Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1338, 125. löggjafarþing 635. mál: varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (hættumatsnefnd).
Lög nr. 71 20. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 49/1997, um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sveitarstjórnir í sveitarfélögum þar sem ofanflóð hafa fallið á byggð eða nærri henni eða hætta er talin á slíku skulu láta meta hættu á ofanflóðum.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Beiðni sveitarstjórnar um gerð hættumats skal berast umhverfisráðherra og skipar hann fjögurra manna nefnd sem stýrir gerð hættumats í viðkomandi sveitarfélagi, hættumatsnefnd. Skulu tveir fulltrúar skipaðir samkvæmt tilnefningu frá sveitarstjórn, en ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar í nefndina og skal annar þeirra vera formaður og hafa oddaatkvæði falli atkvæði jöfn. Hættumatsnefnd ákveður í samráði við sveitarstjórn til hvaða svæða hættumat skuli ná. Hættumatsnefnd kynnir tillögur að endanlegu hættumati í samráði við sveitarstjórn þegar þær berast frá Veðurstofu Íslands og gengur frá hættumati til staðfestingar ráðherra. Ráðherra setur reglur um skipan og starf hættumatsnefndar.
  4. 2. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo:
  5.      Veðurstofa Íslands annast gerð hættumats á grundvelli sérfræðilegrar þekkingar á eðli og afleiðingum ofanflóða að beiðni hættumatsnefndar og skal gerður um það samningur.


2. gr.

     1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats, þ.m.t. kostnað við starfsemi hættumatsnefnda skv. 4. gr. og við gerð uppdrátta skv. 6. gr.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.