Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 663, 122. löggjafarþing 275. mál: stjórn fiskveiða (endurnýjunarreglur fiskiskipa).
Lög nr. 133 23. desember 1997.

Lög um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað 2. mgr. 5. gr. laganna koma sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Heimilt er að flytja veiðileyfi, skv. 1. mgr., til annars jafnstórs skips, miðað við rúmtölu, enda hafi rétti til endurnýjunar ekki verið afsalað. Þá er og heimilt að sameina veiðileyfi tveggja eða fleiri skipa eða skipta veiðileyfi eins skips til tveggja eða fleiri skipa, enda sé rúmtala þess eða samtala rúmtalna þeirra skipa, sem veiðileyfi fá, ekki hærri en rúmtala þess eða þeirra sem veiðileyfi láta. Aðeins er þó heimilt að flytja veiðileyfi frá báti, sem hefur leyfi til línu- og færaveiða, sbr. 6. gr., til báts sem er helmingi minni að rúmtölu en sá bátur sem veiðileyfi lætur. Hafi bátur verið dæmdur óbætandi vegna sjótjóns má þrátt fyrir 3. málsl. þessarar málsgreinar flytja veiðileyfi þess báts til annars jafnstórs báts miðað við rúmtölu.
     Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að flytja leyfi skips til veiða með aflamarki til annars skips sem er allt að 100 rúmmetrum stærra, að viðbættum 25%, en þó aldrei meira en 60% stærra en það skip sem veiðileyfi lætur. Sé skip stækkað með endurnýjun skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar eða því breytt skv. 2. málsl. 4. mgr. verður það ekki stækkað með endurnýjun fyrr en a.m.k. sjö ár eru liðin frá því að endurnýjunin eða breytingin átti sér stað. Heimild til að flytja veiðileyfi á skip, sem er stærra en skip það er veiðileyfi lætur, á aðeins við þegar eitt skip kemur í stað eins eða fleiri skipa og takmarkast við stærsta skipið af þeim sem veiðileyfi láta.
     Óheimilt er að gera breytingar á skipi sem hefur leyfi til veiða með aflamarki þannig að rúmtala þess aukist nema flutt sé veiðileyfi af öðru skipi eða skipum sem eru jafnstór að rúmtölu og sem stækkuninni nemur. Þó er heimilt að breyta skipi sem hefur leyfi til veiða með aflamarki þannig að rúmtala þess aukist, hafi slíkar breytingar ekki verið gerðar á síðustu sjö árum eða skipið stækkað með endurnýjun skv. 3. mgr., enda aukist hún ekki um meira en 100 rúmmetra að viðbættum 25% en þó aldrei meira en 60%.
     Óheimilt er að gera breytingar á báti sem hefur leyfi til línu- og færaveiða, sbr. 6. gr., nema flutt sé veiðileyfi af öðrum báti sem er helmingi stærri að rúmtölu en sem stækkuninni nemur. Slíkum báti má þó aldrei breyta svo að hann verði stærri en sex brúttótonn.
     Rúmmetrar sem ekki nýtast við flutning veiðileyfa milli skipa eða vegna stækkana falla niður.
     Ráðherra skal setja nánari reglur um endurnýjun fiskiskipa og skal þar meðal annars kveðið á um hvernig rúmtala skips skuli reiknuð.

2. gr.

     Orðin „2. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna falla brott.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Breytingar á skipum sem stunda veiðar með aflamarki og leyfi fengu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. janúar 1986 skulu heimilar, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., hafi samningar þar um verið gerðir fyrir og skilað til Fiskistofu innan fjögurra vikna frá gildistöku laga þessara. Breytingum skal þá lokið í síðasta lagi innan 14 mánaða frá gildistöku laganna. Slíkar breytingar skulu ekki lagðar til grundvallar mati á stærð skips við endurnýjun skipsins síðar.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1997.