Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1204, 123. löggjafarþing 352. mál: skipulags- og byggingarlög (skipulag miðhálendisins).
Lög nr. 58 22. mars 1999.

Lög um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. Síðari málsliður 2. mgr. orðast svo: Svæðisskipulag skal taka til alls lands þeirra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli, sbr. þó 12. gr. a.
  2. 1. málsl. 4. mgr. orðast svo: Viðkomandi sveitarstjórnir skulu í samráði við Skipulagsstofnun koma á fót samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags, sbr. þó 12. gr. a og 6. mgr. þessarar greinar.


2. gr.

     Á eftir 12. gr. laganna kemur ný grein, 12. gr. a, er orðast svo:
Skipulag miðhálendisins.
     Miðhálendið markast af línu sem mótuð var við gerð svæðisskipulags miðhálendisins af sérstakri samvinnunefnd sem skipuð var samkvæmt heimild í bráðabirgðaákvæði skv. 1. gr. laga nr. 73/1993. Samvinnunefnd miðhálendis eða hlutaðeigandi sveitarfélög geta, eftir að hafa haft samráð sín á milli, gert tillögur til ráðherra um breytingar á markalínu miðhálendisins. Tekur ráðherra afstöðu til slíkra tillagna og ákveður hvort gera skuli breytingar á markalínunni.
     Eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar skipar ráðherra samvinnunefnd miðhálendis til fjögurra ára í senn sem gerir tillögu um svæðisskipulag miðhálendisins. Í nefndinni skulu eiga sæti 12 fulltrúar, einn tilnefndur úr hverju kjördæmi, einn af félagasamtökum um útivist, einn af félagsmálaráðherra og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar og fara með oddaatkvæði og hinn koma úr kjördæmi sem liggur að miðhálendinu en úr sveitarfélagi sem liggur ekki að því. Fulltrúar kjördæma sem liggja að miðhálendinu skulu tilnefndir af sveitarfélögum kjördæmisins sem eiga land að miðhálendinu. Fjórðungssamband Vestfjarða tilnefndir fulltrúa Vestfjarðakjördæmis, Reykjavíkurborg fulltrúa Reykjavíkurkjördæmis og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum tilnefna saman fulltrúa Reykjaneskjördæmis. Ráðherra er heimilt að skipa allt að fjóra áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í nefndina.
     Samvinnunefnd miðhálendis annast gerð svæðisskipulags miðhálendisins og gætir þess að samræmi sé innbyrðis með aðalskipulagstillögum einstakra sveitarfélaga á svæðinu og að samræmi sé milli þeirra og svæðisskipulags miðhálendisins. Nefndin skal leita eftir tillögum hlutaðeigandi sveitarfélaga við mótun tillögu að svæðisskipulagi. Þegar ný samvinnunefnd miðhálendis tekur til starfa skal hún meta hvort nauðsynlegt sé að endurskoða svæðisskipulag miðhálendisins.
     Kostnaður við gerð svæðisskipulags miðhálendisins greiðist úr ríkissjóði.
     Umhverfisráðherra setur samvinnunefnd miðhálendis starfsreglur að fenginni umsögn hennar og Skipulagsstofnunar.

3. gr.

     Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, er orðast svo:
Kynning, auglýsing, samþykkt og staðfesting skipulags miðhálendisins.
     Áður en tillaga að svæðisskipulagi miðhálendis er tekin til formlegrar afgreiðslu í samvinnunefnd miðhálendis skulu tillagan, markmið hennar og forsendur kynnt á almennum fundi eða fundum eða á annan fullnægjandi máta og skal kynningin auglýst á áberandi hátt. Einnig skal tillagan kynnt hlutaðeigandi sveitarstjórnum.
     Að lokinni kynningu skv. 1. mgr. skal samvinnunefnd miðhálendis senda Skipulagsstofnun tillöguna til athugunar. Hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir innan fjögurra vikna frá því að tillagan barst henni skal tillagan auglýst óbreytt.
     Samvinnunefnd miðhálendis skal auglýsa tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis eða breytingu á því á áberandi hátt. Tillagan skal a.m.k. auglýst í dagblaði sem gefið er út á landsvísu og í Lögbirtingablaðinu. Í auglýsingu skal tilgreina hvar tillagan er til sýnis og hve lengi og skal sá tími ekki vera skemmri en fjórar vikur. Tillagan skal liggja frammi hjá Skipulagsstofnun, hlutaðeigandi sveitarfélögum og í öllum kjördæmum landsins. Í auglýsingu skal hverjum þeim aðila sem telur sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skal vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar. Tekið skal fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi gerir athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni.
     Þegar frestur til athugasemda er liðinn skal samvinnunefnd miðhálendis fjalla um tillöguna á nýjan leik. Í þeirri umfjöllun skal taka afstöðu til athugasemda sem borist hafa og þess hvort gera skuli breytingar á tillögunni. Niðurstaða samvinnunefndar miðhálendis skal auglýst. Ákveði samvinnunefnd miðhálendis að breyta tillögunni í grundvallaratriðum skal breytt tillaga auglýst á nýjan leik.
     Þegar samvinnunefnd miðhálendis hefur samþykkt tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis skal hún senda Skipulagsstofnun hana til afgreiðslu, ásamt athugasemdum og umsögn nefndarinnar um þær, innan átta vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir skv. 3. mgr. rann út. Jafnframt skal senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn nefndarinnar um þær.
     Skipulagsstofnun skal innan fjögurra vikna frá því að tillaga barst henni gera tillögu til umhverfisráðherra um staðfestingu svæðisskipulagsins, synjun eða frestun á staðfestingu að öllu leyti eða að hluta.
     Umhverfisráðherra staðfestir svæðisskipulag miðhálendis og skal það auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

4. gr.

     Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, er orðast svo:
Breyting á svæðisskipulagi miðhálendis.
     Nú telur samvinnunefnd miðhálendis að breyta þurfi svæðisskipulagi miðhálendis og fer þá um málsmeðferð skv. 13. gr. a. Telji sveitarstjórn sveitarfélags sem telst til miðhálendis að breyta þurfi svæðisskipulaginu sendir hún samvinnunefnd miðhálendis rökstudda tillögu um breytinguna.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Sé um að ræða aðalskipulagstillögu sem nær til miðhálendisins skal hún að auki auglýst í Lögbirtingablaðinu og liggja frammi hjá Skipulagsstofnun.
  2. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er verður 3. málsl. og orðast svo: Skipulagsstofnun leitar umsagnar samvinnunefndar miðhálendis um tillögur að aðalskipulagi sveitarfélaga innan miðhálendis, sbr. 3. mgr. 12. gr. a.


6. gr.

     Síðari málsliður 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: Tillagan skal einnig auglýst í Lögbirtingablaðinu og liggja frammi hjá Skipulagsstofnun.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. laganna:
  1. 2. tölul. orðast svo: Kostnaður við gerð svæðisskipulags greiðist til helminga af Skipulagsstofnun og hlutaðeigandi sveitarfélögum í samræmi við áðurgerðan samning, sbr. þó 12. gr. a.
  2. 6. tölul. orðast svo: Kostnaður við gerð grunnkorta sem nauðsynleg eru vegna svæðis- og aðalskipulags skiptist til helminga milli Skipulagsstofnunar og hlutaðeigandi sveitarfélags nema í þeim sveitarfélögum sem árlega fá endurgreiddan helming innheimtra skipulagsgjalda, sbr. 3. tölul. og 12. gr. a.


8. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýtt ákvæði sem orðast svo:
     Í fyrsta skipti skal samvinnunefnd miðhálendis skipuð, sbr. 2. mgr. 12. gr. a laganna, þegar eftir gildistöku laga þessara fram til næstu reglulegu sveitarstjórnarkosninga.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1999.