Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 623, 126. löggjafarþing 368. mál: verðbréfaviðskipti, rafræn eignarskráning verðbréfa og hlutafélög (safnskráning).
Lög nr. 164 21. desember 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti, lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og lögum nr. 2/1995, um hlutafélög.


Breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 13/1996.

1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., svohljóðandi:
  1. Safnskráning: Þjónusta verðbréfafyrirtækis sem felur í sér að fyrirtækinu er heimilt að halda utan um eignir viðskiptamanna sinna á eigin reikningi (safnreikningi) og taka við greiðslum fyrir hönd viðskiptamanna sinna frá einstökum útgefendum verðbréfa.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skal halda fjármunum og verðbréfum viðskiptamanna tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Skulu fjármunir viðskiptamanns varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi.
  3. Við bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  4.      Verðbréfafyrirtæki er heimilt að varðveita verðbréf í eigu viðskiptamanna sinna á safnreikningi (safnskráning), enda hafi fyrirtækið gert viðskiptamanni grein fyrir réttaráhrifum þess og hann veitt samþykki sitt. Verðbréfafyrirtæki ber að halda skrá yfir eignarhlut hvers viðskiptamanns fyrir sig.
         Komi til þess að bú verðbréfafyrirtækis sé tekið til gjaldþrotaskipta eða farið sé fram á greiðslustöðvun, slit fyrirtækisins eða sambærilegar ráðstafanir getur viðskiptamaður á grundvelli skrárinnar skv. 5. mgr. tekið verðbréf sín út af safnreikningi, enda sé ekki ágreiningur um eignarhald viðskiptamannsins.
         Ráðherra getur sett reglugerð um safnskráningu, m.a. um sviptingu heimildar til að skrá verðbréf á safnreikning skv. 5. mgr. og auðkenningu safnreiknings, þar á meðal upplýsingar um fjölda eigenda á safnreikningi.


Breyting á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997.

3. gr.

     1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
     Á reikning í verðbréfamiðstöð skal eignarskrá rafbréf reikningseiganda. Á hvern reikning skal skrá reikningsstofnun eða reikningsstofnanir sem hafa heimild til eignarskráningar á reikninginn. Reikningsstofnun er heimilt að annast safnskráningu á reikning í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Ef reikningur er safnreikningur skal hann auðkenndur sem slíkur. Verðbréfamiðstöð skal gefa út reikningsyfirlit um þau réttindi sem þar eru skráð.

Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995.

4. gr.

     2. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
     Í hlutaskrá skulu hlutir eða hlutabréf skráð í númeraröð og skal fyrir sérhvern hlut eða hlutabréf tekið fram um nafn eiganda, kennitölu og heimilisfang eða þeirra sem heimild hafa til safnskráningar, ef við á, samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Gildistaka.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. desember 2000.