Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1325, 121. löggjafarþing 90. mál: aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum (EES-reglur, vinnuvernd barna og ungmenna).
Lög nr. 52 22. maí 1997.

Lög um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðanna „10 klukkustunda“ í 1. mgr. 52. gr. laganna kemur: 11 klukkustunda.

2. gr.

     59. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði þessa kafla gilda um vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri. Ákvæði kaflans gilda ekki um tilfallandi vinnu eða vinnu sem varir í skamman tíma að því er varðar heimilisaðstoð á einkaheimilum eða vinnu í fjölskyldufyrirtækjum sem hvorki telst skaðleg né hættuleg ungmennum.
     Ungmenni merkir í lögum þessum einstakling undir 18 ára aldri. Barn merkir í lögum þessum einstakling sem er undir 15 ára aldri eða sem er í skyldunámi. Unglingur merkir í lögum þessum einstakling sem er minnst 15 ára að aldri en hefur ekki náð 18 ára aldri og er ekki lengur í skyldunámi.

3. gr.

     60. gr. laganna orðast svo:
     Börn má ekki ráða til vinnu.
     Heimilt er að víkja frá meginreglu 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:
 1. Börn er heimilt að ráða til að taka þátt í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Sá sem ræður börn sem ekki hafa náð 13 ára aldri skal afla leyfis frá Vinnueftirliti ríkisins áður en til ráðningar kemur.
 2. Heimilt er að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
 3. Heimilt er að ráða börn sem náð hafa 14 ára aldri til starfa af léttara tagi. Börn, sem náð hafa 13 ára aldri, má ráða til starfa af léttara tagi í takmarkaðan stundafjölda á viku, svo sem léttra garðyrkju- og þjónustustarfa og annarra hliðstæðra starfa.


4. gr.

     61. gr. laganna orðast svo:
     Unglinga er heimilt að ráða til vinnu með þeim takmörkunum sem greinir í kafla þessum.

5. gr.

     62. gr. laganna orðast svo:
     Óheimilt er að ráða ungmenni til vinnu sem unnin er við eftirfarandi aðstæður:
 1. Vinnu sem líklega er ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra.
 2. Vinnu sem líklega veldur varanlegu heilsutjóni.
 3. Vinnu þar sem hætta er á skaðlegri geislun.
 4. Vinnu þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun.
 5. Vinnu sem felur í sér hættu fyrir heilsu þeirra vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings.

     Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði þegar það er nauðsynlegt vegna starfsnáms unglinga.

6. gr.

     63. gr. laganna orðast svo:
     Virkur vinnutími barna, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., er takmarkaður með eftirfarandi hætti:
 1. Átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku ef vinnan er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi.
 2. Tvær klukkustundir á skóladegi og 12 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á starfstíma skóla en utan skipulegs skólatíma. Daglegur vinnutími má þó aldrei vera lengri en sjö klukkustundir. Þó má daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri vera átta klukkustundir.
 3. Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu sem fram fer á tíma sem skólinn starfar ekki. Daglegur vinnutími barns sem náð hefur 15 ára aldri má þó vera átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
 4. Sjö klukkustundir á dag og 35 klukkustundir á viku þegar um er að ræða vinnu af léttara tagi sem unnin er af börnum sem eru ekki lengur í skyldunámi.

     Virkur vinnutími unglinga er takmarkaður við átta klukkustundir á dag og 40 klukkustundir á viku.
     Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. mgr. greinar þessarar í sérstökum tilvikum eða ef réttmætar ástæður leyfa.
     Ef daglegur, virkur vinnutími er lengri en fjórir tímar á barn og unglingur rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.

7. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 63. gr. a, er orðast svo:
     Óheimilt er að láta börn, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., vinna á tímabilinu frá kl. 20 til kl. 6. Óheimilt er að láta unglinga vinna á tímabilinu frá kl. 22 til kl. 6.
     Heimilt er að víkja frá ákvæði 2. málsl. 1. mgr. þessarar greinar á sérstökum starfssviðum, enda skal fullorðinn einstaklingur hafa umsjón með unglingnum ef þörf er á slíkri umsjón til verndar honum. Þó er óheimilt að láta ungling vinna á tímabilinu frá kl. 24 til kl. 4.
     Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinar þessarar þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Undanþága þessi á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum og störf á sviði menningarmála, lista, íþrótta eða auglýsinga.
     Unglingar eiga, áður en þeir hefja næturvinnu og með reglulegu millibili eftir það, rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu, nema þeir vinni einungis í undantekningartilvikum á þeim tíma sem vinna er bönnuð. Framkvæmd slíkrar skoðunar er á ábyrgð viðkomandi atvinnurekanda.

8. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 63. gr. b, er orðast svo:
     Börn, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., skulu fá minnst 14 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Unglingar skulu fá minnst 12 klukkustunda samfellda hvíld á hverjum sólarhring.
     Á hverju sjö daga tímabili skulu börn sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr. laga þessara og unglingar fá minnst tveggja daga hvíldartímabil sem skal vera samfellt ef kostur er. Lágmarkshvíldartími þessi skal að jafnaði taka til sunnudags.
     Heimilt er að víkja frá ákvæðum 1. og 2. mgr. greinar þessarar þegar um er að ræða vinnu sem er skipt upp yfir daginn eða varir í stuttan tíma hverju sinni.
     Heimilt er að víkja frá ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. greinar þessarar þegar til þess liggja réttmætar ástæður og að því tilskildu að unglingarnir fái hæfilegan uppbótarhvíldartíma. Undanþága þessi á við þegar um er að ræða vinnu á sjúkrastofnunum eða sambærilegum stofnunum, störf á sviði landbúnaðar, ferðamála eða í hótel- og veitingarekstri og vinnu sem er skipt upp yfir daginn.

9. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 63. gr. c, er orðast svo:
     Í óviðráðanlegum tilvikum (force majeure) sem atvinnurekandi fær ekki stjórnað er heimilt að víkja frá ákvæðum laga þessara um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga að því tilskildu að um sé að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið, ekki sé unnt að fá fullorðna starfsmenn til starfans og unglingarnir fái samsvarandi uppbótarhvíldartíma á næstu þremur vikum.

10. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 63. gr. d, er orðast svo:
     Börn í skyldunámi, sem falla undir b- og c-lið 2. mgr. 60. gr., eiga rétt á að fá leyfi árlega einhvern tíma á meðan á skólafríi stendur.

11. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 63. gr. e, er orðast svo:
     Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi og heilbrigði ungmenna með gerð mats á áhættu sem starf getur skapað þeim. Þetta mat skal fara fram áður en ungmenni hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum. Sýni matið að öryggi, líkamlegri eða andlegri heilsu eða þroska ungmennis geti verið stofnað í hættu skal atvinnurekandi sjá til þess að reglulega fari fram viðeigandi skoðun og eftirlit með heilsu ungmennanna þeim að kostnaðarlausu.

12. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 63. gr. f, er orðast svo:
     Ráðherra skal að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins setja nánari reglur um leyfisveitingar skv. a-lið 2. mgr. 60. gr., heimild til að ráða börn 14 ára og eldri til vinnu sem er hluti af fræðilegu eða verklegu námsfyrirkomulagi skv. b-lið 2. mgr. 60. gr., hvað teljist störf af léttara tagi og við hvaða skilyrði þau skuli unnin skv. c-lið 2. mgr. 60. gr., skilyrði og takmörk vegna frávika skv. 3. mgr. 63. gr., frávik skv. 2. og 3. mgr. 63. gr. a og 2.–4. mgr. 63. gr. b og um framkvæmd 62. gr., 63. gr. c og 63. gr. e.

13. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. október 1997.

Samþykkt á Alþingi 15. maí 1997.