Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1208, 123. löggjafarþing 612. mál: stjórn fiskveiða (veiðar krókabáta).
Lög nr. 9 16. mars 1999.

Lög um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 1/1999:
  1. Í stað dagsetningarinnar „30. september“ í 2. mgr. kemur: 31. október.
  2. Í stað orðanna „lögum þessum“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: lögum nr. 1/1999.
  3. Í stað hlutfallstölunnar „25%“ í lokamálslið 3. mgr. kemur: 10%.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðbirgða XXIII í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 1/1999:
  1. Í stað dagsetningarinnar „1. mars 1999“ í 14. mgr. kemur: 15. apríl 1999.
  2. Við ákvæðið bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði þessa bráðabirgðaákvæðis er heimilt að veita báti sem stundað hefur veiðar með tilteknum fjölda sóknardaga og kýs að stunda veiðar með krókaaflamarki frá og með fiskveiðiárinu 2000/2001 leyfi til að stunda veiðar með þorskaflahámarki frá og með 15. apríl 1999 og til upphafs fiskveiðiársins 2000/2001. Úthlutað þorskaflahámark báts þann tíma skal vera hið sama og reiknað krókaaflamark hans samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999. Á tímabilinu skulu að öðru leyti gilda sömu reglur og takmarkanir um veiðar þessara báta og annarra báta sem stunda veiðar með þorskaflahámarki, þar með talið um framsal þorskaflahámarksins. Á fiskveiðiárinu 1998/1999 skal draga frá úthlutuðu þorskaflahámarki þann þorskafla sem bátar skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar hafa aflað fram til 15. apríl 1999. Hafi bátur aflað meira á því tímabili en sem nemur úthlutuðu þorskaflahámarki er honum óheimilt að stunda veiðar fyrr en flutt hefur verið á hann þorskaflahámark sem samsvarar umframveiði. Tilkynna skal Fiskistofu fyrir 15. apríl 1999 hvort óskað er eftir því að nýta heimild skv. 1. málsl. Um ákvörðun aflahlutdeildar þeirra báta, sem kjósa að stunda veiðar með þorskaflahámarki samkvæmt þessari málsgrein, í ýsu, ufsa og steinbít skal fara samkvæmt þeim reglum sem gilda um úthlutun til báta sem stundað hafa veiðar með dagatakmörkunum, sbr. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999.


3. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða XXIV í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 1/1999, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Veiðar krókabáta á krókaaflamarki úr öðrum stofnum en tilgreindum eru ekki bundnar aflatakmörkunum.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XXV í lögunum, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 1/1999:
  1. Í stað orðanna „árlega 4.000 lestum af þorski, að frádregnum 601 lest sem úthlutað er skv. 3. og 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II og úthlutun skv. 2. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: árlega 3.000 lestum af þorski.
  2. Í stað orðanna „og eru“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: og voru þann dag.
  3. Við 1. mgr. bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Endurnýi útgerð bát sem á rétt á úthlutun samkvæmt þessari málsgrein, með nýsmíði eða kaupum á öðrum bát, skal úthluta til þess báts er í staðinn kemur, enda hafi allar aflaheimildir verið fluttar yfir á hinn nýja bát af þeim sem verið er að endurnýja og ekki samið um annað. Tilkynna skal Fiskistofu um slíka endurnýjun og hvorum bátnum skal fylgja úthlutun samkvæmt þessari málsgrein. Jafnframt skal sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta samkvæmt reglum þessarar málsgreinar viðbótaraflaheimildum til báta sem hafa komið í stað annarra á tímabilinu frá 1. september 1997 til gildistöku þessara laga, enda hafi allar aflaheimildir verið fluttar yfir á hinn nýja bát af þeim sem endurnýjaður var og skerðir slík úthlutun ekki rétt annarra samkvæmt málsgreininni.
  4. Í stað orðanna „sem eru minni en 10 brl. eða 10 brúttótonn“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: sem voru minni en 10 brl. eða 10 brúttótonn 1. janúar 1991 eða 1. desember 1998.


5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.