Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 928, 127. löggjafarþing 252. mál: loftferðir (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.).
Lög nr. 21 18. mars 2002.

Lög um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998.


1. gr.

     5. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Gjalddagar eftirlitsgjalda skulu vera tveir á ári. Hinn 1. júlí skal greitt fyrir tímabilið frá 1. janúar til 30. júní og 1. janúar skal greitt fyrir tímabilið frá 1. júlí til 31. desember.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
 1. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sömu aðilum er í þessu skyni heimilt að krefja umráðanda samkvæmt loftfaraskrá, flugstjóra og áhöfn loftfars og aðra starfsmenn aðila, sem ber að starfa samkvæmt leyfum útgefnum af Flugmálastjórn Íslands, þ.m.t. starfsmenn viðhaldsstöðva eða viðhaldsaðila, þeirrar aðstoðar sem þörf er á.
 2. Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
 3.      Með samsvarandi hætti og kveðið er á um í 1. og 2. mgr. skal Flugmálastjórn Íslands heimill aðgangur að sérhverri starfsstöð þeirra aðila sem ber að starfa samkvæmt leyfum útgefnum af stofnuninni, þ.m.t. viðhaldsstöðvum loftfara, einnig að gögnum og skrám sem viðhaldið varða, flugskýlum og öðrum þeim mannvirkjum og gögnum sem komið er upp og við haldið í þágu loftferða.


3. gr.

     Við 28. gr. laganna bætast fimm nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn Íslands viðurkennir framleiðendur og viðhaldsaðila samkvæmt umsókn þeirra þar um, enda fullnægi þeir þeim skilyrðum sem ráðherra setur með reglugerð um:
 1. starfsemislýsingu, sem skal m.a. taka til skipulags og gæðastjórnunar,
 2. kunnáttu og hæfni ábyrgra fyrirsvarsmanna,
 3. húsnæði, tækjakost og annan búnað,
 4. fjárhag, en tryggt fjárstreymi skal á hverjum tíma nægja til þriggja mánaða reksturs.

     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að áskilja að fyrirsvarsmenn, þ.e. ábyrgðarmaður, tæknistjóri og gæðastjóri, sanni kunnáttu sína og hæfni með sérstakri próftöku. Að fenginni viðurkenningu Flugmálastjórnar Íslands ber þeim að starfa sem sérstakir trúnaðarmenn stofnunarinnar. Komi í ljós að kunnáttu eða hæfni fyrirsvarsmanns sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við Flugmálastjórn getur hún fellt viðurkenningu sína úr gildi.
     Flugmálastjórn Íslands er hvenær sem er heimilt að gera úttekt á starfsstöðvum framleiðenda og viðhaldsaðila og er fyrirsvarsmönnum slíks reksturs skylt að veita í því skyni þann aðgang og atbeina sem stofnunin krefst.
     Flugmálastjórn Íslands getur gefið út lofthæfisfyrirmæli, einnig rekstrarfyrirmæli varðandi einstaka rekstrarþætti hjá framleiðendum og viðhaldsaðilum. Slík fyrirmæli geta þó einnig varðað reksturinn í heild. Rekstrarfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana, í þágu aukins flugöryggis, háða því að tiltekin skilyrði sem stofnunin setur séu uppfyllt. Rekstrarfyrirmæli skulu greina ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissvið og gildistíma og þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi rekstraraðila ber að viðhafa.
     Brjóti viðurkenndur framleiðandi eða viðhaldsaðili lagaboð, önnur fyrirmæli um starfsemina eða skilyrði leyfis eða reynist hann ófær um að reka starfsemina samkvæmt þeim fyrirmælum sem um hana gilda getur Flugmálastjórn Íslands svipt hann leyfi að nokkru leyti eða öllu, eftir mati stofnunarinnar á aðstæðum. Leyfissvipting að hluta skal þá varða nánar afmarkaða þætti í starfi hlutaðeigandi leyfishafa, til að mynda tiltekið loftfar eða tiltekna viðhaldsþætti. Sviptingin skal í fyrstu vera til bráðabirgða meðan mál er rannsakað með tilliti til þess hvort efni séu til endanlegrar leyfissviptingar. Bráðabirgðasviptingunni skal markaður tími.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „flugliðar“ í 1. málsl. kemur: flugverjar.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Almennt aldurshámark flugliða í flutningaflugi skal vera 60 ár, en ráðherra skal heimilt að kveða á um með reglugerð að framlengja megi þessi mörk til allt að 65 ára aldurs, að fullnægðum skilyrðum sem hann setur.


5. gr.

     3. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
     Farþegum er skylt að fara eftir fyrirmælum flugstjóra eða annarra flugverja um góða hegðun og reglu í loftfari.

6. gr.

     Á eftir 42. gr. laganna kemur ný grein er verður 42. gr. a, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn Íslands setur reglur um takmarkanir á veitingu áfengis til farþega og um meðferð öryggisbúnaðar og raftækja um borð í íslenskum loftförum, eftir því sem stofnunin telur nauðsynlegt í þágu flugöryggis.

7. gr.

     1. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna orðast svo: Verði flugslys sem af hlýst mannslát, stórfelld meiðsl á mönnum eða stórfelld spjöll á loftfari eða eignum utan þess ber flugstjóra, öðrum flugverjum eða öðrum starfsmönnum flugrekanda, starfsmönnum á flugvelli, flugumferðarstjórum, viðhaldsaðilum eða öðrum starfsmönnum í öryggistengdum störfum tafarlaust að sjá um að rannsóknarnefnd flugslysa sé tilkynnt um slysið og gefa síðan skýrslu um það svo fljótt er verða má.

8. gr.

     56. gr. laganna orðast svo:
     Flugvöllur telst afmarkað landsvæði, að meðtöldum byggingum og búnaði sem ætlað er til afnota við komur, brottfarir og hreyfingar loftfara á jörðu niðri. Flugvellir og búnaður þeirra skulu fullnægja þeim kröfum sem samgönguráðherra setur í reglugerð eða gilda samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, eftir því sem landfræðilegar aðstæður leyfa. Í reglugerð um flugvelli skulu þeir flokkaðir eftir þjónustustigi og lágmarksflugvallarþjónusta skilgreind. Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að flugvellir uppfylli gerðar kröfur.
     Nú vill aðili hefja starfrækslu flugvallar í þágu almenningsflugs og skal þá umráðamaður og/eða eigandi hans sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands minnst þremur mánuðum fyrir fyrirhugaða opnun hans. Umsókn fylgi umsögn þeirrar sveitarstjórnar sem í hlut á.
     Að fullnægðum þeim kröfum sem settar eru skal Flugmálastjórn Íslands gefa út starfsleyfi. Í leyfi skal koma fram nafn leyfishafa, gildistími ásamt leyfilegu umfangi starfsemi og þeim takmörkunum og skilyrðum sem leyfishafi skal hlíta.
     Flugmálastjórn Íslands getur svipt aðila starfsleyfi ef flugvöllur fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfsemi hans eru sett eða ef leyfishafi brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglna. Ákvæðum 84. gr. skal beitt gagnvart leyfishöfum flugvallarreksturs.
      Nú verða verulegar breytingar á aðstöðu flugvallar eða umfangi starfsemi eða notkun og skal eigandi eða umráðamaður þá á ný sækja um starfsleyfi.
     Flugmálastjórn Íslands skal heimilt að loka flugvelli tímabundið eða takmarka umferð um hann sé ástand eða rekstur með þeim hætti að telja má að flugöryggi kunni að verða stefnt í hættu.
     Gjaldtaka Flugmálastjórnar Íslands fyrir starf stofnunarinnar samkvæmt þessari grein skal miðast við að eftirlitsskyldir aðilar standi undir kostnaði við starfið.

9. gr.

     57. gr. laganna orðast svo:
     Leyfi Flugmálastjórnar Íslands þarf til reksturs flugstöðva vegna flutnings á farþegum og farmi í atvinnuskyni. Nánar skal kveðið á um kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila, aðstöðu og búnaðar flugstöðva í reglugerð sem ráðherra setur.
     Nú vill aðili hefja starfrækslu flugstöðvar og skal þá umráðamaður og/eða eigandi sækja um starfsleyfi til Flugmálastjórnar Íslands minnst þremur mánuðum fyrir opnun. Umsókn fylgi umsögn þeirrar sveitarstjórnar sem í hlut á.
     Að fullnægðum þeim kröfum sem settar eru skal Flugmálastjórn Íslands gefa út starfsleyfi. Í starfsleyfi skal koma fram nafn leyfishafa, gildistími ásamt leyfilegu umfangi starfsemi og þeim takmörkunum og skilyrðum sem leyfishafi skal hlíta.
     Starfsleyfi má taka aftur ef flugstöð fullnægir eigi þeim kröfum og skilyrðum sem fyrir starfsemi hennar eru sett eða ef leyfishafi brýtur í rekstri sínum í mikilvægum atriðum ákvæði laga og reglna. Ákvæðum 84. gr. skal beitt gagnvart leyfishöfum flugstöðvarreksturs.
     Nú verða verulegar breytingar á aðstöðu flugstöðvar eða umfangi starfsemi eða notkun og skal eigandi eða umráðamaður þá á ný sækja um starfsleyfi.
     Flugmálastjórn Íslands skal heimilt að loka flugstöð tímabundið eða takmarka umferð um hana sé ástand eða rekstur með þeim hætti að telja má að flugöryggi kunni að verða stefnt í hættu.
     Gjaldtaka Flugmálastjórnar Íslands fyrir starf stofnunarinnar samkvæmt þessari grein skal miðast við að eftirlitsskyldir aðilar standi undir kostnaði við starfið.

10. gr.

     Við 2. mgr. 70. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Flugmálastjórn Íslands skal hafa eftirlit með því að rekstraraðilar flugvalla og flugstöðva og flugrekendur ræki skyldur sínar á sviði flugverndar í samræmi við flugverndaráætlun sem stofnunin skal gera og viðhalda fyrir Ísland. Flugverndaráætlanir eftirlitsskyldra aðila skulu lagðar fyrir stofnunina til samþykktar, en þær skulu greina viðbrögð við ólögmætum aðgerðum gegn öryggi flugsamgangna, tilgreina fyrirkomulag við öryggisleit á mönnum, leit í farmi og farangri og gegnumlýsingu hans, tækjabúnað til slíks starfs, lýsingu á gæðakerfum og þjálfunar- og neyðaráætlanir. Þá setur stofnunin reglur um skipan og starfsemi flugverndarráðs og flugverndarnefnda, um fyrirkomulag öryggisleitar á farþegum og öðrum aðilum sem vegna starfs síns fara inn á öryggissvæði, svo og fyrirkomulag leitar í farmi og farangri og gegnumlýsingu hans.

11. gr.

     Við 2. mgr. 71. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Flugmálastjórn Íslands fer með framkvæmd Alþjóðaflugþjónustunnar sem sérstakrar rekstrareiningar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.

12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. a laganna:
 1. 4. mgr. fellur brott.
 2. Orðin „og veittrar leiðarflugsþjónustu“ í 6. mgr. falla brott.


13. gr.

     Á eftir 1. málsl. 73. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Almennt aldurshámark flugumferðarstjóra skal vera 60 ár, en ráðherra skal heimilt að kveða á um með reglugerð að framlengja megi þessi mörk til allt að 63 ára aldurs, að fullnægðum skilyrðum sem hann setur.

14. gr.

     Á eftir 1. mgr. 75. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn skal heimilt að taka upp hvers konar fjarskipti vegna flugumferðar og skrá tilkynningar sem berast vegna þeirrar umferðar.
     Um framkvæmd upptöku, varðveislu, afspilun og skráningar á notkun skal nánar kveðið á í reglugerð sem ráðherra setur að höfðu samráði við Persónuvernd.
     Óviðkomandi aðilum skal ekki veittur aðgangur að gögnum þessum nema samkvæmt sérstakri lagaheimild eða dómsúrskurði.

15. gr.

     Við 83. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Flugmálastjórn er heimilt að áskilja að fyrirsvarsmenn flugrekanda, þ.e. ábyrgðarmaður, flugrekstrarstjóri, tæknistjóri og gæðastjóri, sanni kunnáttu sína og hæfni með sérstakri próftöku. Að fenginni viðurkenningu Flugmálastjórnar Íslands ber þeim að starfa sem sérstakir trúnaðarmenn stofnunarinnar. Komi í ljós að kunnáttu eða hæfni fyrirsvarsmanns sem hlotið hefur viðurkenningu sé ábótavant eða fyrirsvarsmaður brýtur trúnað við Flugmálastjórn getur hún fellt viðurkenningu sína niður.

16. gr.

     84. gr. laganna orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands getur gefið út rekstrarfyrirmæli varðandi einstaka rekstrarþætti hjá flugrekendum og öðrum þeim aðilum sem ber að starfa samkvæmt leyfi útgefnu af stofnuninni. Slík fyrirmæli geta þó einnig varðað reksturinn í heild. Rekstrarfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana háða því að tiltekin skilyrði sem stofnunin setur séu uppfyllt í þágu aukins flugöryggis. Rekstrarfyrirmæli skulu greina ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissvið og gildistíma og þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi rekstraraðila ber að viðhafa.
     Brjóti leyfishafi lagaboð, önnur fyrirmæli um starfsemina eða skilyrði leyfis eða reynist hann ófær um að reka starfsemina samkvæmt þeim fyrirmælum sem um hana gilda getur Flugmálastjórn Íslands svipt hann leyfi að nokkru leyti eða öllu, eftir mati stofnunarinnar á aðstæðum. Leyfissvipting að hluta skal þá varða nánar afmarkaða þætti í starfi hlutaðeigandi leyfishafa, til að mynda tiltekið loftfar eða tiltekna viðhaldsstöð. Sviptingin skal í fyrstu vera til bráðabirgða meðan mál er rannsakað með tilliti til þess hvort efni séu til endanlegrar leyfissviptingar. Bráðabirgðasviptingunni skal markaður tími.

17. gr.

     Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 131. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að skerða bótarétt aðila utan loftfars, sem fyrir tjóni verður, með vátryggingarskilmálum sem lúta að sjálfsáhættu vátryggingartaka, eigin sök hans eða með ábyrgðarundanþágum, og skulu slík ákvæði teljast ógild.

18. gr.

     136. gr. laganna orðast svo:
     Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.
     Ef eftirlitsskyldur aðili veitir Flugmálastjórn Íslands ekki þær upplýsingar sem hún krefur hann um, innan þess frests sem stofnunin setur, eða sinnir ekki kröfum stofnunarinnar um úrbætur sem hún telur nauðsynlegar, innan hæfilegs frests, getur Flugmálastjórn Íslands gert aðila skylt að greiða dagsektir. Þær skulu þá greiðast þar til farið hefur verið að kröfum Flugmálastjórnar Íslands. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika hins eftirlitsskylda aðila.
     Flugmálastjórn Íslands getur lagt févíti á eftirlitsskyldan aðila sem brýtur gegn ákvörðunum sem teknar hafa verið af stofnuninni, þ.m.t. þeim sem teknar hafa verið samkvæmt ákvæðum 28., 84. og 140. gr. laga þessara. Févíti getur numið allt að 10 millj. kr. vegna hvers brots.
     Ákvörðunum um févíti eða dagsektir má skjóta til samgönguráðherra innan sjö daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um ákvörðunina, sem skal gera skriflega gagnvart þeim sem ákvörðun beinist að og með sannanlegum hætti. Sé févítis- eða dagsektaákvörðun kærð er innheimta ekki heimil fyrr en að gengnum úrskurði ráðherra. Óinnheimtar dagsektir og févíti falla ekki niður við það að eftirlitsskyldur aðili verður síðar við þeim kröfum sem knúið er á um.
     Ákvarðanir um dagsektir og févíti eru aðfararhæfar. Málskot til ráðherra frestar aðför, en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Við aðför skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fara samkvæmt ákvæðum 13. kafla aðfararlaga. Innheimt févíti og dagsektir renna til ríkissjóðs.

19. gr.

     Á eftir orðinu „loftferðamannvirkis“ í 1. mgr. 138. gr. laganna kemur: eigandi eða umráðandi viðhaldsstöðvar eða viðhaldsaðili.

20. gr.

     141. gr. laganna orðast svo:
     Brot gegn lögum þessum, reglugerðum, reglum eða fyrirmælum settum eða gefnum samkvæmt þeim varða sektum eða fangelsi allt að fimm árum. Tilraun og hlutdeild í brotum er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

21. gr.

     143. gr. laganna orðast svo:
     Nú telur Flugmálastjórn Íslands skilyrði til sviptingar skírteinisréttinda vera fyrir hendi og skal hún þá til bráðabirgða svipta hlutaðeigandi þeim rétti sem skírteini hans greinir, svo skjótt sem unnt er. Bráðabirgðasviptingin skal tímabundin. Bera má ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð opinberra mála og skal stofnunin leiðbeina hlutaðeigandi um þann rétt. Úrlausn héraðsdóms sætir kæru til Hæstaréttar.
     Sviptingartími skv. 1. mgr. skal dragast frá endanlegum sviptingartíma eins og hann kann að verða ákveðinn með dómi.

22. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Frestur til að sækja um starfsleyfi, sbr. 8. gr., til handa þeim flugvöllum sem starfræktir eru við gildistöku laga þessara skal vera tvö ár frá gildistökudegi þeirra.
     Frestur til að sækja um starfsleyfi, sbr. 9. gr., til handa þeim flugstöðvum sem starfræktar eru við gildistöku laga þessara skal vera tvö ár frá gildistökudegi þeirra.

Samþykkt á Alþingi 7. mars 2002.