Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 876, 127. löggjafarþing 286. mál: umgengni um nytjastofna sjávar (brottkast afla).
Lög nr. 13 4. mars 2002.

Lög um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.


1. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Veiðum skal hagað þannig að afli skemmist ekki í veiðarfærum. Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á um notkun einstakra veiðarfæra.
     Skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða fæst í ákveðin veiðarfæri. Þá getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.
     Komi afli í veiðarfæri fiskiskips sem er selbitinn eða skemmdur á annan hátt og ekki er unnt að komast hjá við tilteknar veiðar er ráðherra heimilt að ákveða að hann reiknist ekki til aflamarks skipsins. Þeim afla skal haldið aðgreindum frá öðrum afla skipsins, hann veginn og skráður sérstaklega. Ráðherra setur frekari reglur um framkvæmd þessarar málsgreinar, þar á meðal um leyfilega nýtingu þessa afla.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 26. febrúar 2002.