Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 576, 127. löggjafarþing 150. mál: lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda (EES-reglur).
Lög nr. 141 21. desember 2001.

Lög um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.


1. gr.

     Samkvæmt lögum þessum geta stjórnvöld eða samtök, sem um ræðir í 2. og 3. gr., leitað lögbanns eða höfðað dómsmál skv. 4. gr. til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðirnar að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn eftirtöldum tilskipunum sem þar gilda, eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög:
 1. Tilskipun ráðsins 84/450/EBE frá 10. september 1984 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar.
 2. Tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva.
 3. Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12. febrúar 1987, bls. 48) eins og henni var síðast breytt með tilskipun 98/7/EB.
 4. Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur: 10.–21. gr. eins og henni var breytt með tilskipun 97/36/EB.
 5. Tilskipun ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka.
 6. Tilskipun ráðsins 92/28/EBE frá 31. mars 1992 um auglýsingu lyfja sem ætluð eru mönnum.
 7. Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum.
 8. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni.
 9. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga.
 10. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 99/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi.
 11. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“).


2. gr.

     Erlend stjórnvöld, sem getið er á skrá Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ákvæða í tilskipun 98/27/EB, geta að fullnægðum ákvæðum 1. gr. leitað lögbanns eða höfðað dómsmál hér á landi skv. 4. gr. Sama á við um samtök sem þannig eru skráð og gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði ef brot beinist gegn slíkum hagsmunum.

3. gr.

     Viðskiptaráðuneytið getur fyrir yfirvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu leitað lögbanns eða höfðað dómsmál skv. 4. gr. til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnarinnar gætt hér á landi.
     Ráðherra getur jafnframt útnefnt önnur stjórnvöld og íslensk félagasamtök, sem gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði, til að njóta heimildar til að grípa til aðgerða eins og um ræðir í 1. mgr. Setja má í reglugerð nánari skilyrði fyrir þessari heimild og notkun hennar. Ráðherra skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir samkvæmt þessu og nánari skilyrði, sem kunna að verða sett um heimild þeirra í reglugerð, til að fá þau tekin þar á skrá, sbr. 2. gr.

4. gr.

     Í þeim tilgangi, sem um ræðir í 1. gr., geta stjórnvöld eða samtök, sem njóta réttar skv. 2. og 3. gr., leitað lögbanns hér á landi við athöfn sem ákvæði 1. gr. geta tekið til. Um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest gilda almennar reglur að öðru leyti en því að gerðarbeiðandi getur að fengnu lögbanni krafist þess að sýslumaður láti birta auglýsingu um það svo að komið verði í veg fyrir að áfram gæti afleiðinga af háttseminni sem lögbann var lagt við. Fallist sýslumaður á að nauðsyn beri til slíkrar auglýsingar skal hann verða við kröfu um að fá hana birta en kostnaður af því greiðist þá úr ríkissjóði.
     Í sama skyni og um ræðir í 1. mgr. geta stjórnvöld eða samtök, sem þar greinir, höfðað einkamál hér á landi til að fá bann lagt við athöfn.

5. gr.

     Lög þessi eru sett með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/99 24. september 1999, um að fella inn í EES-samninginn og taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2001.