Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 821, 127. löggjafarþing 203. mál: samningsbundnir gerðardómar (fullnusta erlendra gerðardóma).
Lög nr. 16 27. febrúar 2002.

Lög um breyting á lögum um samningsbundna gerðardóma, nr. 53 24. maí 1989.


1. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Hafi mál verið höfðað skv. 1. mgr. getur dómari ákveðið samkvæmt kröfu að fresta réttaráhrifum gerðardóms meðan málið er leitt til lykta. Ákveða má að slík frestun sé bundin því að lögð sé fram trygging fyrir efndum skuldbindingar samkvæmt gerðardóminum. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein skal tekin með úrskurði sem kæra má til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum laga um meðferð einkamála.

2. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Um aðförina fer eftir sömu reglum og gilda um dóma uppkveðna af íslenskum dómstólum og sáttir sem komist hafa á fyrir þeim.

3. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Um aðför til fullnustu gerðardóms skv. 1. eða 2. mgr. fer eftir sömu reglum og gilda um aðför til fullnustu erlendra dómsúrlausna.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. febrúar 2002.