Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1148, 126. löggjafarþing 449. mál: samvinnufélög (innlánsdeildir).
Lög nr. 23 7. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum (innlánsdeildir).


1. gr.

     2. gr. a í lögunum orðast svo:
     Heimilt er samvinnufélagi, að fullnægðum skilyrðum sem talin eru upp í 2. mgr., að starfrækja innlánsdeild sem tekur við innlögum frá félagsmönnum og viðskiptaaðilum til ávöxtunar sem rekstrarfé félagsins. Um útborganir á innlögum fer eftir ákvæðum félagssamþykkta. Hlutafélag, sem breytt hefur verið úr samvinnufélagi á grundvelli 61. gr., 61. gr. a og 61. gr. b, skal hafa sömu heimild og samvinnufélagið til að reka áfram innlánsdeild og skal í þessum rekstri hafa sömu réttarstöðu í íslenskri löggjöf og samvinnufélög eftir því sem við á.
     Skilyrði fyrir því að samvinnufélag megi starfrækja innlánsdeild eru:
  1. Að eigið fé félagsins sé minnst 100 milljónir króna og hlutfall eigin fjár þess af heildareignum eigi lægra en 15% eftir að frá eigin fé og heildareignum hefur verið dregið bókfært virði óskráðra eignarhluta og kröfur á dóttur- og hlutdeildarfélög. Sé saminn samstæðureikningur gildir eiginfjárkrafan fyrir samstæðuuppgjörið eingöngu. Samvinnufélag skal hafa aðlagað sig þessu skilyrði eigi síðar en 31. desember árið 2002 fullnægi félagið ekki skilyrðinu þegar við gildistöku laganna. Eiginfjárhlutfall félaga, sem fullnægja ekki skilyrðinu við gildistöku laganna, skal eigi vera lægra en 18% á aðlögunartímanum. Fullnægi samvinnufélag ekki þessum skilyrðum er viðskiptaráðherra heimilt að veita félaginu frest í allt að sex mánuði til þess að auka eigið fé að fyrrgreindum lágmörkum. Séu til þess ríkar ástæður að mati ráðherra er honum heimilt að framlengja þennan frest í allt að þrjá mánuði.
  2. Að endurskoðun á reikningum félagsins sé í höndum endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.
  3. Að félagið sé aðili að Tryggingarsjóði innlánsdeilda. Samþykktir sjóðsins skulu staðfestar af viðskiptaráðherra. Í samþykktum skal m.a. kveðið á um eignarhald á sjóðnum og ráðstöfun eigna hans til samvinnufélaga við slit á honum eða slit á innlánsdeild.

     Til tryggingar fyrir fé því sem lagt er í innlánsdeild eru eignir félagsins, þar með talin eign í Tryggingarsjóði innlánsdeilda og ábyrgð félagsmanna skv. 18. gr.
     Óheimilt er innlánsdeild að veita lán í eigin nafni eða reka aðra fjármálastarfsemi en um getur í 1. mgr. og hún telst hvorki innláns- né lánastofnun í skilningi laga um Seðlabanka Íslands.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi innlánsdeilda samvinnufélaga samkvæmt þessari grein. Hver innlánsdeild skal senda Fjármálaeftirlitinu endurskoðaðan ársreikning eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningstímabils og sex mánaða árshlutareikning eigi síðar en tveimur mánuðum eftir lok reikningstímabils. Sex mánaða árshlutareikningur skal vera áritaður af endurskoðanda sem endurskoðaður eða kannaður. Um eftirlitið gilda að öðru leyti ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Tryggingarsjóður innlánsdeilda er undanþeginn tekjuskatti og eignarskatti.

2. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða í lögunum orðast svo:
     Ríkissjóður skal endurgreiða álagða tekjuskatta og eignarskatta á Tryggingarsjóð innlánsdeilda.
     Ákvæði 2. gr. a skal taka til endurskoðunar eigi síðar en 1. janúar 2004.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 27. apríl 2001.