Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1490, 122. löggjafarþing 510. mál: póstþjónusta (einkaréttur ríkisins).
Lög nr. 72 15. júní 1998.

Lög um breytingu á lögum nr. 142/1996, um póstþjónustu.


1. gr.

     1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Íslenska ríkið hefur einkarétt á póstmeðferð eftirfarandi póstsendinga:
  1. Bréfa í umslögum eða sambærilegum umbúðum með sýnilegri áritun, allt að 250 g að þyngd án tillits til innihalds. Einkarétturinn fellur þó niður sé burðargjald slíkra sendinga meira en fimmfalt burðargjald fyrir bréf sem falla undir lægsta gjaldflokk samkvæmt gjaldskrá.
  2. Annarra ritaðra orðsendinga eða prentaðra tilkynninga með utanáskrift og sérstöku innihaldi sem eru innan þeirra marka um þyngd og burðargjald er greinir í 1. tölul., þar með talinna póstkorta.


2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað íþróttafélögum, skátafélögum, hjálparsveitum eða öðrum sambærilegum aðilum, öðrum en einkaréttarhafa, póstmeðferð á póstsendingum skv. 1. mgr. 6. gr., enda sé slík starfsemi ekki í atvinnuskyni. Samgönguráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 1998.