Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 851, 128. löggjafarþing 357. mál: opinber stuðningur við vísindarannsóknir (heildarlög).
Lög nr. 3 3. febrúar 2003.

Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir.


I. KAFLI
Markmið.

1. gr.

     Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.

II. KAFLI
Úthlutunarsjóðir.

2. gr.

Rannsóknasjóður og Tækjasjóður.
     Hlutverk Rannsóknasjóðs er að styrkja vísindarannsóknir á Íslandi. Í þeim tilgangi styrkir sjóðurinn skilgreind rannsóknarverkefni einstaklinga, rannsóknarhópa, háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja. Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu. Ákvörðun um styrkveitingu skal bundin hinu faglega mati.
     Hlutverk Tækjasjóðs er að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði til rannsókna. Við úthlutun úr Tækjasjóði skal taka mið af úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs á hverjum tíma.
     Rannsóknasjóður tekur við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs sem nú starfa samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands, nr. 61/1994, en Tækjasjóður tekur við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum. Eignir og skuldbindingar Vísindasjóðs og Tæknisjóðs falla til Rannsóknasjóðs en eignir og skuldbindingar Bygginga- og tækjasjóðs falla til Tækjasjóðs.

3. gr.

Tekjur Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs.
     Tekjur Rannsóknasjóðs eru:
 1. Fjárveiting í fjárlögum ár hvert.
 2. Gjafir frá einstaklingum eða fyrirtækjum.
 3. Önnur framlög.

     Tekjur Tækjasjóðs eru:
 1. Einkaleyfisgjald af rekstri peningahappdrætta eða aðrar sambærilegar tekjur.
 2. Önnur framlög.


4. gr.

Stjórn Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs.
     Menntamálaráðherra skipar fimm manna stjórn Rannsóknasjóðs til þriggja ára í senn. Stjórnina skipa eftirtaldir: Formaður vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs sem jafnframt er formaður sjóðstjórnar, fjórir einstaklingar sem hafa reynslu af eða þekkingu á vísindarannsóknum samkvæmt tilnefningu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs og fimm til vara. Formaður velur varaformann sjóðstjórnar úr hópi stjórnarmanna.
     Stjórn Rannsóknasjóðs skal jafnframt fara með stjórn Tækjasjóðs.
     Stjórnin metur umsóknir um styrk úr Rannsóknasjóði að fengnum umsögnum fagráða sem skipuð eru skv. 5. gr. Stjórnin leitar ráðgjafar umfram það sem fagráð sjóðsins geta veitt ef þurfa þykir. Fagráð skipað formönnum fagráða Rannsóknasjóðs metur umsóknir í Tækjasjóð áður en stjórn sjóðsins tekur þær til afgreiðslu.
     Ef til atkvæðagreiðslu kemur innan stjórnar Rannsóknasjóðs og atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns.
     Ákvarðanir stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs um styrkveitingar samkvæmt lögum þessum sæta ekki stjórnsýslukæru.
     Kostnaður við mat á umsóknum og við störf stjórnar Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé sjóðanna.
     Stjórn Rannsóknasjóðs er heimilt, að tillögu vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs, að veita viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í vísindarannsóknum af ráðstöfunarfé Rannsóknasjóðs.

5. gr.

Fagráð Rannsóknasjóðs.
     Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs skipar fagráð til tveggja ára í senn á helstu sviðum vísinda sem skulu hafa það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir stjórn Rannsóknasjóðs við úthlutanir úr sjóðnum. Vísindanefnd skipar formenn fagráða sérstaklega og eru þeir jafnframt ráðgefandi fyrir stjórn Tækjasjóðs skv. 3. mgr. 4. gr. Jafnframt eru fagráð ráðgefandi fyrir Vísinda- og tækniráð og undirnefndir þess um fagleg efni eftir því sem óskað er.
     Fagráð skulu vera skipuð allt að sjö einstaklingum með víðtæka reynslu af rannsóknum. Skulu þeir hvorki sitja í Vísinda- og tækniráði né stjórn Rannsóknasjóðs. Fagráð metur umsóknir út frá færni umsækjenda til að framkvæma verkið og aðstöðu þeirra til þess. Jafnframt skal lagt mat á vísindagildi rannsóknanna á alþjóðlegan mælikvarða eða líkur á skráningu einkaleyfis eða hugverkaréttinda eftir því sem við á.

6. gr.

Rannsóknarnámssjóður.
     Hlutverk Rannsóknarnámssjóðs er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms að loknu grunnnámi við háskóla. Menntamálaráðherra setur reglur um starfsemi sjóðsins.
     Menntamálaráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn. Í sjóðstjórn sitja fulltrúi tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, fulltrúi tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs og fulltrúi skipaður af ráðherra án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður stjórnar sjóðsins. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.
     Ákvarðanir stjórnar Rannsóknarnámssjóðs sæta ekki stjórnsýslukæru.

7. gr.

Tekjur Rannsóknarnámssjóðs.
     Tekjur Rannsóknarnámssjóðs eru framlög í fjárlögum ár hvert og framlög samstarfsaðila um rannsóknartengt framhaldsnám. Heimilt er stjórn Rannsóknarnámssjóðs að efna til samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um fjármögnun sérstakra styrkja til rannsóknartengds framhaldsnáms á afmörkuðum sviðum rannsókna.

8. gr.

Úthlutunarreglur.
     Vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs markar úthlutunarstefnu Rannsóknasjóðs og Tækjasjóðs. Stjórn Rannsóknasjóðs gefur út reglur um umsóknir, meðferð þeirra og úthlutun eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests. Þar skulu koma fram skilyrði umsókna og áherslur Vísinda- og tækniráðs.
     Stjórn Rannsóknarnámssjóðs gefur út úthlutunarreglur fyrir sjóðinn eigi síðar en sex vikum fyrir lok umsóknarfrests.
     Niðurstöður rannsókna, sem kostaðar eru með styrkjum úr Rannsóknasjóði og Rannsóknarnámssjóði, skulu birtar opinberlega og vera öllum tiltækar nema um annað sé samið.

9. gr.

Önnur verkefni.
     Menntamálaráðherra getur falið stjórnum Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs úthlutun annarra sjóða samkvæmt frekari ákvörðun þar um.

III. KAFLI
Rannsóknamiðstöð Íslands.

10. gr.

Hlutverk.
     Rannsóknamiðstöð Íslands er ríkisstofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra. Hlutverk hennar er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs. Í því felst að:
 1. Annast umsýslu Rannsóknasjóðs, Tækjasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs sem heyra undir menntamálaráðherra.
 2. Annast umsýslu Tækniþróunarsjóðs sem heyrir undir iðnaðarráðherra.
 3. Annast umsýslu annarra sjóða samkvæmt nánari ákvörðun menntamálaráðherra.
 4. Annast þjónustu við fagráð og stjórnir framangreindra sjóða.
 5. Annast gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir Vísinda- og tækniráð og nefndir þess um vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun í landinu; afla upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi.
 6. Gangast fyrir mati á árangri rannsókna, þróunar og nýsköpunar í landinu með reglulegum hætti og taka þátt í fjölþjóðlegum samanburðarathugunum á því sviði fyrir hönd Íslands þegar þess er óskað.
 7. Annast kynningu á rannsóknastarfsemi í landinu fyrir almenning.
 8. Annast kynningu og ráðgjöf fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki um möguleika á styrkjum og stuðla að samvinnu um rannsóknarverkefni innan lands og utan.
 9. Hafa samstarf við hliðstæðar erlendar stofnanir eða skrifstofur og fylgjast með þátttöku Íslands í fjölþjóðlegu vísindastarfi.
 10. Sinna öðrum verkefnum sem menntamálaráðherra felur stofnuninni. Stofnunin getur átt samstarf við og tekið að sér verkefni á sviði vísinda- og tæknimála fyrir önnur ráðuneyti samkvæmt samkomulagi.


11. gr.

Forstöðumaður.
     Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Rannsóknamiðstöðvar Íslands til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólapróf og þekkingu á starfssviði stofnunarinnar. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar, er í fyrirsvari fyrir hana út á við og ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna stofnunarinnar. Menntamálaráðherra setur forstöðumanni erindisbréf.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, með síðari breytingum.

13. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Í stað orðanna „Rannsóknarráðs Íslands“ í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 71/1994, um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, kemur: vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laga þessara skal eftirfarandi gilda:
     Þeir sem þegið hafa styrk samkvæmt lögum nr. 61/1994, um Rannsóknarráð Íslands, halda óbreyttum réttindum og skyldum samkvæmt þeim styrkveitingum.
     Rannsóknarráð Íslands samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal annast úthlutun styrkja úr sjóðum í vörslu ráðsins á árinu 2003 og jafnframt vinna að undirbúningi tillagna um úthlutunarreglur skv. 8. gr. laga þessara um styrkveitingar á árinu 2004, þó eigi lengur en til 30. mars 2003. Skipað skal í stjórn Rannsóknasjóðs samkvæmt lögum þessum eigi síðar en 1. apríl 2003.
     Núverandi stjórn Rannsóknarnámssjóðs sem skipuð var samkvæmt lögum nr. 61/1994 skal halda umboði sínu og starfa í samræmi við ákvæði laga þessara út skipunartímabil sitt.
     Samningar við þá sem ráðnir hafa verið í tímabundnar stöður rannsóknarprófessora samkvæmt lögum nr. 61/1994 halda gildi sínu í samræmi við ákvæði þeirra.
     Starfsmenn á skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands verða starfsmenn Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Embætti framkvæmdastjóra Rannsóknarráðs Íslands skal lagt niður frá og með upphafsdegi skipunar í embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands. Skipað skal í embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands eigi síðar en 1. apríl 2003.

Samþykkt á Alþingi 23. janúar 2003.