Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1349, 125. löggjafarþing 321. mál: þjóðlendur (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð).
Lög nr. 65 22. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.


1. gr.

     Á eftir 6. mgr. 3. gr. laganna kemur ný málsgrein, 7. mgr., er hljóðar svo:
     Þjóðlendur skulu undanþegnar öllum sköttum og gjöldum.

2. gr.

     Í stað 5. og 6. mgr. 6. gr. laganna kemur ný málsgrein, 5. mgr., er hljóðar svo:
     Formaður óbyggðanefndar skal vera í fullu starfi sem framkvæmdastjóri nefndarinnar og hafa sömu lögkjör og dómstjórinn í Reykjavík. Óbyggðanefnd er að öðru leyti heimilt að ráða starfsfólk sér til aðstoðar og skapa sér skrifstofuaðstöðu í samráði við forsætisráðherra.

3. gr.

     Í stað 2. málsl. 8. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir er hljóða svo: Skal hún ákveða hvaða landsvæði tekið er til meðferðar hverju sinni. Nefndin getur ákveðið síðar að minnka eða stækka það svæði. Nefndinni er heimilt að hafa til meðferðar fleiri en eitt svæði á sama tíma.

4. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Í stað 1. og 2. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar skal hún tilkynna fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr. 11. gr., ákvörðun sína og veita honum minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu.
         Þegar kröfulýsing ríkisins liggur fyrir skal óbyggðanefnd gefa út tilkynningu og láta birta í Lögbirtingablaði. Skal þar skorað á þá er telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á því svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan minnst þriggja en mest sex mánaða frá útgáfudegi þess tölublaðs sem tilkynningin er birt í. Jafnframt skal nefndin láta þinglýsa yfirlýsingu þessa efnis á þær eignir sem skráðar eru í þinglýsingabók og eru á viðkomandi svæði. Þá skal útdráttur úr efni tilkynningar birtur með auglýsingu í dagblaði.
         Óbyggðanefnd getur samþykkt að veita aðila sem þess óskar viðbótarfrest.
  3. Í stað orðanna „1. og 3. mgr.“ í fyrri málslið 4. mgr., er verður 5. mgr., kemur: 1.–4. mgr.


5. gr.

     12. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Að liðnum kröfulýsingarfresti skv. 2. mgr. 10. gr. skal óbyggðanefnd gera yfirlit yfir lýstar kröfur á viðkomandi landsvæði og láta færa þær inn á uppdrátt. Skal yfirlit þetta ásamt uppdrætti (kröfulínukorti) liggja frammi á skrifstofu sýslumanns eða sýslumanna í því eða þeim umdæmum sem svæðið á undir í að minnsta kosti einn mánuð. Athugasemdir skulu hafa borist óbyggðanefnd innan sjö daga frá þeim degi þegar kynningu lauk.

6. gr.

     2. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     17. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Kostnaður vegna starfa óbyggðanefndar samkvæmt lögum þessum greiðist úr ríkissjóði. Auk kostnaðar við rekstur nefndarinnar fellur hér undir nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni.
     Óbyggðanefnd úrskurðar um kröfur aðila vegna kostnaðar samkvæmt síðari málslið 1. mgr. Við mat á því hvort um nauðsynlegan kostnað hafi verið að ræða er nefndinni heimilt að líta til þess hvort aðilar, sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta, hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna og annarra sérfræðinga, enda rekist hagsmunir ekki á. Við mat á fjárhæð kostnaðar skal enn fremur litið til þess hvað telja má sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli.
     Nefndinni er heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks.
     Fullnægja má ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um málskostnað með aðför.

8. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 18. gr. laganna:
  1. 1. mgr. fellur brott.
  2. Í stað „1. mgr.“ í síðari málslið 3. mgr. kemur: 2. mgr.


9. gr.

     Í stað „2. mgr.“ í fyrri málslið 19. gr. laganna kemur: 1. mgr.

10. gr.

     Á eftir 20. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
     Forsætisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um starfshætti og málsmeðferð óbyggðanefndar, þ.m.t. frágang kröfulýsinga, uppdrátta og annarra gagna málsaðila, og tæknilega útfærslu á markalínum.

11. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
     Um kostnað vegna hagsmunagæslu fyrir óbyggðanefnd sem fellur til fyrir gildistöku laga þessara fer eftir ákvæðum 17. gr. laganna eins og henni er breytt með 7. gr. laga þessara.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. maí 2000.