Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1294, 121. löggjafarþing 502. mál: þjóðminjalög (stjórnskipulag o.fl.).
Lög nr. 94 26. maí 1997.

Lög um breyting á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Tilgangur þessara laga er að tryggja sem best varðveislu menningarsögulegra minja þjóðarinnar. Lögin kveða á um starfsemi Þjóðminjasafns Íslands og byggðasafna, fjalla um fornminjar, kirkjugripi og minningarmörk, auk friðunar húsa og annarra mannvirkja.

2. gr.

     Í stað orðanna „safnstjóri Þjóðminjasafns“ í 4. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: staðgengill hans.

3. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Þjóðminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins. Það er miðstöð þjóðminjavörslu í landinu.
     Um skipulag safnsins skal mælt fyrir í reglugerð að fengnum tillögum þjóðminjaráðs. Sérsöfn geta haft stöðu deilda í Þjóðminjasafni.
     Þjóðminjavörður ræður starfsmenn Þjóðminjasafns. Skulu yfirmenn stjórnunareininga safnsins og aðrir sérfræðingar hafa sérfræðimenntun á starfssviði sínu.

4. gr.

     Síðasti málsliður 22. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

     Í stað ártalsins „1900“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur ártalið: 1918.

6. gr.

     5. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
     Varsla og reikningshald sjóðsins skal falið bankastofnun nema húsafriðunarnefnd ákveði aðra tilhögun að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis.

7. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Ráðið skal í allar stöður minjavarða, sbr. 4. gr., fyrir árslok 2000.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. maí 1997.