Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1087, 125. löggjafarþing 543. mál: veiðieftirlitsgjald (heildarlög).
Lög nr. 33 5. maí 2000.

Lög um veiðieftirlitsgjald.


1. gr.

     Fyrir veitingu almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og veiðileyfa, sem veitt verða á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða, skal greiða 15.000 kr.

2. gr.

     Fiskistofa skal innheimta veiðieftirlitsgjald fyrir veiðiheimildir sem veittar eru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða í samræmi við 2.–5. mgr. Gjaldið skal renna til reksturs veiðieftirlits Fiskistofu.
     Eigendur skipa skulu greiða 242 kr. fyrir hvert þorskígildistonn úthlutaðs eða landaðs afla, sbr. 3. mgr., vegna tegunda sem veiðast alfarið innan lögsögu Íslands og vegna íslenskra deilistofna en 300 kr. vegna tegunda sem veiðast alfarið utan lögsögu Íslands. Gjaldið skal þó aldrei vera lægra en 2.700 kr.
     Þegar um er að ræða tegundir sem úthlutað er til einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar skal gjaldið miðast við hlutdeildarstöðu skips og ákvarðað heildaraflamagn þegar gjaldið er lagt á. Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 1. málsl. skal gjald miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum þar sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum en sæta ákvörðun um heildarafla.
     Gjald samkvæmt þessari grein skal lagt á 1. desember ár hvert. Taki úthlutun veiðiheimilda gildi á tímabilinu 1. desember til 31. ágúst skal gjaldið þó lagt á og greitt fyrir fram við útgáfu tilkynningar um úthlutaðar veiðiheimildir. Gjaldið er ekki afturkræft þótt veiðiheimildir séu ekki nýttar. Eindagi gjaldsins er 15 dögum eftir gjalddaga. Hafi greiðsla ekki borist innan mánaðar frá gjalddaga fellur veiðileyfi skips niður. Lögveð er í skipi fyrir gjaldinu. Sé tekin ákvörðun um að lækka leyfilegan heildarafla einstakra tegunda á tímabilinu 1. desember til 31. ágúst skal Fiskistofa greiða eiganda skips fjárhæð sem nemur grunnfjárhæð skv. 2. mgr. fyrir hvert þorskígildistonn sem aflaheimildir skipsins skerðast um.
     Sjávarútvegsráðuneytið skal reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 1. og 2. málsl. 3. mgr., og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil og greinir í 1. málsl. Þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um. Þegar um er að ræða fisk sem seldur er ferskur erlendis skal miða við 88% af söluverðmæti hans. Varðandi botnfisk að undanskildum karfa skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar.

3. gr.

     Fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar milli skipa skal eigandi þess skips sem flutt er frá greiða 1.800 kr.

4. gr.

     Greiða skal fyrir veru eftirlitsmanna um borð í skipum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
     Útgerð skips skal greiða fæði veiðieftirlitsmanna og sjá þeim endurgjaldslaust fyrir aðstöðu meðan þeir stunda eftirlitsstörf um borð í skipum sem stunda veiðar á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða.
     Auk kostnaðar skv. 2. mgr. skulu útgerðir fullvinnsluskipa greiða 14.200 kr. vegna eftirlits fyrir hvern dag eða hluta dags sem eftirlitsmaður er um borð.
     Hafi stjórnvöld, á grundvelli milliríkjasamnings eða með öðrum skuldbindandi hætti, samið um að eftirlit með veiðum fiskiskipa úr stofni sem alfarið veiðist utan lögsögu Íslands skuli vera með þeim hætti að um borð í hverju fiskiskipi skuli starfa eftirlitsmaður skulu útgerðir skipa er veiðar stunda úr þeim stofni, auk kostnaðar skv. 2. mgr., greiða 15.000 kr. fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar. Verði samið um minna eftirlit, þannig að veiðieftirlitsmaður verði við eftirlitsstörf um borð í hluta skipa er stunda veiðar úr viðkomandi stofni, skal hvert skip greiða gjald, fyrir hvern dag er skipið stundar þær veiðar, er nemur sama hlutfalli af daggjaldinu skv. 1. málsl. og umsömdu hlutfalli skipa með eftirlitsmenn um borð. Skal gjaldið greitt af öllum skipum er veiðarnar stunda, án tillits til veru eftirlitsmanna um borð í einstökum skipum.
     Gjald vegna eftirlitsmanna greiðist Fiskistofu mánaðarlega eftir á, fyrir eftirlit síðastliðins mánaðar.

5. gr.

     Sé ákveðið að tiltekin skip skuli búin staðsetningar- og sendingarbúnaði sem veitir sjálfvirkt upplýsingar um staðsetningu þeirra til stöðvar í landi skulu viðkomandi útgerðir kosta nauðsynlegan búnað í skip sín og greiða kostnað við sjálfvirkar sendingar upplýsinga um staðsetningu.

6. gr.

     Sjávarútvegsráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd þessara laga með reglugerð.

7. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 129 28. desember 1989, um veiðieftirlitsgjald.

Samþykkt á Alþingi 27. apríl 2000.