Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1147, 126. löggjafarþing 448. mál: samvinnufélög (rekstrarumgjörð).
Lög nr. 22 7. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum (rekstrarumgjörð).


1. gr.

     Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Þó mega hlutafélög, sem stofnuð verða skv. XII. kafla laganna, halda orðinu kaupfélagi óstyttu í nafni sínu.

2. gr.

     Lokamálsliður 1. mgr. 25. gr. laganna orðast svo: Upplýsingaskyldan á einnig við um samband félagsins við félög sem það er eigandi að með þeim hætti að það getur haft úrslitaáhrif á töku ákvarðana í þeim.

3. gr.

     Við 38. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Samvinnufélögum er með ákvörðun félagsfundar heimilt að hækka séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins á þann hátt að yfirfæra fjárhæðir sem eftir standa þegar félagið hefur ráðstafað hagnaði í samræmi við ákvæði 54. gr., um tillög í varasjóði og aðra sjóði samkvæmt samþykktum félagsins, eða fjárhæðir sem komið hafa fram vegna færslna í endurmatsreikning samkvæmt lögum um ársreikninga. Tillaga um hækkun þarf samþykki 2/ 3 hluta greiddra atkvæða á félagsfundi. Sé tillagan samþykkt á félagsfundi skal boða hluthafa í B-deild félagsins á fund til að fjalla um tillöguna. Hluthafar sem ráða yfir meiri hluta í B-deild geta þar hafnað ákvörðun félagsfundar í A-deild. Ákvörðunin skal jafnframt uppfylla frekari fyrirmæli samþykkta félagsins um breytingar á samþykktum þess. Hækkun á séreignarhlutum félagsmanna telst til A-deildar en einnig er heimilt að ákveða í samþykktum að hækkun á séreignarhlutum skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins. Við hækkun á séreignarhlutum A- og B-deildar skal gætt ákvæða um fjárhæð varasjóðs.
     Við ákvörðun um hækkun og afhendingu hluta í B-deild skal jafnframt kveða á um hvert skuli vera skiptahlutfall á hlutum í A-deild stofnsjóðs og hlutum í B-deild. Jafnframt skal kveðið á um hvernig innbyrðis skiptingu hækkunar milli félagsaðila í A-deild stofnsjóðs skuli háttað, þ.e. að hvaða marki skiptingin fylgi hlutfallsskiptingu og þróun stofnsjóðseignar eða skiptist með öðrum hætti.
     Ákvæði 7. mgr. 61. gr. og 2. og 3. mgr. 61. gr. a gilda um ákvörðun samkvæmt þessari grein.
     Heimilt er að ákveða í samþykktum að útborgun á séreignarhlutum skv. 1.–3. mgr. skuli afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins eða skuldabréfum. Tilgreina skal í samþykktunum frá hvaða tímamörkum slík ákvæði geti fyrst komið til framkvæmda.

4. gr.

     3. mgr. 41. gr. laganna orðast svo:
     Aðalfundur getur ákveðið að greiða félagsmönnum út arð með peningum eða öðrum verðmætum í stað þess að leggja hann í stofnsjóð. Gjalddagi arðs skal ekki vera síðar en sex mánuðum eftir að ákvörðun um úthlutun hans hefur verið tekin.

5. gr.

     52. gr. laganna orðast svo:
     Félagsfundur getur samkvæmt tillögu stjórnar ákveðið með 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða að lækka A-deild og/eða B-deild stofnsjóðs félagsins. Ef félagsfundur samþykkir slíka tillögu skal boða hluthafa í B-deild félagsins á fund til að fjalla um tillöguna. Hluthafar sem ráða yfir meiri hluta í B-deild geta þar hafnað ákvörðun félagsfundar í A-deild. Í fundarboði fyrir félagsfund eða fund hluthafa í B-deild skal m.a. greina frá ástæðum lækkunarinnar og hvernig hún á að fara fram. Í ákvörðuninni skal taka fram þá fjárhæð, sem lækka skal stofnsjóðinn um, ásamt upplýsingum um hvernig skuli ráðstafa lækkunarfénu en því má ráðstafa þannig:
 1. Til jöfnunar taps sem verður ekki jafnað á annan hátt. Eigi má þó lækka B-deild stofnsjóðs til jöfnunar taps fyrr en A-deild stofnsjóðs er tæmd.
 2. Til greiðslu til félagsmanna.
 3. Til greiðslu til hluthafa í B-deild stofnsjóðs.
 4. Til afskriftar á greiðsluskyldu í stofnsjóði félagsins.

     Ef ráðstafa á lækkunarfjárhæðinni að nokkru eða öllu leyti í þeim tilgangi er greinir í 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr. skal birta tvisvar í Lögbirtingablaðinu áskorun til kröfuhafa félagsins um að tilkynna kröfur sínar til félagsstjórnar innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunarinnar. Óheimilt er að framkvæma lækkun fyrr en lýstar kröfur hafa verið greiddar eða fullnægjandi tryggingar settar. Rísi ágreiningur milli félags og kröfuhafa um það hvort framboðin trygging sé nægileg geta hlutaðeigandi, innan tveggja vikna frá því að tryggingin er boðin fram, lagt málið fyrir héraðsdóm á heimilisvarnarþingi félagsins. Með tilkynningunni um lækkun skal, auk nauðsynlegra sönnunargagna, fylgja yfirlýsing, undirrituð af stjórn félags og endurskoðendum, um að skuldir félagsins séu því ekki til fyrirstöðu að lækkunin geti farið fram.
     Sanni félag að það eigi fyrir skuldum er ráðherra heimilt að veita því undanþágu frá innköllunarskyldu skv. 2. mgr. ef ljóst þykir að kröfuhafar félagsins bíði ekki tjón af því.
     Eftir lækkunina skulu vera fyrir hendi eignir er svara a.m.k. til stofnsjóðs félagsins og lögmæltra varasjóða.
     Ef ráðstafa á allri lækkunarfjárhæðinni til jöfnunar á tapi skal strax tilkynnt til samvinnufélagaskrár að lækkun hafi farið fram. Tilkynning um lækkun, ef ráðstafa á lækkunarfjárhæðinni að nokkru leyti eða öllu skv. 2., 3. og 4. tölul. 1. mgr., skal berast samvinnufélagaskrá innan árs frá því að ákvörðun var tekin, ella fellur hún úr gildi.

6. gr.

     Á undan 61. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (61. gr.)
     Að tillögu félagsstjórnar getur félagsfundur með 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða samþykkt að breyta samvinnufélagi í hlutafélag. Boða skal til fundarins með minnst tveggja vikna fyrirvara og viku fyrir félagsfund skulu tillaga, áætlun um breytingu og fylgiskjöl liggja frammi á skrifstofu félagsins og send sérhverjum félagsmanni sem þess óskar.
     Þegar stjórn hefur samþykkt tillögu um breytinguna er óheimilt að veita nýjum félagsmönnum inngöngu í félagið og að greiða úr stofnsjóði til félagsmanna frá dagsetningu tillögunnar þar til hlutafélagið hefur verið skráð eða tillaga felld. Félagsfund skal halda innan mánaðar frá því að stjórn hefur tekið ákvörðun.
     Á fundinum skal lögð fram áætlun um breytingu samvinnufélags. Í áætluninni skal koma skýrlega fram hvort hlutafélagið skuli hafa einhver einkenni samvinnufélags að því er varðar rétt manna til inngöngu, atkvæðisrétt, arðgreiðslur og tengsl þeirra við viðskiptaþátttöku félagsmanns í félaginu, skilgreiningu á tilgangi og viðskiptaþátttöku í félaginu, rétt sem fylgi búsetu á félagssvæði eða öðrum skilgreiningum, réttindi við slit o.fl. Í áætluninni skal ávallt fjallað um neðangreind atriði:
 1. Greinargerð stjórnar þar sem gerð er grein fyrir röksemdum og ástæðum fyrir breytingu á rekstrarformi.
 2. Við hvaða tímamark skuli miða stofnun hlutafélagsins og slit samvinnufélagsins en það tímamark skal ekki vera síðar en mánuði eftir samþykkt tillögu.
 3. Fjárhæð hlutafjár sem verði gagngjald fyrir endurmetinn stofnsjóð A-deildar og samvinnuhlutabréf B-deildar og reglu um skiptingu þess á milli félagsmanna.
 4. Hvort í félaginu skuli vera mismunandi flokkar hlutafjár.
 5. Hvort eða hversu mikill atkvæðisréttur skuli fylgja hlutum í hverjum flokki og jafnframt hvort önnur réttindi, svo sem réttur til arðgreiðslna eða úthlutun eigna við slit, skuli vera mismunandi á milli flokka eða ekki.
 6. Hvort einhverjir félagsmenn njóti sérstakra réttinda í hlutafélaginu.
 7. Reglur um hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs, sbr. 38. gr.
 8. Hvenær hlutabréf skuli afhent í skiptum fyrir stofnsjóðsinneign eða samvinnuhlutabréf.
 9. Hvort einhverjir stjórnarmenn, framkvæmdastjórar og fulltrúanefndarmenn, matsmenn eða eftirlitsaðilar njóti einhverra réttinda í hlutafélaginu.

     Staðfest félagaskrá félagsins þar sem séreignarhlutur hvers félagsmanns er skilgreindur, drög að samþykktum hlutafélagsins í samræmi við lög um hlutafélög og sérfræðiskýrsla ásamt gögnum skulu einnig fylgja áætluninni sem fylgiskjöl.
     Hafi verið gefin út samvinnuhlutabréf í félaginu sem ætlunin er að breyta í hlutafélag skal á fundinum enn fremur tekin afstaða til eftirfarandi:
 1. Réttinda hluthafa í B-deild félagsins í hinu nýja hlutafélagi.
 2. Hvernig hlutafé hins nýja félags skal skiptast á milli félagsmanna í A-deild og hluthafa í B-deild.

     Ef félagsfundur samþykkir tillögu um breytingu skulu eigendur hluta í B-deild stofnsjóðs boðaðir til sérstaks fundar til ákvörðunar um tillöguna. Hluthafar sem ráða yfir meiri hluta í B-deild geta þar hafnað ákvörðun félagsfundar í A-deild.
     Gerð skal sérfræðiskýrsla skv. 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þar sem fram kemur mat á fjárhæð hlutafjár samkvæmt áætluninni og eftir atvikum rökstutt álit á því hvort hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins og skiptahlutfall á milli félagsmanna og hluthafa sé eðlilegt og sanngjarnt, svo og innbyrðis milli félaganna. Þegar skiptahlutfall milli A-deildar og B-deildar er metið skal taka mið af þeim réttindum, sem aðilar hafa í samvinnufélagi, og hvaða réttindi þeir fá í hinu nýstofnaða hlutafélagi. Sérfræðiskýrslunni skulu fylgja ársreikningar félagsins fyrir síðustu tvö reikningsár, efnahags- og rekstrarreikningur fyrir liðinn hluta yfirstandandi reikningsárs og að auki upphafsefnahagsreikningur hins nýja félags. Um hæfi og störf sérfræðinganna gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög.
     
     b. (61. gr. a.)
     Ef félagsmenn gera grein fyrir því á félagsfundi, áður en gengið er til atkvæða um tillögu, að þeir vilji ekki gerast hluthafar í hinu nýja hlutafélagi, og ef þeir greiða atkvæði gegn tillögunni, geta þeir krafist þess að greidd verði út fjárhæð séreignarhlutar í stofnsjóði félagsins eins og hann stendur fyrir breytinguna.
     Hluthafar í B-deild félags, er verið hafa á móti breytingartillögu, eiga kröfu á að hlutabréf þeirra verði innleyst ef skrifleg krafa er gerð um það innan mánaðar frá því að fundurinn var haldinn. Ef þess hefur verið farið á leit við hluthafa fyrir ákvarðanatöku að þeir sem vilja nota innlausnarréttinn gefi til kynna vilja sinn í því efni er innlausnarrétturinn bundinn því skilyrði að hlutaðeigendur hafi gefið yfirlýsingu þar um á fundinum. Félagið skal kaupa hlutina af þeim á verði sem svarar til verðmætis hlutanna. Sé ekki um samkomulag að ræða skal verðið ákveðið af matsmönnum, dómkvöddum á heimilisvarnarþingi félagsins. Hvor aðili um sig getur borið ákvörðun matsmanna undir dómstóla. Mál verður að höfða innan þriggja mánaða frá því að mat hefur farið fram.
     Félagsmenn og hluthafar í B-deild stofnsjóðs geta krafist skaðabóta af viðkomandi félagi ef þeir hafa gert fyrirvara um það á fundi sem fjallar um breytingartillöguna enda sé skiptahlutfall á milli félagsmanna og hluthafa hvorki sanngjarnt né efnislega rökstutt.
     
     c. (61. gr. b.)
     Samvinnufélagi telst slitið og hlutafélagið stofnað þegar öll neðangreind skilyrði eru uppfyllt:
 1. Breytingaráætlun hefur verið samþykkt.
 2. Ný stjórn og endurskoðendur hafa verið kjörnir fyrir hið nýja félag nema ráð sé fyrir því gert í áætluninni að sömu aðilar og áður skipi þessar trúnaðarstöður til næsta aðalfundar.
 3. Kröfur skv. 61. gr. a hafa verið útkljáðar eða fullnægjandi trygging sett fyrir þeim.

     Við breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag renna öll réttindi samvinnufélagsins og skyldur til hlutafélagsins.
     Tilkynna skal samvinnufélagaskrá um félagsslitin og hlutafélagaskrá um stofnun hlutafélags innan mánaðar frá því að framangreind skilyrði eru uppfyllt.

7. gr.

     Við 61. gr. laganna, sem verður 62. gr. a, bætist nýr töluliður sem orðast svo: Endurskoðaðir og samþykktir ársreikningar hafa ekki verið sendir samvinnufélagaskrá fyrir þrjú síðustu reikningsár, sbr. þó ákvæði laga um ársreikninga um skil á ársreikningum.

8. gr.

     62. gr. laganna verður 62. gr. b.

9. gr.

     Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Breyting á rekstrarformi samvinnufélaga og slit samvinnufélaga.

10. gr.

     Svohljóðandi breytingar verða í lögunum á tilvísunum í endurskoðendur og skoðunarmenn, sbr. lög um endurskoðendur:
 1. Í stað orðanna „löggilts endurskoðanda“ í 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. a í lögunum kemur: endurskoðanda.
 2. Í stað orðanna „varastjórnarmanna og skoðunarmanna (endurskoðenda)“ í 4. tölul. 5. gr. laganna kemur: varastjórnarmanna, endurskoðenda og skoðunarmanna.
 3. Í stað orðanna „skoðunarmanna, endurskoðanda“ í 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: endurskoðenda, skoðunarmanna.
 4. Í stað orðanna „stjórnar og skoðunarmanna (endurskoðanda)“ í c-lið 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: stjórnar, endurskoðenda og skoðunarmanna.
 5. Í stað orðanna „stjórnar og skoðunarmanna“ í d-lið 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: stjórnar, endurskoðenda og skoðunarmanna.
 6. Í stað orðanna „stjórnarmanna og skoðunarmanna“ í 1. mgr. 35. gr. laganna kemur: stjórnarmanna, endurskoðenda og skoðunarmanna.
 7. Í stað orðanna „löggilts endurskoðanda“ í 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: endurskoðanda.
 8. Í stað orðanna „skoðunarmönnum og endurskoðanda“ í 1. mgr. 55. gr. laganna kemur: endurskoðendum og skoðunarmönnum, og í stað orðanna „löggiltur endurskoðandi“ í sömu málsgrein kemur: endurskoðandi.
 9. Í stað orðanna „löggilts endurskoðanda“ í 2. mgr. 62. gr. laganna, sem verður 62. gr. b, kemur: endurskoðanda.
 10. Í stað orðanna „löggiltur endurskoðandi“ í 4. mgr. 62. gr. laganna, sem verður 62. gr. b, kemur: endurskoðandi.
 11. Í stað orðanna „skoðunarmenn og endurskoðandi“ í 1. mgr. 74. gr. laganna kemur: endurskoðendur og skoðunarmenn.
 12. Í stað orðanna „skoðunarmönnum og endurskoðanda“ í c-lið 1. mgr. 76. gr. laganna kemur: endurskoðendum og skoðunarmönnum.
 13. Í stað orðanna „skoðunarmenn, endurskoðandi“ í 77. gr. laganna kemur: endurskoðendur, skoðunarmenn.


11. gr.

     Svohljóðandi breytingar verða á millivísunum í einstökum greinum laganna:
 1. Í 56. gr. laganna: „92. gr.“ verður: 70. gr.
 2. Í 57. gr. laganna: „87. gr.“ verður: 65. gr.
 3. Í 59. gr. laganna: „78. gr. og 79. gr.“ verður: 56. og 57. gr.
 4. Í 62. gr. laganna sem verður 62. gr. b: „83. gr.“ verður: 62. gr. a.
 5. Í 64. gr. laganna: „83. gr.“ verður: 62. gr. a.
 6. Í 65. gr. laganna: „86. gr.“ verður: 64. gr.
 7. Í 67. gr. laganna: „86. gr.“ verður: 64. gr.
 8. Í 69. gr. laganna: „89. gr.“ verður: 67. gr.
 9. Í 70. gr. laganna: „93. gr.“ verður: 71. gr.
 10. Í 75. gr. laganna: „96. gr.“ verður: 74. gr.
 11. Í 76. gr. laganna: „97. gr.“ verður: 75. gr.
 12. Í 79. gr. laganna: „100. gr.“ verður: 78. gr.


12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
Sértækt endurmat.
     Samvinnufélagi er heimilt að endurmeta séreignarhluti félagsaðila í A-deild stofnsjóðs þess fyrir árslok 2004. Endurmat þetta skal byggt á verðmæti hreinnar eignar félags í árslok 1996, samkvæmt lögum um ársreikninga, að teknu tilliti til opinberra gjalda, sem tengd eru því ári, og varasjóðs eða fjárfestingarsjóðs sem myndaður hefur verið samkvæmt eldri skattalögum og ekki verið leystur upp og tekjufærður fyrir þann tíma. Ákvæði 7. mgr. 61. gr. gildir um innbyrðis skiptingu félagsmanna.
     Ákvæði 4.–6. mgr. 38. gr. gilda um ákvörðun samkvæmt þessari grein.

Samþykkt á Alþingi 27. apríl 2001.