Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 548, 126. löggjafarþing 75. mál: landmælingar og kortagerð (stjórn og verkefni Landmælinga Íslands).
Lög nr. 171 21. desember 2000.

Lög um breyting á lögum um landmælingar og kortagerð, nr. 95/1997, með síðari breytingum.


1. gr.

     3. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

2. gr.

     4. gr. laganna, er verður 3. gr., orðast svo:
     Ráðherra skipar forstjóra Landmælinga Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa þekkingu á starfssviði stofnunarinnar og reynslu af stjórnun.
     Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna, er verður 4. gr.:
  1. 4. tölul. orðast svo: Fjarkönnun. Í því felst öflun, úrvinnsla og miðlun gagna á sviði loft- og gervitunglamynda.
  2. 6. tölul. orðast svo: Kortlagning og miðlun upplýsinga um örnefni í samráði við Örnefnastofnun Íslands.
  3. 7. tölul. orðast svo: Skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi sem eru í eigu íslenska ríkisins, þ.m.t. mælingar, punktalýsingar, prentuð kort, stafræn kort, hæðarlíkön, loftmyndir og gervitunglamyndir.
  4. 8. tölul. orðast svo: Önnur verkefni sem tengjast landmælingum og kortagerð eftir því sem ráðherra ákveður í reglugerð.


4. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
     Ráðherra setur að fengnum tillögum Landmælinga Íslands og að höfðu samráði við Fasteignamat ríkisins reglugerð um vottun mælingamanna sem sjá um að mæla eignamörk landa og lóða. Til að öðlast vottun sem mælingamaður skal viðkomandi hafa mælingafræðilega menntun eða reynslu af störfum við landmælingar. Í reglugerðinni skal kveðið á um menntun, réttindi og skyldur mælingamanna og um eftirlit Landmælinga Íslands með vottun þeirra og störfum.

5. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „5. gr.“ í 6. gr. laganna kemur: 4. gr.

6. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Landmælingar Íslands afla sér tekna á eftirfarandi hátt:
  1. Með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins.
  2. Með sölu á sérhæfðri þjónustu á sviði landupplýsinga, loftmynda og fjarkönnunar, landmælinga og kortagerðar sem viðskiptavinir stofnunarinnar óska sérstaklega eftir.
  3. Með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna, svo sem ljósritunar.

     Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skv. 2. og 3. tölul. skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sem nemur þeim kostnaði. Sé um að ræða gjaldtöku þar sem Landmælingar Íslands eru í samkeppnisrekstri skal stofnunin setja gjaldskrána og gefa hana út.
     Kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands skal að öðru leyti greiðast af framlögum sem ákvörðuð eru í fjárlögum.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. desember 2000.