Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 947, 125. löggjafarþing 549. mál: vörugjald af ökutækjum (lækkun gjalda).
Lög nr. 8 6. apríl 2000.

Lög um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.


1. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., skal lagt vörugjald í eftirfarandi gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum:
Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
I 0–2.000 30
II Yfir 2.000 45


2. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „70%“ í 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur: 30%.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Við 1. tölul. 2. mgr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Bifreiðar fatlaðra sem eru sérstaklega búnar til flutnings á þeim, þ.m.t. búnar hjólastólalyftu, og samþykktar af Tryggingastofnun ríkisins.
 2. 3. tölul. 2. mgr. fellur brott.
 3. 4. tölul. 2. mgr. orðast svo: Vörugjald af leigubifreiðum til fólksflutninga skal lagt á samkvæmt eftirfarandi töflu miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum:
  Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
  I 0–2.000 10
  II Yfir 2.000 13
  Skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreið eru að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu.
 4. Við 2. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum skal vera:
  Flokkur Sprengirými aflvélar Gjald í %
  I 0–2.000 10
  II Yfir 2.000 13
  Bifreið sem ber lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins til að leigja bifreiðar eða á fjármögnunarleigu vegna fjármögnunarleigusamnings við bílaleigu. Einungis er heimilt að nýta bifreið samkvæmt þessum tölulið til útleigu hjá þeirri bílaleigu sem skráð er fyrir bifreiðinni. Bílaleiga skal haga bókhaldi sínu þannig að hún geti á hverjum tíma gert grein fyrir akstri þeirra bifreiða sem bera lægra vörugjald samkvæmt þessum tölulið. Tollstjóri getur án fyrirvara óskað eftir gögnum þar um. Sé bifreið notuð til annars er tollstjóra heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna, með 50% álagi. Við mat á því hvort bifreið hafi einungis verið notuð til útleigu skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi. Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um þær bifreiðar sem njóta undanþágu samkvæmt þessum tölulið. Brot á ákvæðum hans varðar því að hin brotlega bílaleiga missir rétt til lækkunar í þrjú ár frá síðasta broti.
 5. 3. mgr. orðast svo:
 6.      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði um þau ökutæki sem falla undir 2. mgr., svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 4. tölul. 2. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 2. mgr. hins vegar ef skilyrðunum er ekki fylgt.


4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi, að frátöldum d-lið 3. gr. laga þessara sem tekur gildi 15. maí 2000.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Endurgreiða skal mismun greidds vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum, sbr. d-lið 3. gr. laga þessara, og tollafgreiddar eru eftir gildistöku þeirra og þess vörugjalds sem borið hefði að greiða ef bifreið hefði verið tollafgreidd eftir 15. maí 2000. Endurgreiðsla skal háð því að skilyrðum d-liðar 3. gr. laga þessara til lækkunar vörugjalds sé fullnægt.

Samþykkt á Alþingi 5. apríl 2000.