbýr námskeið og stundaskrár og ákveður námsefni. Auk þess hefur stjórnin með höndum yfirstjórn annars þess sem varðar rekstur skólans. Hún ræður skólastjóra sem auk kennslu skal, sem framkvæmdastjóri, framfylgja ákvörðunum stjórnar. Stjórnin ræður kennara að skólanum í samráði við skólastjóra.

5. gr.

     Samgönguráðherra skal beita sér fyrir gerð samnings milli ríkisins og hins nýja félags þar sem nánar skal kveðið á um það skólahald sem félagið á að sinna og hvernig greiðslum af hálfu ríkisins skuli háttað. Á fjárlögum hverju sinni skal síðan veita fé til að fullnægja skuldbindingum ríkisins samkvæmt samningnum.
     Auk fjárframlaga samkvæmt samningi skólans við ríkið skal rekstur hans fjármagnaður með skólagjöldum nemenda. Stjórn skólans ákveður upphæð þeirra skólagjalda sem nemendum er gert að greiða.
     Tilgangur félagsins er ekki að afla hluthöfum fjárhagslegs ávinnings, heldur skal rekstrarafgangi varið til frekari uppbyggingar skólastarfsins og skulu samþykktir félagsins innihalda ákvæði þess efnis.

6. gr.

     Samgönguráðherra skal heimilt að selja hluti ríkisins í félaginu. Engum einum aðila, öðrum en ríkinu, skal þó heimilt að eiga meira en 25% hlutafjár.

7. gr.

     Samgönguráðherra skal auglýsa opinberlega fund um stofnun hlutafélags um rekstur Flugskóla Íslands. Fyrir stofnfundinn skal m.a. leggja drög að samþykktum félagsins.
     Að öðru leyti en greinir í lögum þessum fer um stofnun og starfsemi Flugskóla Íslands hf. eftir ákvæðum hlutafélagalaga.

8. gr.

     Heimilt er samgönguráðherra að kveða nánar á um fyrirkomulag á kennslu til prófa í atvinnuflugi og um próftöku með reglugerð.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. mars 1997.