Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1292, 121. löggjafarþing 485. mál: vátryggingastarfsemi (EES-reglur).
Lög nr. 63 27. maí 1997.

Lög um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði VII. kafla um starfsemi erlendra vátryggingafélaga gilda ekki um endurtryggingar sem þau vátryggingafélög, sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skv. 26. gr., kaupa erlendis.

2. gr.

     Við 7. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar:

    —     náin tengsl, tengsl vátryggingafélags við
 1. önnur félög í félagasamstæðu sem vátryggingafélagið tilheyrir,
 2. þá sem eiga virkan eignarhlut í vátryggingafélaginu, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
 3. þá sem eiga virkan eignarhlut í móðurfélagi vátryggingafélags, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
 4. félög sem vátryggingafélagið á virkan eignarhlut í, þó þannig að hlutdeildin nemi minnst 20%,
 5. félög sem vátryggingafélagið á hlut í og sem félagasamstæða, sem vátryggingafélagið tilheyrir, á virkan eignarhlut í, þó þannig að samanlögð hlutdeild þeirra nemi minnst 20%,

    —     vátryggingamiðlun, faglega starfsemi lögaðila eða einstaklings sem starfar sjálfstætt og veitir upplýsingar, faglega ráðgjöf og aðstoð við að koma á vátryggingasamningi í frumtryggingum eða við framkvæmd ákvæða slíks samnings gagnvart vátryggingafélagi og starfar óháður einstökum vátryggingafélögum,

    —     vátryggingamiðlari, einstakling eða lögaðila sem stundar vátryggingamiðlun og hefur að öllu leyti frjálst val um það til hvaða félags miðlað er,

    —     vátryggingaumboðsmaður, þann sem starfar í nafni og fyrir hönd ákveðinna vátryggingafélaga, eins eða fleiri, við að kynna, gera tillögu um og undirbúa vátryggingasamninga eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, svo sem þegar tjón hefur orðið,

    —     vátryggingasölumaður, starfsmann sem starfar á vegum vátryggingamiðlara eða vátryggingaumboðsmanns eða vátryggingafélags og annast m.a. undirbúningsvinnu, kynningu vátrygginga, allt án heimildar til að skuldbinda um vátryggingu á nokkurn hátt þá sem unnið er fyrir, og innheimtu iðgjalda hafi samningur verið gerður.


3. gr.

     Í stað lokamálsliðar lokamálsgreinar 8. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Stórfyrirtæki teljast þau fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö eftirfarandi skilyrða: að niðurstöðutala efnahagsreiknings nái 6,2 milljónum ecu, að ársvelta nái 12,8 milljónum ecu og að ársverk á reikningsárinu séu a.m.k. 250. Sé fyrirtæki hluti félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings. Vátryggingaeftirlitið getur heimilað að litið sé á starfsgreinasamtök, sameiginleg verkefni eða fyrirtæki sem tímabundið mynda hóp sem eitt fyrirtæki í skilningi þessarar málsgreinar.

4. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Aðrir en þeir sem skráðir eru í vátryggingamiðlaraskrá mega ekki bera heiti sem kunna að benda til eða gefa í skyn að þeir stundi miðlun vátrygginga eða láta nokkuð frá sér fara opinberlega, í prentuðu máli eða á annan hátt, sem skilja mætti á þann veg að vátryggingamiðlun sé rekin.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
 1. Í stað 4. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Stofnendur skulu vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Stofnandi má hvorki vera í greiðslustöðvun né hafa verið úrskurðaður gjaldþrota á síðustu fimm árum.
 2. 4. mgr. orðast svo:
 3.      Ríkisborgarar og lögaðilar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru undanþegnir búsetuskilyrðum 2. mgr. enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki eða lögaðilarnir með aðsetur þar. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.


6. gr.

     Við 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. laganna bætist: og greinargerð um önnur náin tengsl sem félagið er í.

7. gr.

     Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Setja skal reglugerð um réttaraðstoðarvátryggingar, greinaflokk skv. 17. tölul. 1. mgr., til þess að tryggja hagsmuni vátryggingataka í ágreiningsmáli við vátryggingafélagið sjálft.

8. gr.

     Á eftir 2. málsl. 3. mgr. 25. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef félag er í nánum tengslum við aðra skal einungis veita starfsleyfi ef þau tengsl hindra ekki eftirlit með starfsemi félagsins. Ef löggjöf þriðja ríkis gildir um þá sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við og hindrar eftirlit með starfsemi félagsins skal synja um starfsleyfi, svo og ef líklegt er að vandkvæði við framkvæmd þeirrar löggjafar geri eftirlit torvelt. Ef raunverulegar aðalstöðvar félagsins eru ekki hér á landi skal synja um starfsleyfi.

9. gr.

     1. mgr. 33. gr. laganna orðast svo:
     Lágmarksgjaldþol mælt í ecu skal þrátt fyrir ákvæði 30. og 31. gr. aldrei vera lægra en hér segir:
1. Í líftryggingafélagi, sbr. 23. gr. 800.000
2. Í félagi sem rekur ábyrgðartryggingar, sbr. 10.–13. tölul. 1. mgr.
22. gr., eða greiðslu- og efndavátryggingar, sbr. 14. og 15. tölul.
1. mgr. 22. gr., sjá þó 6. tölul. þessarar greinar 400.000
3. Í félagi sem rekur skaðatryggingar, sbr. 3.–8., 16. eða 18. tölul.
1. mgr. 22. gr. 300.000
4. Í félagi sem rekur slysa- og sjúkratryggingar, sbr. 1. og 2. tölul.
1. mgr. 22. gr. 300.000
5. Í félagi sem rekur réttaraðstoðarvátryggingar, sbr. 17. tölul. 1. mgr.
22. gr. eða aðrar eignatryggingar, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 22. gr. 200.000
6. Í félagi sem rekur greiðsluvátryggingar, sbr. 14. tölul. 22. gr., og
ársiðgjöld nema að lágmarki 2.500.000 ecu eða 4% heildariðgjalda 1.400.000


10. gr.

     Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði þessarar greinar gilda um náin tengsl eftir því sem við getur átt. Ekki má mynda náin tengsl nema sýnt sé að þau hindri ekki eftirlit með starfsemi félagsins.

11. gr.

     Við 40. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Telji Vátryggingaeftirlitið að náin tengsl hindri eftirlit með starfsemi vátryggingafélags skal það fara fram á að tengslin verði strax rofin, nema það telji aðrar ráðstafanir fullnægjandi.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
 1. 2. mgr. orðast svo:
 2.      Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Ríkisborgarar þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eru undanþegnir búsetuskilyrðum enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum. Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra skal vera með þeim hætti að tryggt sé talið að hann geti gegnt stöðu sinni á viðhlítandi hátt.
 3. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig skal tilkynna verulegar breytingar á skipulagi samstæðu þegar þær ganga í gildi.


13. gr.

     Í stað 2. mgr. 46. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Endurskoðendum vátryggingafélags er skylt að veita Vátryggingaeftirlitinu þær upplýsingar um framkvæmd og niðurstöður endurskoðunar er það óskar. Þeim er einnig skylt að gera Vátryggingaeftirlitinu tafarlaust viðvart fái þeir í starfi sínu fyrir félagið eða þá sem vátryggingafélagið er í nánum tengslum við vitneskju um:
 1. líkleg brot á þeirri löggjöf sem gildir um starfsemi félagsins,
 2. málefni sem kunna að hafa úrslitaþýðingu fyrir áframhaldandi starfsemi félagsins,
 3. athugasemdir eða fyrirvara í áritun á ársreikning.

     Upplýsingar, sem endurskoðandi veitir Vátryggingaeftirlitinu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, teljast ekki brot á lögbundinni eða samningsbundinni þagnarskyldu.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 51. gr. laganna:
 1. Á eftir 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Slíkar upplýsingar má eingöngu veita í einni heild eða samandregnar þannig að einstök vátryggingafélög séu ekki auðkennd, nema um sakamál sé að ræða.
 2. Á eftir 1. málsl. 6. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama gildir um skipti á upplýsingum við þá sem hafa eftirlit með aðilum sem fjalla um gjaldþrot og slit vátryggingafélaga, lánastofnana og annarra fjármálastofnana, eftirlit með þeim sem framkvæma endurskoðun hjá þessum félögum og stofnunum og skipti á upplýsingum við tryggingastærðfræðinga vátryggingafélaga, sbr. 37. gr., og þá sem eftirlit hafa með þeim. Í því skyni að stuðla að stöðugleika og öryggi á fjármálasviði skulu upplýsingaskipti einnig heimil milli eftirlitsstjórnvalda og stjórnvalda og aðila sem starfa að því að rannsaka brot á félagarétti.
 3. Við 7. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sama á við um upplýsingar til stjórnvalda skv. 6. mgr. Njóti þau aðstoðar utanaðkomandi sérfræðinga gilda sömu reglur og skulu hlutaðeigandi stjórnvöld veita upplýsingar um nöfn þeirra sem upplýsingarnar eiga að fá og gera nákvæma grein fyrir skyldum þeirra á þessum vettvangi áður en þær eru veittar.


15. gr.

     4. mgr. 52. gr. laganna orðast svo:
     Vátryggingaeftirlitið leggur gjald á starfsemi vátryggingamiðlara til þess að standa undir kostnaði þess við eftirlit með starfsemi þeirra. Gjaldið skal nema 0,033% af heildarupphæð iðgjalda sem miðlað er til vátryggingafélaga á því ári, þó eigi lægri fjárhæð en 25.000 kr.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
 1. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Hann skal vera búsettur hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og má ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi.
 2. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Bókhaldsgögn og önnur gögn viðvíkjandi starfsemi útibúsins skulu varðveitt í útibúinu sjálfu.
       Ákveða má með samningum við eitt eða fleiri þriðju ríki að beita öðrum ákvæðum um eftirlit með starfsemi útibúsins en segir í lögum þessum að því tilskildu að hinum vátryggðu sé tryggð nægileg og sambærileg vernd. Ekki má í slíkum samningum veita útibúum félaga með aðalstöðvar utan Evrópska efnahagssvæðisins rýmri skilyrði en útibúum vátryggingafélaga með aðalstöðvar þar. Samráð skal haft við önnur aðildarríki um samninga af þessu tagi og þau upplýst um þá áður en þeir eru gerðir.


17. gr.

     Í stað 2. mgr. 72. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Félagið skal uppfylla skilyrði III. kafla um gjaldþol er miðast við starfsemi þess hér eftir því sem við á, þó þannig að gjaldþol þess nemi aldrei minna en helmingi viðeigandi fjárhæðar skv. 33. gr. Skal félagið hafa hér á landi fjármuni er nema helmingi fjárhæðarinnar skv. 33. gr. eða þriðjungi lágmarksgjaldþols, hvort sem hærra er, en fjármunir þar umfram upp að lágmarksgjaldþoli skulu varðveittir í aðildarríki. Sameiginlegt eftirlit eins aðildarríkis með gjaldþoli fyrir öll útibú félagsins á Evrópska efnahagssvæðinu getur komið í stað þeirrar aðferðar sem lýst er í þessari málsgrein og skal setja um það nánari ákvæði í reglugerð. Gilda þá ákvæði 66. gr. um eftirlit með gjaldþoli útibúanna eftir því sem við á.
     Fjárhæð samsvarandi fjórðungi þess lágmarks sem krafist er í 33. gr. skal lögð fram sem geymslufé í upphafi og varðveitt á stað sem Vátryggingaeftirlitið samþykkir. Geymsluféð skal einungis notað til að tryggja að félagið geti staðið við skuldbindingar sínar vegna gerðra vátryggingasamninga hér á landi. Einstakir vátryggðir geta ekki gert kröfu um fullnustu greiðslu nema að því marki sem það að mati Vátryggingaeftirlitsins skerðir ekki rétt annarra vátryggðra til fullnustu á vátryggingaskuldbindingum félagsins.

18. gr.

     Við 1. mgr. 73. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði IV. kafla gilda eftir því sem við getur átt um útibúið.

19. gr.

     Við 74. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ákvæði X. og XI. kafla gilda eftir því sem við getur átt um útibúið.

20. gr.

     80. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem hyggst stunda miðlun vátrygginga hér á landi skal senda ráðuneytinu skriflega umsókn um starfsleyfi.
     Starfsleyfi vátryggingamiðlara gefið út í aðildarríki telst jafngilda starfsleyfi hér á landi enda séu uppfyllt skilyrði laga þessara. Sé starfsemin ekki háð starfsleyfi skal vátryggingamiðlari sækja um starfsleyfi og gilda þá sömu reglur og um innlenda vátryggingamiðlara.

21. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
 1. 1. mgr. fellur brott.
 2. 2. mgr. orðast svo:
 3.      Skilyrði starfsleyfis er búseta hér á landi, að umsækjandi sé lögráða, hann hafi óflekkað mannorð og hafi ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaður gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld, svo og löggjöf um vátryggingastarfsemi. Þá er það skilyrði að menn búi yfir þeirri þekkingu sem nauðsynleg er til starfans, hafi engin fjárhagsleg tengsl af neinu tagi við vátryggingafélög vegna eignaraðildar eða hagsmuna, annarra en tengjast þeim vátryggingasamningum sem komið er á og teljist að öðru leyti hæfir til þess að reka þessa starfsemi á viðhlítandi hátt. Þeir skulu einnig leggja fram vottorð um gilda starfsábyrgðartryggingu til að bæta tjón sem kann að hljótast af starfa þeirra og þeir eru bótaskyldir fyrir. Ríkisborgarar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðum enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í aðildarríki. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá búsetuskilyrðum.
 4. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Óheimilt er vátryggingamiðlara að hefja miðlun vátrygginga fyrr en ráðherra hefur veitt starfsleyfi eða skráning í vátryggingamiðlaraskrá hefur átt sér stað.
 5. 6. mgr. orðast svo:
 6.      Ráðherra setur nánari ákvæði með reglugerðum um skilyrði starfsleyfis, um starfsemi vátryggingamiðlara, þar með talin skil á gögnum, svo sem rekstrar- og efnahagsreikningi, um starfsábyrgðartryggingu, þar á meðal um fjárhæð vátryggingar og lágmarksskilyrði hennar, um prófnefnd og námskeið og próf til að mega stunda miðlun vátrygginga.


22. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Vátryggingamiðlari má ekki taka við þóknun af neinu tagi frá vátryggingafélagi nema vegna vátryggingasamninga sem komið hefur verið á milli vátryggingafélagsins og vátryggingataka.
 3. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Vátryggingamiðlari má ekki taka við iðgjöldum fyrir hönd vátryggingafélags nema samkvæmt skriflegri heimild.
 4. 3. málsl. 3. mgr. orðast svo: Vátryggingamiðlara er skylt að upplýsa þá sem hann starfar fyrir um þóknun sem hann þiggur vegna viðskiptanna fari þeir fram á það.


23. gr.

     2. málsl. 83. gr. laganna orðast svo: Hann skal gera fullnægjandi grein fyrir tegund og umfangi vátryggingaáhættunnar til að unnt sé að gera vátryggingataka tilboð.

24. gr.

     84. gr. laganna fellur brott.

25. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
 1. Í stað 2. og 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í reglugerð skal kveða á um þau atriði sem skrá skal.
 2. 2. mgr. fellur brott.
 3. Í stað 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 4.      Vanræki vátryggingamiðlari gróflega skyldur sínar, greiði ekki eftirlitsgjald, samrýmist starfsemin ekki hlutverki hans sem vátryggingamiðlara eða séu skilyrði starfsleyfis ekki lengur uppfyllt skal Vátryggingaeftirlitið afturkalla starfsleyfi. Þó er heimilt, telji Vátryggingaeftirlitið það fullnægjandi, að veita viðvörun eða frest til úrbóta því sem úrskeiðis hefur farið. Ráðherra skal staðfesta afturköllun starfsleyfis innan sjö daga.
       Sé skráningarskyld starfsemi rekin án heimildar skal Vátryggingaeftirlitið þegar í stað gera ráðstafanir til að slíkri starfsemi verði hætt.


26. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. maí 1997.