Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1343, 125. löggjafarþing 250. mál: loftferðir (gjaldtökuheimildir o.fl.).
Lög nr. 74 20. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 60/1998, um loftferðir.


1. gr.

     Við 10. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Sérhver skráður umráðandi loftfars samkvæmt loftfaraskrá skal árlega greiða til Flugmálastjórnar eftirlitsgjald sem miðast skal við skráðan hámarksflugtaksmassa loftfarsins. Skulu árleg eftirlitsgjöld vera:
  1. 11.400 kr. fyrir vélknúin loftför með skráðan hámarksflugtaksmassa allt að 2.700 kg og auk þess 7,80 kr. fyrir hvert kg,
  2. 17.000 kr. fyrir vélknúin loftför með skráðan hámarksflugtaksmassa 2.701–6.700 kg og auk þess 6,50 kr. fyrir hvert kg,
  3. 80.000 kr. fyrir vélknúin loftför með skráðan hámarksflugtaksmassa 6.701–50.000 kg og auk þess 7,00 kr. fyrir hvert kg,
  4. 400.000 kr. fyrir vélknúin loftför með skráðan hámarksflugtaksmassa yfir 50.000 kg og auk þess 4,00 kr. fyrir hvert kg og
  5. fyrir loftför sem ekki eru vélknúin 25% af gjaldi fyrir vélknúin loftför.

     Gjalddagar eftirlitsgjalda skulu vera tveir á ári. Hinn 15. mars skal greitt fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní og 15. september skal greitt fyrir tímabilið frá 1. júlí til 31. desember.
     Gjöld samkvæmt þessari grein má heimta með fjárnámi.

2. gr.

     Á eftir 71. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (71. gr. a.)
     Í innanlandsflugi og millilandaflugi skulu lendingargjöld greidd af umráðendum loftfara til Flugmálastjórnar fyrir afnot loftfara af þeim flugvöllum þar sem flugupplýsingaþjónusta er veitt.
     Fyrir lendingu loftfars í innanlandsflugi með 2.000 kg hámarksflugtaksmassa eða meiri skal greiða 238 kr. fyrir hver byrjuð 1.000 kg af massa þess fyrir hverja lendingu á flugvöllum sem veita flugupplýsingaþjónustu.
     Fyrir hverja lendingu loftfars í millilandaflugi á flugvöllum utan Reykjavíkur skal greiða gjald samsvarandi 7,05 Bandaríkjadölum fyrir hver byrjuð 1.000 kg af hámarksflugtaksmassa þess, en samsvarandi 10 Bandaríkjadölum fyrir hver byrjuð 1.000 kg af hámarksflugtaksmassa loftfars fyrir hverja lendingu í Reykjavík. Stæðisgjöld skulu innheimt samkvæmt ákvæðum í gjaldskrá sem ráðherra setur.
     Umráðendur loftfara skulu greiða leiðarflugsgjöld til Flugmálastjórnar fyrir flugumferðar- og flugleiðsöguþjónustu, þ.m.t. fjarskiptaþjónustu, veðurþjónustu, leitar- og björgunarþjónustu og flugupplýsingaþjónustu á flugleiðum í innanlandsflugi, sem skulu reiknast þannig í heilum krónum fyrir hvert flug með blindflugsheimild eða á blindflugsleiðum:
     Leiðarflugsgjald = 16,5 kr./km × vegalengd í km × [sqrt] (hámarksflugtaksþyngd flugvélar í tonnum/50).
     Leitar- og björgunarflug, prófflug eftir viðgerð, flug með þjóðhöfðingja og flug loftfara íslenska ríkisins skulu undanþegin gjaldskyldu samkvæmt grein þessari.
     Gjalddagar skulu vera 15. hvers mánaðar vegna gjaldskyldra lendinga og veittrar leiðarflugsþjónustu í þar næsta mánuði á undan.
     Flugmálastjórn er heimilt að krefjast greiðslu gjalda samkvæmt grein þessari fyrir brottför loftfars eða krefjast tryggingar fyrir greiðslu gjalda.
     
     b. (71. gr. b.)
     Umráðandi loftfars skal greiða sérstakt gjald, vopnaleitargjald, þar sem slík leit fer fram, til Flugmálastjórnar Íslands. Gjaldið greiðist fyrir hvern mann sem ferðast með loftfari frá Íslandi til annarra landa. Fjárhæð gjaldsins skal vera 125 kr. fyrir hvern farþega. Fyrir farþega á aldrinum tveggja til tólf ára skal þó greiða 65 kr.
     Undanþegin gjaldskyldu eru börn yngri en tveggja ára, skráðar áhafnir loftfara, þeir sem viðkomu hafa á Íslandi samkvæmt farseðli milli annarra landa og Norður-Ameríku og þeir sem ferðast með loftförum varnarliðs Bandaríkja Norður-Ameríku hér á landi.
     Vopnaleitargjald fyrir farþega sem ferðast með loftförum sem skráð eru erlendis og öllum loftförum sem ekki er flogið á áætlunarleiðum skal greiða fyrir brottför loftfars. Heimilt er að veita gjaldfrest til 15. dags næsta almanaksmánaðar eftir brottför.
     Vopnaleitargjald fyrir farþega sem ferðast í áætlunarflugi á viðurkenndum áætlunarleiðum skal greiða eigi síðar en 15. dag næsta almanaksmánaðar eftir brottför.
     Ráðherra er heimilt að setja með gjaldskrá nánari reglur um innheimtu gjaldsins.

3. gr.

     Við 81. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Flugrekendur skulu árlega greiða til Flugmálastjórnar eftirlitsgjald sem miðast skal við fjölda þeirra loftfara sem hlutaðeigandi rekur í starfsemi sinni og skráðan hámarksflugtaksmassa þeirra. Skulu árleg eftirlitsgjöld flugrekenda vera sem hér segir:
  1. 25.000 kr. fyrir hvert loftfar undir 2.700 kg,
  2. 45.000 kr. fyrir hvert loftfar 2.701–6.700 kg,
  3. 120.000 kr. fyrir hvert loftfar 6.701–50.000 kg og
  4. 180.000 kr. fyrir hvert loftfar yfir 50.000 kg.

     Gjald við fyrstu útgáfu flugrekandaskírteinis (AOC) er það sama og árlegt eftirlitsgjald og miðast þá við fyrirhugaðan rekstur sem sótt er um hvað varðar fjölda og hámarksflugtaksmassa loftfara.
     Gjalddagar eftirlitsgjaldsins skulu vera tveir á ári, 1. maí og 1. nóvember, og skal þá greitt fyrir næstliðið hálft ár eða hluta úr ári sem flugrekandi hafði gilt flugrekstrarleyfi og reiknast þá hlutfallslega fyrir hvern byrjaðan mánuð sem hvert loftfar var í rekstri hjá flugrekanda á tímabilinu.

4. gr.

     Á undan orðunum „að ákvæði 106. gr. eigi við“ í lokamálslið 2. mgr. 105. gr. laganna kemur: eða.

5. gr.

     Á eftir 3. mgr. 139. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Tekjur Flugmálastjórnar skv. 10., 71. og 71. gr. a, 71. gr. b, 81. gr. og 1. og 2. mgr. greinar þessarar skulu færast sem sértekjur, sbr. 12. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.
     Ráðherra skal heimilt að útfæra nánar gjaldtökuheimildir skv. 4. mgr. í gjaldskrám sem hann setur.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.