Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 547, 126. löggjafarþing 74. mál: matvæli (eftirlit, gjaldskrá o.fl.).
Lög nr. 169 21. desember 2000.

Lög um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
  1. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Hlutaðeigandi ráðherra er heimilt að setja reglur um að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla skuli sækja námskeið um meðferð matvæla þar sem sérstök áhersla er lögð á innra eftirlit og öryggi matvæla.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Eftirlitsaðilar skulu einnig með öðrum hætti vinna að því að fyrirbyggja að matvæli geti valdið heilsutjóni og skulu grípa til viðeigandi ráðstafana ef vart verður við matarsjúkdóma eða smithættu.


2. gr.

     Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Eftirlitsaðilar og þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim skulu tilkynna til hlutaðeigandi stofnana, sem eru ráðuneytum til ráðgjafar samkvæmt ákvæðum III. kafla laganna, ef gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum eða aðrar ástæður benda til hættu á heilsutjóni vegna neyslu matvæla. Sama tilkynningarskylda á við um þá sem starfa við rannsóknir og greiningu á matvælum ef þeir greina í matvælum örverur sem geta valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Gjaldtaka Hollustuverndar ríkisins, Fiskistofu og yfirdýralæknis skal taka mið af kostnaði við undirbúning, ferð, skoðun, frágang, sýnatöku og rannsókn sýna vegna matvælaeftirlits.
  2. Í stað orðsins „heilbrigðiseftirlit“ í 2. mgr. kemur: mengunarvarnir.


4. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Hlutaðeigandi ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða skv. VIII. og IX. kafla laganna, svo og vegna skráningar og móttöku umsókna um heimild til notkunar aukefna og annarra slíkra leyfisveitinga. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

5. gr.

     Við 27. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Gjaldtaka skal taka mið af kostnaði við rannsókn og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.