Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1155, 123. löggjafarþing 511. mál: Kennaraháskóli Íslands (doktorsnafnbót, kærumál, gjöld o.fl.).
Lög nr. 42 22. mars 1999.

Lög um breyting á lögum um Kennaraháskóla Íslands, nr. 137/1997.


1. gr.

     3. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur ótímabundið ráðinna kennara.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 2. tölul. 2. mgr. orðast svo: fjórir fulltrúar ótímabundið ráðinna kennara og fjórir til vara kjörnir á almennum fundi þeirra hlutfallsbundinni kosningu til tveggja ára í senn.
  2. 3. mgr. orðast svo:
  3.      Varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa ótímabundið ráðinna kennara.


3. gr.

     Á eftir III. kafla laganna kemur nýr kafli, IV. kafli, Kennsla, framkvæmd prófa, agaviðurlög, með þremur nýjum greinum, svohljóðandi:
     
     a. (10. gr.)
     Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endurtekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt. Háskólaráð skal enn fremur setja almennar reglur um meistara- og doktorsnám, svo og um vörn sérstakra doktorsritgerða. Háskólakennarar standa fyrir prófum, en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglum háskólaráðs. Sameiginleg stjórnsýsla háskólans annast skipulag og framkvæmd prófa.
     
     b. (11. gr.)
     Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Rektor skipar prófdómendur að fengnum tillögum háskóladeildar.
     
     c. (12. gr.)
     Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu, ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans, eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa stúdentinum kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

4. gr.

     Á eftir 10. gr. laganna, sem verður 13. gr., koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (14. gr.)
     Kennaraháskóla Íslands skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Honum er enn fremur heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjaldanna.
     Háskólaráði er heimilt að semja við félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Kennaraháskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.
     
     b. (15. gr.)
     Að fenginni tillögu viðkomandi deildarfundar hefur háskólaráð rétt til þess að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu doktorsnámi eða með vörn doktorsritgerðar. Háskólaráð setur sérstakar reglur um veitingu doktorsnafnbótar, þ.m.t. um doktorsnám og um vörn doktorsritgerða.

5. gr.

     Fyrirsögn IV. kafla laganna, sem verður V. kafli, verður: Rannsóknir og gjaldtaka fyrir þjónustu o.fl.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 1999.