Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 557, 126. löggjafarþing 232. mál: greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (álagningarstofnar).
Lög nr. 158 20. desember 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


1. gr.

     5. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:
Gjaldskyldir aðilar, álagningarstofn og álagt gjald.
     Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
  1. Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir skulu greiða 0,01156% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr.
  2. Vátryggingafélög skulu greiða 0,26596% af bókfærðum frumtryggingaiðgjöldum og 0,04873% af bókfærðum fengnum endurtryggingaiðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr. Vegna söfnunarlíftrygginga greiðist þó eftirlitsgjald sem nemur 0,00615% af nettómismun iðgjaldaskuldar að frádregnum hluta endurtryggjenda í iðgjaldaskuldinni.
  3. Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,04581% af því iðgjaldamagni sem miðlað er á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 200.000 kr.
  4. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu greiða 0,07826% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Verðbréfasjóðir skulu greiða 0,01039% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr. Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu greiða 0,08031% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 150.000 kr.
  5. Kauphallir og aðrir skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250.000 kr.
  6. Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00596% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 150.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 300.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna og 600.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við fjölda virkra sjóðfélaga.
  7. Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,76297% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr.
  8. Innlánsdeildir samvinnufélaga og Póstgíróstofa Íslandspósts hf. skulu greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
  9. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins skal greiða 0,01156% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr. Húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs skal greiða 0,00031% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 250.000 kr. Kvótaþing skal greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.
  10. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta skal greiða fastagjald sem nemur 150.000 kr.

     Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
     Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2001.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.