Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1313, 125. löggjafarþing 556. mál: vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum (hreindýr).
Lög nr. 100 22. maí 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.


1. gr.

     14. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Hreindýr.
     Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar úr hreindýrastofninum, enda telji veiðistjóraembættið að stofninn þoli veiði og að æskilegt sé að veiða úr honum. Ráðherra ákveður árlega fjölda þeirra dýra sem fella má, eftir aldri, kyni og veiðisvæðum, að fengnum tillögum hreindýraráðs og veiðistjóraembættisins og birtir auglýsingu þar að lútandi í Lögbirtingablaði. Eignarréttur á landi þar sem hreindýr halda sig veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.
     Veiðar á hreindýrum eru heimilar öllum er til þess hafa leyfi samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim. Af hverju felldu hreindýri skal greiða til hreindýraráðs sérstakt leyfisgjald sem ráðherra ákveður árlega og skal gjaldinu varið til reksturs ráðsins, framkvæmda á þess vegum og vöktunar.
     Umhverfisráðherra skipar fimm menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar en aðrir nefndarmenn skulu skipaðir með eftirfarandi hætti: Búnaðarsamband Austurlands, Búnaðarsamband Austur-Skaftafellssýslu og Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi tilnefna einn fulltrúa hvert og veiðistjóri einn og skal hann vera líffræðingur eða með sambærilega menntun. Varamenn skulu tilnefndir með sama hætti. Veiðistjóra og fulltrúa Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að sitja fundi hreindýraráðs og hafa þá málfrelsi og tillögurétt.
     Hlutverk hreindýraráðs er:
  1. að vera umhverfisráherra til ráðgjafar um allt er viðkemur vernd, veiðum og nýtingu hreindýrastofnsins á Austurlandi,
  2. að sjá um sölu veiðileyfa og er ráðinu óheimilt að framselja þá heimild,
  3. að gera tillögur um árlegan veiðikvóta og skiptingu hans milli veiðisvæða í samráði við veiðistjóra,
  4. að sjá um eftirlit með hreindýraveiðum og ráða til þess eftirlitsmenn,
  5. að skipta arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra.

     Um vanhæfi þeirra sem sitja í hreindýraráði og annast eftirlit með hreindýraveiðum gilda vanhæfisreglur sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Verði hreindýraráð eða eftirlitsmenn á þess vegum varir við að brotið sé gegn ákvæðum laganna og reglugerðum um hreindýraveiðar er heimilt að svipta viðkomandi veiðileyfi og leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
     Ráðherra setur að fengnum tillögum hreindýraráðs og veiðistjóra nánari reglur um framkvæmdina, m.a. um veiðieftirlitsmenn og skiptingu arðs af hreindýraveiðum.
     Náttúrustofa Austurlands annast vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og gerir Náttúrufræðistofnun Íslands grein fyrir niðurstöðum, sbr. lög nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Af hverju felldu dýri skal greiða sérstakt gjald til þess að standa undir vöktun stofnsins og ákveður ráðherra upphæð gjaldsins, sbr. 2. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Umhverfisráðherra skal setja reglugerð um stjórn hreindýraveiða og skiptingu arðs af þeim sem öðlist gildi eigi síðar en 20. júlí árið 2000.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 2000.