Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1444, 127. löggjafarþing 620. mál: vörur unnar úr eðalmálmum (merkingar og eftirlit).
Lög nr. 77 8. maí 2002.

Lög um vörur unnar úr eðalmálmum.


I. KAFLI
Gildissvið, skilgreiningar og almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi taka til framleiðslu á vörum sem unnar eru úr eðalmálmum í atvinnuskyni og til innflutnings, kaupa og sölu á þeim.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum merkir:
 1. Ábyrgðarstimplar: Stimplar sem eru notaðir til að auðkenna vörur unnar úr eðalmálmum. Greinast þeir í nafnastimpla, hreinleikastimpla, staðarmerki og ártöl.
 2. Nafnastimpill: Stimpill sem er samþykktur, merktur og skráður hjá Löggildingarstofu og auðkennir framleiðanda eða innflytjanda vöru sem unnin er úr eðalmálmum þannig að hægt er að rekja uppruna hennar.
 3. Hreinleikastimpill: Stimpill sem sýnir skýrlega hversu mikið magn af hreinu gulli, silfri, platínu eða palladíum er í viðkomandi vöru.
 4. Eftirlitsstimpill: Opinber stimpill sem staðfestir hreinleika eðalmálma.
 5. Eðalmálmar: Gull sem inniheldur 375 þúsundhluta eða meira af hreinu gulli, silfur sem inniheldur 800 þúsundhluta eða meira af hreinu silfri, platína sem inniheldur 850 þúsundhluta eða meira af hreinni platínu og palladíum sem inniheldur 500 þúsundhluta eða meira af hreinu palladíum.


3. gr.

Yfirstjórn.
     Viðskiptaráðherra fer með yfirstjórn samkvæmt lögum þessum.

II. KAFLI
Notkun ábyrgðarstimpla.

4. gr.

Merkingar á vörum.
     Ábyrgðarstimpla má eingöngu nota á vörur sem unnar eru úr eðalmálmum.
     Allar vörur unnar úr eðalmálmum í atvinnuskyni skulu bera hreinleikastimpil og nafnastimpil og er óheimilt að flytja slíkar vörur inn til landsins, selja þær eða bjóða til sölu nema þær beri slíka stimpla.
     Vörur unnar úr eðalmálmum eða vörur sem líkjast þeim mega ekki bera stimpla sem líkjast svo stimplum samkvæmt lögum þessum að ruglingi geti valdið. Þó mega vörur ávallt bera stimpla sem heimilir eru á Evrópska efnahagssvæðinu.
     Vörur sem ekki teljast unnar úr eðalmálmum skv. 5. tölul. 2. gr. má ekki markaðssetja sem slíkar eða sem vörur úr gulli, silfri, platínu eða palladíum. Ef hlutfall gulls, silfurs, platínu eða palladíums er lægra en fram kemur í 5. tölul. 2. gr. má markaðssetja vöruna sem vöru sem inniheldur gull, silfur, platínu eða palladíum, enda komi skýrt fram að hlutfall þessara málma sé lægra en í eðalmálmum.

5. gr.

Ábyrgð.
     Framleiðandi vöru sem unnin er úr eðalmálmum ber ábyrgð á að varan sé stimpluð í samræmi við lög þessi. Ef um innflutta vöru er að ræða hvílir ábyrgðin á innflytjanda hennar.

6. gr.

Opinber staðfesting.
     Löggildingarstofa getur falið opinberum aðila eða faggiltri prófunarstofu að mæla og staðfesta hreinleika málma sem lög þessi taka til. Hún getur útbúið eftirlitsstimpil sem viðkomandi aðili notar til að staðfesta hreinleika málmanna. Framleiðandi og innflytjandi geta þá óskað eftir slíkri staðfestingu. Vara sem ber slíkan stimpil þarf ekki að bera nafnastimpil.

7. gr.

Vörur frá Evrópska efnahagssvæðinu.
     Hreinleikastimplar sem notaðir eru í ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum hreinleikastimplum, enda sé opinbert eftirlit með hreinleika eðalmálma sambærilegt eftirliti hér landi. Sama gildir um opinbera eftirlitsstimpla frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Nafnastimplar frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins eru jafngildir innlendum nafnastimplum ef unnt er að rekja hver framleiðandi vörunnar er og hann getur sýnt fram á rétt sinn til að nota nafnastimpilinn.

8. gr.

Undanþágur.
     Eftirtaldar vörur eru undanþegnar ákvæðum 4. gr. um stimplanotkun:
 1. Vörur sem eingöngu eru sýnishorn eða eingöngu eru ætlaðar til notkunar á vörusýningu.
 2. Vörur úr gulli, platínu eða palladíum sem vega minna en 1 gramm og vörur úr silfri sem vega minna en 3 grömm eða vörur sem eru svo smáar að ekki er mögulegt að stimpla þær.
 3. Vörur sem nota á til tannlækninga eða í öðru lækningaskyni.
 4. Hljóðfæri.
 5. Mynt sem er í fullu gildi.
 6. Vörur sem óumdeilanlega geta talist fornmunir.

     Heimilt er að undanþiggja aðrar vörur en þær sem tilgreindar eru í 1. mgr. ákvæðum 4. gr. séu merkingar samkvæmt þeirri grein ekki taldar nauðsynlegar til að tryggja vernd neytenda.
     Ef ekki er unnt að stimpla vöru án þess að skaða hana má staðfesta hreinleika hennar með vottorði sem Löggildingarstofa eða aðili á hennar vegum, sbr. 6. gr., gefur út.

III. KAFLI
Eftirlit og gjaldtaka.

9. gr.

Eftirlit Löggildingarstofu.
     Löggildingarstofa skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Skal Löggildingarstofa halda skrá yfir alla nafnastimpla sem hún viðurkennir.
     Löggildingarstofu er heimilt með samningi að fela faggiltri skoðunarstofu, sem hlotið hefur faggildingu í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa, að annast á sína ábyrgð markaðseftirlit með vörum sem lögin taka til.

10. gr.

Heimildir Löggildingarstofu.
     Löggildingarstofu og faggiltum skoðunarstofum, sbr. 2. mgr. 9. gr., er heimill aðgangur að starfsstöðvum framleiðenda, innflytjenda og seljenda vara sem unnar eru úr eðalmálmum vegna eftirlits á grundvelli laga þessara.
     Framleiðanda, innflytjanda og seljanda vöru er skylt að kröfu Löggildingarstofu og faggiltra skoðunarstofa, sbr. 9. gr., að veita allar upplýsingar og afhenda vörur til skoðunar eða prófunar, svo og hluti eða gögn sem nauðsynleg eru til að staðreyna að fylgt sé ákvæðum laga þessara.

11. gr.

Úrræði Löggildingarstofu.
     Komi í ljós að vara uppfyllir ekki þær kröfur sem mælt er fyrir um í lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim getur Löggildingarstofa bannað sölu hennar. Sé um að ræða rökstuddan grun um brot getur Löggildingarstofa bannað sölu á viðkomandi vöru tímabundið.
     Framleiðandi, innflytjandi eða seljandi, eftir því sem við á, skal bera þann kostnað sem hlotist getur vegna aðgerða Löggildingarstofu skv. 1. mgr.
     Sé fyrirmælum Löggildingarstofu samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim ekki hlítt getur Löggildingarstofa fylgt þeim eftir með ákvörðun um dagsektir sem lagðar skulu á viðkomandi framleiðanda, innflytjanda eða seljanda eða fyrirsvarsmenn hans. Slíkar dagsektir mega nema allt að 50.000 kr. á sólarhring. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

12. gr.

Gjaldtaka.
     Fyrir viðurkenningu og skráningu á nafnastimpli, sbr. 2. tölul. 2. gr., skal greiða Löggildingarstofu 10.000 kr. Einstaklingar eða lögaðilar sem flytja inn, framleiða og/eða selja vörur sem falla undir þessi lög skulu greiða Löggildingarstofu 12.000 kr. á ári vegna eftirlits stofnunarinnar samkvæmt lögunum, auk kostnaðar vegna sýnatöku og greiningar sýna. Ef sami einstaklingur eða lögaðili hefur fleiri en eina starfsstöð skal hann greiða gjald vegna hverrar starfsstöðvar. Gjaldið skal greitt 1. febrúar ár hvert fyrir síðasta almanaksár. Ef eftirlitsskyldur aðili hefur starfsemi á gjaldárinu skal gjaldið ákvarðað í hlutfalli við þann tíma sem starfsemin hefur varað á árinu. Aðför má gera til fullnustu kröfum vegna gjaldsins án undangengins dóms, úrskurðar eða sáttar. Gjöld samkvæmt þessari málsgrein skulu renna beint til Löggildingarstofu.
     Leiði eftirlit í ljós að vörur uppfylla ekki skilyrði laga þessara greiðir viðkomandi framleiðandi, innflytjandi eða seljandi allan útlagðan kostnað sem hlýst af nauðsynlegri viðbótarrannsókn, svo sem kostnað við sýnatöku og greiningu sýna, ferðakostnað og annan kostnað sem er í beinum og efnislegum tengslum við eftirlitið.
     Sá sem óskar staðfestingar á hreinleika málma, sbr. 6. gr., skal greiða þeim er þjónustuna veitir gjald sem nemur þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna, svo sem vegna tækjakosts og mannafla.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

13. gr.

Viðurlög.
     Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við brotinu samkvæmt öðrum lögum. Dæma má jafnt lögaðila sem einstakling til greiðslu sekta vegna brota á lögunum. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verði sönnuð á starfsmann lögaðilans.

14. gr.

Reglugerð.
     Viðskiptaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laganna. Þar má m.a. mæla fyrir um hvernig stimplar samkvæmt lögunum skuli notaðir, gerð þeirra og útlit, kröfur til hreinleika málma, heimild til að blanda saman eðalmálmum og öðrum málmum eða efnum við framleiðslu á vörum og notkun hreinleikastimpla á slíkar vörur, notkun íblöndunarefna og eftirlit.

15. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2002.

Samþykkt á Alþingi 30. apríl 2002.