Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1489, 126. löggjafarþing 623. mál: húsnæðismál (kærunefnd, afskriftir, vanskil o.fl.).
Lög nr. 77 31. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.


1. gr.

     Orðin „samkvæmt lögum þessum“ í lok 1. mgr. 41. gr. laganna falla brott.

2. gr.

     42. gr. laganna orðast svo:
Valdsvið.
     Málsaðili getur skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem falið hefur verið verkefni húsnæðisnefndar til kærunefndar húsnæðismála. Skal það gert innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun.
     Málskot til nefndarinnar frestar ekki framkvæmd kærðrar ákvörðunar nema nefndin ákveði annað.
     Úrskurði kærunefndar húsnæðismála verður ekki skotið til félagsmálaráðherra.
     Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um störf og starfshætti kærunefndar og skrifstofuhald.

3. gr.

     Við 47. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 2. og 3. mgr. og orðast svo:
     Stjórn Íbúðalánasjóðs er einnig heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins í sérstökum tilvikum, svo sem þegar íbúð sem stóð að veði fyrir viðkomandi kröfu hefur eyðilagst af óviðráðanlegum orsökum og eigandi hennar hefur ekki fengið bætur eða bætur hafa ekki dugað til uppgreiðslu á áhvílandi kröfum. Skilyrði fyrir afskriftum samkvæmt þessari málsgrein eru að fasteignareigandi hafi tekið venjubundnar fasteignatryggingar.
     Stjórn Íbúðalánasjóðs skal afla samþykkis varasjóðs viðbótarlána til að afskrifa útistandandi veðkröfur viðbótarlána.

4. gr.

     48. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt að veita skuldbreytingarlán til allt að 15 ára í því skyni að leysa úr tímabundnum greiðsluerfiðleikum hjá lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið, sbr. 53. gr. Skilyrði er að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum.
     Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt, með sömu skilyrðum og um getur í 1. mgr., að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið, sbr. 53. gr., í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, enda þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Upphaflegur lánstími lengist sem nemur frestunartíma.
     Skuldbreytingarlán skv. 1. mgr. og frestun á greiðslum skv. 2. mgr. geta farið saman.
     Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt að lengja upphaflegan lánstíma lána sjóðsins hjá hverjum lántaka um allt að 15 ár með sömu skilyrðum og nefnd eru í 1. mgr. Hámarkslánstími hvers láns má ekki vera lengri en 55 ár.
     Stjórn varasjóðs viðbótarlána skal samþykkja aðstoð Íbúðalánasjóðs skv. 1.–4. mgr. vegna lána sjóðsins sem eru með veði í íbúð sem viðbótarlán hvílir á.
     Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt að fresta greiðslum hjá lántakendum lána til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði og lánþegum eldri lána sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið, sbr. 53. gr., vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika. Skilyrði er að greiðsluvandi sé tilkominn vegna ófyrirséðra atvika eða endurskipulagningar á fjárhag félaga eða félagasamtaka, enda þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

5. gr.

     2. tölul. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis III í lögunum orðast svo: Sveitarstjórn getur ákveðið að leigja íbúðina út. Áður skal sveitarstjórn greiða upp áhvílandi lán sem veitt hafa verið af Byggingarsjóði verkamanna og/eða Byggingarsjóði ríkisins eða leita eftir samþykki Íbúðalánasjóðs á yfirtöku lána úr Byggingarsjóði verkamanna og/eða Byggingarsjóði ríkisins. Sveitarstjórn sem greitt hefur upp áhvílandi lán sem veitt hafa verið af Byggingarsjóði verkamanna og/eða Byggingarsjóði ríkisins skal eiga rétt á nýju láni úr Íbúðalánasjóði skv. VIII. kafla laga þessara. Þá skal sveitarstjórn sem yfirtekur lán úr Byggingarsjóði verkamanna og/eða Byggingarsjóði ríkisins eiga rétt á nýju láni úr Íbúðalánasjóði skv. VIII. kafla laga þessara sem má nema mismun á áhvílandi lánum og allt að 90% af innlausnarverði íbúðar. Heildarlánveiting Íbúðalánasjóðs getur þó aldrei orðið hærri en 90% af innlausnarverði íbúðar.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.