Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1114, 122. löggjafarþing 441. mál: meðferð opinberra mála (sektarinnheimta).
Lög nr. 31 8. apríl 1998.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991.


1. gr.

     Á eftir 115. gr. laganna kemur ný grein, 115. gr. a, sem orðast svo:
     1. Nú eru skilyrði til að ljúka máli samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 115. gr. og lögreglustjóri telur að hæfileg viðurlög við brotinu séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr 50.000 kr. Getur þá lögreglustjóri gefið sakborningi kost á að ljúka málinu með greiðslu tiltekinnar sektar, en í sektarboði skal koma fram stutt lýsing á broti, hvar og hvenær það var framið og þau refsiákvæði sem það varðar við. Einnig skal koma fram í sektarboði hverjar geta orðið afleiðingar þess að því er ekki sinnt.
     2. Hafni sakborningur sektarboði skv. 1. mgr. skal tekin ákvörðun um saksókn eftir almennum reglum.
     3. Sinni sakborningur ekki sektarboði skv. 1. mgr. innan 30 daga frá því að það sannanlega barst honum eða einhverjum þeim sem birta mætti stefnu fyrir á hendur honum í einkamáli getur lögreglustjóri sent málið héraðsdómara til ákvörðunar sektar og vararefsingar. Dómari tekur ákvörðun um viðurlög með áritun á sektarboð lögreglustjóra. Slík áritun hefur sama gildi og dómur. Ekki er þörf á að kveðja sakborning fyrir dóm áður en máli verður lokið á þennan hátt.
     4. Telji dómari hæfileg viðurlög við broti fara fram úr því sem greinir í 1. mgr. eða fyrirliggjandi gögn ekki nægileg til að sýnt sé fram á sök sakbornings hafnar hann málalokum skv. 3. mgr. með áritun sektarboðs. Slíkri ákvörðun verður ekki skotið til æðra dóms, en dómari er ekki bundinn af henni ef til saksóknar kemur vegna brotsins.
     5. Nú hefur máli verið lokið með ákvörðun viðurlaga skv. 3. mgr., og getur sakborningur þá krafist þess að málið verði tekið upp á ný, enda færi hann þá fram varnir sem gætu hafa haft áhrif á úrslit þess. Kröfu um endurupptöku skal beint til þess dómstóls, þar sem máli var lokið, innan fjögurra vikna frá því að sakborningi varð kunnugt um sektarákvörðun. Dómari ákveður með úrskurði hvort krafa verður tekin til greina. Fallist dómari á kröfuna fellur ákvörðun um viðurlög skv. 3. mgr. úr gildi og sætir málið upp frá því meðferð samkvæmt almennum reglum, þó án þess að ákæra hafi verið gefin út.
     6. Nú telur ríkissaksóknari að sakborningur hafi verið látinn sæta fjarstæðum málalokum, og getur ríkissaksóknari þá krafist endurupptöku málsins fyrir hlutaðeigandi dómstóli. Um meðferð þeirrar kröfu og málsins upp frá því fer eftir 5. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 31. mars 1998.