Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 438, 122. löggjafarþing 147. mál: hlutafélög (EES-reglur).
Lög nr. 117 16. desember 1997.

Lög um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 2. mgr. 27. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Hlutabréf er heimilt samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins að gefa út með rafrænum hætti í verðbréfamiðstöð í samræmi við lög um rafræna skráningu verðbréfa.

2. gr.

     4. tölul. 120. gr. laganna orðast svo: Frá hvaða tímamarki hlutirnir, sem hugsanlega eru látnir í té sem greiðsla, veiti rétt til arðs og sérstök skilyrði varðandi þann rétt.

3. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 121. gr. laganna orðast svo: Í greinargerðinni skal fjalla um efnahagslegar og lagalegar ástæður til grundvallar samrunaáætluninni, svo og ákvörðun endurgjalds fyrir hlutina, þar á meðal sérstök vandkvæði er tengjast ákvörðuninni.

4. gr.

     2. málsl. 3. mgr. 122. gr. laganna orðast svo: Yfirlýsingin á að lýsa þeirri eða þeim aðferðum sem notaðar voru við ákvörðun endurgjaldsins og skal þar lagt mat á hvort aðferðin eða aðferðirnar séu fullnægjandi í þessu tilviki.

5. gr.

     Við 126. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Eigendum annarra verðbréfa en hlutabréfa, sem sérstök réttindi fylgja, skulu í yfirtökufélaginu eigi veitt minni réttindi en þeir höfðu í hinu yfirtekna félagi nema fundur eigenda bréfanna, ef kveðið er á um slíkan fund í lögum, hafi samþykkt breytingar á réttindum, eigendur þeirra hafi samþykkt breytingarnar hver um sig eða eigendurnir eigi rétt til þess að yfirtökufélagið innleysi bréf þeirra.

6. gr.

     2. og 3. mgr. 133. gr. laganna orðast svo:
     Ákvæði 6.–8. gr., 1. mgr. 37. gr. og 119.–128. gr. gilda um skiptingu eftir því sem við á. Í skiptingaráætlun, sbr. 120. gr., skal vera nákvæm lýsing á þeim eignum og skuldum sem yfirfæra skal og úthlutað er til hvers viðtökufélags. Greina skal frá aðferðum sem lagðar eru til grundvallar við ákvörðun úthlutunar til hluthafa félagsins, sem skipt er, á hlutum í viðtökufélögum endurgjaldsins. Enn fremur skal í greinargerð félagsstjórna, sbr. 1. mgr. 121. gr., lýsa þeirri eða þeim aðferðum sem liggja til grundvallar úthlutun á hlutum. Þar skal greina sérstaklega frá samningu sérfræðiskýrslu á grundvelli 6.–8. gr. vegna greiðslu í öðru en reiðufé til hluthafa félagsins sem skipt er, svo og að skýrslan verði send hlutafélagaskrá. Stjórn eða framkvæmdastjórar félagsins, sem skipt er, skulu skýra hluthafafundi þess félags frá öllum umtalsverðum breytingum sem átt hafa sér stað á eignum og skuldum félagsins frá því að skiptingaráætlun var samin og þar til haldinn verður sá hluthafafundur félagsins sem taka skal ákvörðun um áætlunina, og auk þess stjórn eða framkvæmdastjórum viðtökufélaga svo að vitneskjunni verði komið til hluthafafunda viðtökufélaganna.
     Ef kröfuhafi í félaginu, sem tekið hefur þátt í skiptingunni, fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi sem kröfuna skal greiða ber hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skipingaráætlunina voru birtar. Ábyrgð hinna viðtökufélaganna takmarkast þó við nettóverðmæti þess sem við bættist í hverju einstöku viðtökufélagi þegar áætlunin var birt en ábyrgð félagsins, sem skipt er og heldur áfram starfsemi, takmarkast við nettóverðmæti þess sem var eftir í félaginu á sama tíma.

7. gr.

     1. mgr. 141. gr. laganna orðast svo:
     Tilkynna skal hlutafélagaskrá stofnun útibús erlends hlutafélags. Ákvæði XVII. kafla um skráningu hlutafélaga varðandi tilkynningar um stofnun félaganna skulu gilda eftir því sem við á. Í tilkynningu um stofnun útibús skal tekið fram berum orðum eftir hvaða landslögum erlenda hlutafélagið starfar. Þá skal geta skrárinnar, þar sem erlenda hlutafélagið er skráð, ásamt skráningarnúmeri félagsins í þeirri skrá, svo og forms félagsins. Í tilkynningu um útibú erlends hlutafélags eða félags í samsvarandi lagalegu formi, sem á lögheimili og varnarþing í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, skal geta lagalegs forms félagsins, aðalstarfsstöðvar og tilgangs þess og minnst einu sinni á ári fjárhæðar hlutafjár ef þessar upplýsingar koma ekki fram í stofnsamningi og samþykktum eða skjölum með breytingu þar á. Séu útibú hins erlenda hlutafélags fleiri en eitt nægir að senda stofnsamning, samþykktir og tilkynningar um breytingar þar á, svo og ársreikninga félagsins, einu sinni en vísa með glöggum hætti í skráningu fyrra útibús, m.a. skráningarnúmer (kennitölu) útibúsins, sbr. 142. gr.

8. gr.

     142. gr. laganna orðast svo:
     Útibússtjóra ber að tilkynna hlutafélagaskrá allar breytingar á því sem skráð er, sbr. 1. mgr. 141. gr. og 149. gr.
     Útibússtjóri skal senda hlutafélagaskrá ársreikninga aðalfélags og útibús innan sex mánaða frá lokun reikningsárs, sbr. 1. mgr. 141. gr.

9. gr.

     143. gr. laganna orðast svo:
     Ef hið erlenda félag er tekið til gjaldþrotaskipta eða félagsslitameðferðar skal útibússtjóri tafarlaust tilkynna hlutafélagaskrá það, svo og hverjir sjái um gjaldþrotaskiptin eða félagsslitameðferðina, hver völd þeirra séu og hvenær skiptunum eða meðferðinni ljúki. Sambærilegar upplýsingar skal gefa um greiðslustöðvun, nauðasamninga og samsvarandi gerðir. Gæta skal ákvæða 5. mgr. 1. gr.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. desember 1997.