Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1500, 126. löggjafarþing 602. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (grænt bókhald o.fl.).
Lög nr. 87 31. maí 2001.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast eftirfarandi skilgreiningar:
      Grænt bókhald er efnisbókhald þar sem fram koma upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, aðallega í formi tölulegra upplýsinga.
      Skýrsla um grænt bókhald merkir niðurstöður græns bókhalds fyrir hvert bókhaldstímabil þess.

2. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, 17. tölul., svohljóðandi: færslu græns bókhalds, form og framsetningu skýrslna um grænt bókhald, upplýsingar sem þar skulu koma fram, skilafresti á skýrslum um grænt bókhald, aðila sem heimilt er að skila grænu bókhaldi án þess að þeim sé það skylt og endurskoðun þess og birtingu.

3. gr.

     Á eftir 6. gr. laganna kemur ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
     Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnustarfsemi sem háð er starfsleyfi skv. 5. gr. og nánar greinir í fylgiskjali II með lögum þessum.
     Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, þ.m.t. tölulegar upplýsingar um meginnotkun hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og helstu tegundir og magn mengandi efna sem losuð eru í loft, láð eða lög, koma fram í framleiðsluvöru eða falla til sem úrgangur. Ekki er þó skylt að setja í skýrslu um grænt bókhald upplýsingar sem starfsleyfishafi telur vera framleiðsluleyndarmál, enda séu slík atriði tilgreind og ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu útgefanda starfsleyfis.
     Starfsleyfishafi ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald. Skýrsla um grænt bókhald skal endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja.
     Senda skal útgefanda starfsleyfis árlega skýrslu um grænt bókhald. Útgefandi starfsleyfis skal kanna hvort skýrsla um grænt bókhald fullnægi þeim formkröfum sem gerðar eru til skýrslna um grænt bókhald. Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún því næst senda skýrsluna áfram til Hollustuverndar ríkisins.
     Hollustuvernd ríkisins annast birtingu skýrslna um grænt bókhald og gerð leiðbeininga um grænt bókhald. Birting skýrslu um grænt bókhald felur ekki í sér viðurkenningu Hollustuverndar ríkisins á þeim upplýsingum sem þar koma fram.

4. gr.

     Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:
     Þegar sérstaklega stendur á getur ráðherra, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins, veitt undanþágu frá skyldu um færslu græns bókhalds skv. 6. gr. a.

5. gr.

     Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Starfi að minnsta kosti fimm heilbrigðisfulltrúar á viðkomandi eftirlitssvæði í fullu starfi er heimilt að víkja frá því skilyrði að framkvæmdastjóri hafi réttindi sem heilbrigðisfulltrúi, enda sé hann í fullu starfi sem framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits og hafi, auk háskólaprófs, staðgóða þekkingu á heilbrigðiseftirliti.

6. gr.

     4. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Í þeim tilvikum þar sem Hollustuvernd ríkisins fer með eftirlit fer um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við þennan kafla laganna.

8. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Fyrsta bókhaldsár græns bókhalds skal vera árið 2003.
     Ráðherra getur með reglugerð heimilað Hollustuvernd ríkisins að semja við starfsleyfishafa sem skuldbinda sig til að taka upp viðurkennd umhverfisstjórnunarkerfi um frest til að taka upp grænt bókhald. Fyrsta bókhaldsár skal þó eigi verða síðar en árið 2006.

9. gr.

     Við lögin bætist nýtt fylgiskjal, svohljóðandi:
Starfsemi sem færa skal grænt bókhald.
     
1. Orkuiðnaður.
1.1. Brennslustöðvar með meiri nafnhitaafköst en 50 MW.
1.2. Jarðolíu- og gashreinsunarstöðvar.
1.3. Koksverksmiðjur.
1.4. Iðjuver þar sem kolagösun og þétting fer fram.
2. Framleiðsla og vinnsla málma.
2.1. Álframleiðsla.
2.2. Kísiljárnframleiðsla.
2.3. Kísilmálmframleiðsla.
2.4. Kísil- og kísilgúrframleiðsla.
2.5. Járn- og stálframleiðsla.
2.6. Sinkframleiðsla.
2.7. Framleiðsla á magnesíum og efnasamböndum sem innihalda magnesíum.
3. Jarðefnaiðnaður.
3.1. Sements- og kalkframleiðsla.
3.2. Stöðvar þar sem vinnsla asbests og framleiðsla vara sem innihalda asbest fer fram.
3.3. Glerullarframleiðsla. Stöðvar þar sem framleiðsla glers, einnig glertrefja, fer fram og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.4. Steinullarframleiðsla. Stöðvar þar sem bræðsla jarðefna, einnig steinullartrefja, fer fram og sem geta brætt meira en 20 tonn á dag.
3.5. Stöðvar þar sem framleiðsla leirvara fer fram með brennslu, einkum þakflísa, múrsteina, eldfastra múrsteina, flísa, leirmuna eða postulíns, sem geta framleitt meira en 75 tonn á dag og/eða rúmtak ofns er meira en 4 m3 og setþéttleiki hans er meiri en 300 kg/m3.

      4. Efnaiðnaður.
     Með framleiðslu í starfsemi sem fellur undir þennan þátt er átt við mikla framleiðslu með efnafræðilegri vinnslu efna eða flokka efna sem er getið í liðum 4.1–4.6.
4.1. Efnaverksmiðjur sem framleiða lífræn grunnefni, svo sem:

      a)    einföld vetniskolefni,

      b)    vetniskolefni með súrefni, svo sem alkóhól, aldehýð, ketón, karboxýlsýrur, estera, asetöt, etera, peroxíð, epoxýresín,

      c)    brennisteinsvetniskolefni,

      d)    köfnunarefnisvetniskolefni, svo sem amín, amíð, nítursambönd, nítrósambönd eða nítratsambönd, nítríl, sýanöt, ísósýanöt,

      e)    vetniskolefni með fosfór,

      f)    halógenvetniskolefni,

      g)    lífræn málmsambönd,

      h)    plastefni,

      i)    gervigúmmí,

      j)    litarefni og dreifuliti,

      k)    yfirborðsvirk efni.
4.2. Efnaverksmiðjur sem framleiða ólífræn grunnefni, svo sem:

      a)    gös, svo sem ammóníak, klór eða vetnisklóríð, flúor eða vetnisflúoríð, koloxíð, brennisteinssambönd, köfnunarefnisoxíð, vetni, brennisteinsdíoxíð, karbónýlklóríð,

      b)    sýrur, svo sem krómsýru, flúorsýru, fosfórsýru, saltpéturssýru, saltsýru, brennisteinssýru, óleum, brennisteinstvísýrling,

      c)    basa, svo sem ammóníumhýdroxíð, kalíumhýdroxíð, natríumhýdroxíð,

      d)    sölt, svo sem ammóníumklóríð, kalíumklórat, kalíumkarbónat, natríumkarbónat, perbórat, silfurnítrat,

      e)    málmleysingja, málmoxíð eða önnur ólífræn sambönd, svo sem kalsíumkarbíð, kísil, kísilkarbíð.
4.3. Áburðarframleiðsla. Efnaverksmiðjur sem framleiða áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur).
4.4. Efnaverksmiðjur sem framleiða grunnvörur fyrir plöntuheilbrigði og sæfiefni.
4.5. Stöðvar þar sem notaðar eru efnafræðilegar og líffræðilegar aðferðir við framleiðslu grunnlyfjavara.
4.6. Efnaverksmiðjur sem framleiða sprengiefni.
4.7. Kítín- og kítosanframleiðsla.
4.8. Lím- og málningarvöruframleiðsla.
5. Úrgangsstarfsemi.
5.1. Stöðvar fyrir meðhöndlun, förgun eða endurnýtingu spilliefna.
5.2. Stöðvar fyrir sorpbrennslu sem geta afkastað meira en 3 tonnum á klukkustund.
5.3. Stöðvar fyrir förgun úrgangs annars en spilliefna sem geta afkastað meira en 50 tonnum á dag.
5.4. Urðunarstaðir sem taka við meira en 10 tonnum á dag eða geta afkastað meira í heild en 25.000 tonnum af óvirkum úrgangi.
6. Önnur starfsemi.
6.1. Pappírs- og trjákvoðuframleiðsla. Iðjuver sem framleiða:

      a)    deig úr viði eða önnur trefjaefni,

      b)    pappír og pappa og geta framleitt meira en 20 tonn á dag.
6.2. Stöðvar þar sem fram fer formeðferð eða litun trefja eða textílefna og vinnslugeta er meiri en 10 tonn á dag.
6.3. Sútunarverksmiðjur. Stöðvar þar sem fram fer sútun á húðum og skinnum og vinnslugeta er meiri en 12 tonn af fullunninni vöru á dag.
6.4. Matvælavinnsla:

      a)    Sláturhús sem geta framleitt meira en 50 tonn af skrokkum á dag.

      b)    Meðferð og vinnsla fyrir matvælaframleiðslu úr:

       –    hráefnum af dýrum, öðrum en mjólk, þar sem hægt er að framleiða meira en 75 tonn af fullunninni vöru á dag,

       –    hráefnum af jurtum þar sem hægt er að framleiða að meðaltali meira en 300 tonn af fullunninni vöru á dag.

      c)    Meðferð og vinnsla mjólkur, tekið er á móti meira en 200 tonnum af mjólk á dag miðað við meðaltal á ársgrundvelli.
6.5. Stöðvar þar sem förgun eða endurvinnsla skrokka og úrgangs af dýrum fer fram og afkastageta er meiri en 10 tonn á dag.
6.6. Stöðvar þar sem þauleldi alifugla eða svína fer fram með fleiri en:

      a)    40.000 stæði fyrir alifugla,

      b)    2.000 stæði fyrir alisvín yfir 30 kg eða

      c)    750 stæði fyrir gyltur.
6.7. Stöðvar þar sem fram fer yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða með lífrænum leysiefnum, einkum pressun, prentun, húðun, fituhreinsun, vatnsþétting, meðhöndlun eða þakning með límvatni, málun, hreinsun eða gegndreyping og meira en 150 kg eru notuð á klukkustund eða meira en 200 tonn á ári.
6.8. Stöðvar þar sem fram fer framleiðsla kolefna eða rafgrafíts með brennslu eða umbreytingu í grafít.
6.9. Fiskimjölsverksmiðjur með meiri framleiðsluafköst en 400 tonn á sólarhring.
6.10. Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera þar sem ársframleiðsla er meiri en 200 tonn og fráveita til sjávar eða ársframleiðsla er meiri en 20 tonn og fráveita í ferskvatn.
6.11. Olíumalar- og malbikunarstöðvar með fasta staðsetningu.


10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 2001.