Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 715, 128. löggjafarþing 376. mál: Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (tryggingardeild útflutnings).
Lög nr. 143 18. desember 2002.

Lög um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna koma þrjár málsgreinar, svohljóðandi:
     Auk þeirrar starfsemi sem lýst er í I. kafla skal við Nýsköpunarsjóð starfrækt deild er nefnist tryggingardeild útflutnings.
     Hlutverk tryggingardeildar útflutnings skal vera að veita tryggingar og ábyrgðir til þess að efla íslenskan útflutning vöru og þjónustu, auka íslenskar fjárfestingar erlendis, þátttöku í verklegum framkvæmdum erlendis og þátttöku í stærri verklegum framkvæmdum hérlendis. Hlutverk sitt rækir tryggingardeild útflutnings með því að:
  1. taka að sér að tryggja útflutningslán sem lánastofnun veitir útflytjanda eða kaupanda, enda hafi lánið verið veitt til fjármögnunar í tengslum við íslenskan útflutning á vöru eða þjónustu,
  2. taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgðir vegna samnings á milli útflytjanda og kaupanda sem gerður hefur verið vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu,
  3. taka að sér að ábyrgjast eða tryggja ábyrgð fyrir efndum á þjónustu- eða verksamningi sem gerður er vegna íslensks útflutnings á vöru eða þjónustu,
  4. gefa út verkábyrgðir eða tryggja verkábyrgð innlends aðila vegna framkvæmdar sem fer að umfangi yfir þau viðmiðunarmörk sem gerir opinberar framkvæmdir útboðsskyldar á Evrópska efnahagssvæðinu,
  5. tryggja fjárfestingar innlends fjárfestis erlendis vegna stjórnmálalegrar áhættu,
  6. tryggja búnað, sem innlendur aðili flytur á erlenda grundu í tengslum við verkefni þar, vegna stjórnmálalegrar áhættu,
  7. gefa út annars konar ábyrgð eða tryggingu en að framan greinir, enda falli hún undir hlutverk tryggingardeildar útflutnings.

     Heimildir tryggingardeildar útflutnings til að veita ábyrgð eða tryggingu takmarkast af skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skal deildin að jafnaði hvorki veita ábyrgð né tryggingu vegna viðskiptalegrar eða stjórnmálalegrar áhættu til skemmri tíma en tveggja ára í viðskiptum við aðila sem hafa staðfestu í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða öðrum ríkjum sem eru aðilar að Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnuninni (OECD) og tilgreind eru í starfsreglum stjórnarnefndarinnar, sbr. 3. mgr. 13. gr.

2. gr.

     1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnarnefnd tryggingardeildar útflutnings ákveður iðgjöld og tryggingarhlutföll deildarinnar en þau skulu háð samþykki fjármálaráðherra. Við ákvörðun þeirra skal miðað við að þau standi undir rekstri deildarinnar, greiðslu tjónabóta og myndunar varasjóðs þannig að starfsemin standi undir sér til lengri tíma litið. Starfsemi deildarinnar skal haldið aðgreindri í bókhaldi og reikningum sjóðsins.

3. gr.

     2. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
     Heildarskuldbindingar tryggingardeildar útflutnings vegna trygginga og ábyrgða skv. 11. gr. mega aldrei nema hærri fjárhæð en jafnvirði 130 millj. sérstakra dráttarréttinda (SDR).

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2002.