Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1020, 121. löggjafarþing 404. mál: hlutafélög (EES-reglur).
Lög nr. 35 6. maí 1997.

Lög um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.


1. gr.

     5. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Á bréfsefni, pöntunareyðublöðum og svipuðum skjölum hlutafélaga og útibúa þeirra skal greina heiti, kennitölu og heimilisfang félags, svo og skráningaraðila og hugsanlegt skráningarnúmer, annað en kennitölu. Að því er varðar útibú félags skal auk þess greina hugsanlega skrá og skráningarnúmer félagsins í heimalandi þess. Sé hlutafé tilgreint á þessum skjölum skal tilgreina það hlutafé sem áskrift hefur fengist fyrir og greitt er. Ef heiti hlutafélags eða útibús er notað skal bæta við upplýsingum um gjaldþrotaskipti eða félagsslitameðferð ef um slíkt er að ræða.

2. gr.

     Orðin „og verulega hlutdeild í afrakstri þess“ í 3. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     Í stað orðanna „þar til liðið er eitt ár“ í 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: þar til liðin eru tvö ár.

4. gr.

     Við 3. mgr. 34. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Birta skal á kostnað tilkynnanda í Lögbirtingablaði aðalefni ákvörðunar hluthafafundar um frávik frá áskriftarrétti hluthafa.

5. gr.

     Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hluthafafundur skal þó í öllum tilvikum standa að ákvörðunum um innlausn eigin hluta félagsins ef fullnægjandi heimild af hans hálfu er ekki fyrir hendi skv. 1. málsl.

6. gr.

     Í stað orðanna „hámark hluta á nafnverði“ í 3. mgr. 55. gr. laganna kemur: hámarksfjölda hluta.

7. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 99. gr. laganna fellur brott.

8. gr.

     Við 2. mgr. 104. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 1.–2. málsl. eiga þó ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá. Gætt skal ákvæða 99. gr.

9. gr.

     Við 1. mgr. 149. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar breytingar á félagssamþykktum eða stofnsamningi að öðru leyti eru tilkynntar skal leggja fram nýjan heildartexta með innfelldum breytingum. Félagsstjórn eða sá aðili, sem kemur í hennar stað, skal tilkynna upphaf og lok félagsslitameðferðar.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 151. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 1. málsl. taka þó ekki til ráðstafana sem gerðar eru innan sextán daga eftir birtingu ef viðkomandi maður sannar að hann hafi ekki getað aflað vitneskju um það sem birt var.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Ef um misræmi er að ræða milli þess sem skráð er og þess sem birt er í Lögbirtingablaði getur félagið ekki borið hinn birta texta fyrir sig gagnvart þriðja manni. Hann getur hins vegar borið hinn birta texta fyrir sig gagnvart félaginu nema sannað sé að hann hafi haft vitneskju um það sem skráð var.


11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. apríl 1997.